Stöðvum háskaakstur á göngu- og hjólastígum

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa lagt til að gripið verði til aðgerða í því skyni að stemma stigu við hættulegum hraðakstri léttra bifhjóla á göngu- og hjólreiðastígum borgarinnar, sem og á gangstéttum. Aðgerða er þörf þar sem mikil brögð eru að því að slíkum bifhjólum, bæði rafknúnum og bensíndrifnum, sé ekið eftir göngu- og hjólastígum, langt yfir þeim lögbundna hámarkshraða, sem gildir um bifhjól á slíkum stígum. Aðgerðirnar verði þrenns konar:

1.      Betri merkingar. Setja þarf upp skýrar merkingar við göngu- og hjólreiðastíga borgarinnar um að á þeim gildi 25 km. hámarkshraði léttra bifhjóla.

2.      Aukin fræðsla. Ráðist verði í fræðsluátak í skólum borgarinnar til að kynna gildandi reglur um akstur léttra bifhjóla í þéttbýli. Kynntar verði reglur um hámarkshraða á göngu- og hjólastígum, hjálmaskyldu, hvar megi hjóla o.s.frv. Óskað verði eftir samstarfi við Samgöngustofu að þessu leyti.

3.      Löggæsla. Óskað verði eftir því að lögreglan herði umferðareftirlit á göngu- og hjólreiðastígum borgarinnar og komi í veg fyrir að vélknúnum hjólum sé ekið þar yfir löglegum hámarkshraða.

Oft hefur legið við stórslysi

Frá því undirritaður flutti tillögu um málið í borgarstjórn 20. september 2022, hafa honum borist fjölmargar ábendingar um stöðugan háskaakstur á göngu- og hjólreiðastígum borgarinnar. Meirihluti bifhjólamanna fer að reglum samt er ljóst er að of stór hluti þeirra virðir ekki hraðareglur. Nefnd eru mörg dæmi um að rafhlaupahjóli hafi verið ekið svo hratt nálægt gangandi eða hjólandi vegfarendum að legið hafi við stórslysi. Heyrst hefur frá foreldrum, sem banna nú börnum sínum að fara út á ákveðna göngu- og hjólastíga því þeir séu orðnir að hraðbrautum fyrir vélknúin farartæki.

Að undanförnu hafa komið fram uggvænlegar upplýsingar um fjölgun slysa þar sem rafhlaupahjól koma við sögu. 42% þeirra, sem slösuðust alvarlega í umferðinni á síðasta ári voru svokallaðir óvarðir vegfarendur, þ.e. gangandi, hjólandi eða á rafhlaupahjóli. 17% þeirra sem slösuðust alvarlega í umferðinni á því ári voru á rafhlaupahjólum en umferð þeirra er þó innan við 1% af allri umferð. Fram kemur að mörg ung börn, allt niður í átta ára gömul hafi komið á neyðarmóttöku vegna slysa á rafhlaupahjólum.

Mikilvægt að bregðast strax við

Ljóst er að bregðast þarf við sem fyrst og hér geta Reykjavíkurborg og önnur sveitarfélög gegnt mikilvægu hlutverki. Strax í haust er hægt að setja upp skýrar merkingar um hámarkshraða en nú virðist þær vanta með öllu. Þetta myndi skipta máli því algengt er að bifhjólamenn vísi til þess að hvergi séu merkingar um gildandi hámarkshraða þegar fundið er að hraðakstri þeirra á göngu- og hjólastígum. Þá gæti lögreglan hert umferðareftirlit á slíkum stígum án fyrirvara. Ekki tekur heldur langan tíma að hrinda af stað fræðsluátaki um þessi mál í skólum borgarinnar.

Í þessum máli þurfa opinberir aðilar að vinna hratt og vel saman í stað þess að vísa hver á annan.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 29. september 2023.