Sundabraut verður gífurleg samgöngubót

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:

Borgarráð staðfesti nú í september 2023 verklýsingu vegna fyrirhugaðrar breytingar á aðalskipulagi Reykjavíkur vegna Sundabrautar. Vonandi kemst undirbúningur að lagningu brautarinnar þannig loks á skrið eftir miklar og óskiljanlegar tafir undanfarin þrjú kjörtímabil.

Meira en hálf öld er síðan fyrstu hugmyndir að Sundabraut (Kleppsvíkurbrú) komu fram. Brautin var fyrst sett fram árið 1975 í tillögu að aðalskipulagi Reykjavíkur 1975-1995 og síðan staðfest í svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins 1985-2005. Frá upphafi var hún hugsuð sem tenging nýrra byggðasvæða í Grafarvogi og Geldinganesi við gatnakerfi Reykjavíkur auk þess að bæta samgöngutengingar borgarinnar við Vestur- og Norðurland.

Mikill ávinningur

Sundabraut mun bæta tengingar Grafarvogs við svæðið vestan Elliðaáa. Hún mun jafnframt tengja betur atvinnusvæði á Álfsnesi og Esjumelum við megin þéttbýli Reykjavíkur og auka skilvirkni vöru- og þungaflutninga.

Sundabraut verður þannig gífurleg samgöngubót, sem mun hafa mikinn samfélagslegan ávinning í för með sér fyrir stóran hluta landsmanna. Brautinni er ætlað að bæta samgöngur fyrir alla ferðamáta (akandi, almenningssamgöngur, gangandi og hjólandi) á norðurhluta höfuðborgarsvæðisins með auknu öryggi og hagræði.

Samkvæmt umferðarlíkönum gæti heildarakstur á höfuðborgarsvæðinu minnkað um tæplega 60 milljónir kílómetra árlega með Sundabraut eða um 160 þúsund km. á sólarhing.

Mestur ábati felst í tímasparnaði með styttingu akstursvegalengda og þar með ferðatíma vegfarenda. Tímasparnaður og stytting vegalengda hefði í för með sér fækkun slysa, minni mengun og minni hávaða.

Ljóst er að Sundabraut mun stórbæta samgöngur við Kjalarnes enda var hún ein helsta forsenda sameiningar Kjalarneshrepps og Reykjavíkurborgar árið 1997. Á þeim tíma hétu allir flokkar í borgarstjórn að greiða fyrir lagningu Sundabrautar, sem hafði mikil áhrif á afstöðu Kjalnesinga til sameiningarinnar. Með brautinni mun vegalengd milli Kjalarness og miðborgar Reykjavíkur styttast verulega. Þá myndi Sundabraut létta á umferð um núverand Vesturlandsveg gegnum Mosfellsbæ.

Brú eða göng?

Afar mikilvægt er að sú vinna sem framundan er varðandi legu Sundabrautar og útfærslu í umhverfismati takist vel. Til dæmis þarf að ákveða hvort brúarlausn eða gangalausn verði fyrir valinu á syðsta hluta leiðarinnar. Eigi Sundabraut að þjóna gangandi og hjólandi vegfarendum eins og æskilegt er, verður brú fyrir valinu. Einnig þarf að taka mikilvægar ákvarðanir varðandi leiðaval við Gufunes og Kollafjörð, sem og vegna útfærslna við gatnamót og á einstökum leggjum brautarinnar.

Í skipulagsvinnunni er einnig mikilvægt að tryggt verði að mannvirki vegna Sundabrautar falli vel að landslagi, náttúru og byggð og að staðið verði að metnaði að fagurfræðilegri hönnun þeirra.

Sorgarsaga í samgöngumálum

Tafir við undirbúning Sundabrautar eru orðnar ein mesta sorgarsaga í samgöngumálum á Íslandi. Vonandi eru þær tafir nú á enda og sjá þarf til þess að Reykjavíkurborg standi við samkomulag ríkis og borgar frá árinu 2021 um þessa mikilvægu framkvæmd. Ljóst er að borgin þarf að standa vel að verki ef unnt á að vera að staðfesta aðalskipulagsbreytingu Sundabrautar á árinu 2024, ráðast í útboð 2025 og síðan framkvæmdir árið 2026.

Með vönduðum og markvissum vinnubrögðum á næstu misserum gæti Reykjavíkurborg þannig bætt fyrir tregðu og tafaleiki undanfarinna ára.

Greinin birtist í Morgunblaðinu, 21. september 2023.