Hríðversnandi fjárhagur Reykjavíkurborgar

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:

Fjárhagsstaða Reykjavíkurborgar versnar enn. Nýbirt sex mánaða rekstraruppgjör sýnir að ekkert lát er á glórulausri skuldasöfnun borgarinnar þrátt fyrir stórauknar tekjur. Útilokað er að taprekstri og skuldasöfnun hennar verði snúið við á yfirstandi ári.

Samstæða Reykjavíkurborgar var rekin með 6,7 milljarða króna tapi á fyrri hluta ársins 2023, janúar til júní. Er það 12,8 milljarða króna lakari niðurstaða en ráðgert var samkvæmt fjárhagsáætlun. Borgarsjóður var gerður upp með 921 milljónar króna tapi en samkvæmt fjárhagsáætlun átti að reka hann með 857 milljóna króna hagnaði á tímabilinu.

Þróun skulda Reykjavíkurborgar gefur að mörgu leyti skýrari mynd af rekstri hennar en sjálfur rekstrarreikningurinn. Á einungis sex mánuðum, frá ársbyrjun til júníloka, hækkuðu skuldir borgarsjóðs um tæpa tuttugu milljarða króna og skuldir samstæðunnar um 33 milljarða.

Áætlanagerð í molum

Samkvæmt fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2023 áttu skuldir borgarsjóðs að nema 194 milljörðum króna um komandi áramót. Í reynd voru skuldirnar hins vegar þegar orðnar 194 milljarðar í lok júní!

Ljóst er að skuldir borgarsjóðs munu aukast enn frekar á seinni helmingi ársins og líklegt er að fyrir árslok verði þær komnar yfir 200 milljarða króna.

Samkvæmt fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2023 áttu skuldir samstæðu Reykjavíkurborgar að nema 464 milljörðum króna um komandi áramót. Samkvæmt árshlutauppgjörinu námu skuldirnar hins vegar 479 milljörðum í lok júní! Hætta er á að að skuldir samstæðunnar verði orðnar um 500 milljarðar króna í árslok.

Samkvæmt fjárhagsáætlun átti samstæðan að skila rúmlega átta milljarða króna afgangi á árinu 2023, ekki síst vegna áætlaðrar góðrar afkomu Orkuveitunnar og Félagsbústaða. Átti matshækkun félagslegra íbúða borgarinnar að skila 7,6 milljarða króna bókhaldshagnaði (froðuhagnaði) á árinu. Þessi matshækkun gekk ekki eftir og nam hún einungis 580 milljónum króna á fyrri helmingi ársins.

Orkuveita Reykjavíkur á að skila rúmlega 13 milljarða króna hagnaði á árinu samkvæmt fjárhagsáætlun. Orkuveitan tapaði hins vegar 795 milljónum á fyrri helmingi ársins.

Óábyrg fjármálastjórn

Borgarstjórnarmeirihlutinn Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar hyggst þannig halda áfram að fjármagna taprekstur Reykjavíkurborgar með glórulausum lántökum. Fjárhagsvandinn verður hins vegar ekki leystur með áframhaldandi skuldabréfasölu. Eins og meðfylgjandi mynd sýnir fara lánskjör borgarinnar hríðversnandi, ekki síst samanborið við kjör ríkisins, sem hún er gjarnan borin saman við. Fyrir þremur vikum neyddist borgin til að hafna öllum tilboðum í skuldabréfaútboði vegna dræmrar þátttöku.

Hætta verður taprekstri

Fjármálum Reykjavíkurborgar hefur verið komið í mikið óefni undir núverandi borgarstjórnarmeirihluta. Ekkert sveitarfélag getur byggt rekstur sinn á lántökum árum og jafnvel áratugum saman eins og gerst hefur í Reykjavík. Og á tímum mikillar verðbólgu og hárra vaxta er slík stefna beinlínis hættuleg.

Aldrei hefur verið mikilvægara að borgarstjórn Reykjavíkur nái saman um aðgerðir til að binda enda á langt tímabil taprekstrar og skuldasöfnunar. Til þess gefst tækifæri í fjárhagsáætlun ársins 2024 en vinna við hana stendur nú sem hæst.

Greinin birtist í Morgunblaðinu, 14. september 2023.