Umferðarvandinn og umferðarleysisvandinn

Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins:

Í kynnisferð á vegum Reykjavíkurborgar til Portland og Seattle nú í ágúst ræddu fulltrúar heimamanna þá áskorun að mannlífið hefði færst frá miðborginni í úthverfin. Fólk og fyrirtæki höfðu vanið sig á fjarvinnu eftir Covid-faraldurinn og því ættu færri leið til miðborgarinnar þó fyrirtækin í úthverfunum væru sannarlega í blóma. Því fólk ferðaðist ekki endilega sjaldnar heldur væru ferðirnar fjölskyldumiðaðri, styttri og innan hverfisins.

Fleiri borgir með sterka miðborgarmenningu (t.d. París) hafa kvartað undan þessum nýja veruleika. Fyrir utan langan ferðatíma eiga Portland og Seattle það sameiginlegt að almenn daggæsla barna kostar um 300.000 krónur á mánuði og fasteignakostnaður er hár miðsvæðis. Því er fjarvinna sú lausn sem bæði fólk og fyrirtæki hafa hvað mestan ábata af. Fyrirtækin þarfnast færri fermetra undir skrifstofur sem lækkar rekstrarkostnað og spara sér matar- og samgöngukostnað vegna starfsfólks. Foreldrar geta aðlagað vinnutímann að heimilislífinu og sparað sér daglega 1-2 klukkustunda ferð í vinnu, og bætt umhverfið samhliða. Þessi breyting á ferðavenjum leiðir til dreifðara álags á vegakerfinu sem þýðir betri nýtingu, færri umferðarteppur og betra flæði. Meira rými verður á götunum sem má þá nýta í sérrými fyrir aðra samgöngumáta en bílinn, sé þörf á því. Að auki gefur breytingin tilefni til að efla tengingar almenningssamgangna til úthverfanna, á milli þeirra og innan hverfanna. Mér þótti það mjög framandlegt vandamál að vilja vinda ofan af þessari þróun á atvinnuháttum til að fá meiri umferð.

Aftur í sama farið, nema á forsendum borgaryfirvalda

Vegatryggð er orð yfir þá tilhneigingu fólks og fyrirtækja að halda einhverri vegferð áfram einfaldlega vegna þess að sú leið var farin fyrst, þrátt fyrir nýjar eða breyttar forsendur. Fyrir Covid-faraldurinn snerist allt um að leysa umferðarvandann með almenningssamgöngum. Portlandbúar hafa léttlest, sporvagn, strætó og sérmerktar hjólaleiðir og voru nýloknir við að byggja upp hraðvagnastrætó eins og borgarlínu, þegar okkur bar að garði. Portland þykir einna hjólavænust í Bandaríkjunum en þrátt fyrir viðvarandi uppbyggingu hjólaleiða fækkar þeim stöðugt sem hjóla til vinnu, sérstaklega meðal kvenna. Um 14% íbúa fóru hjólandi árið 2014, 6% árið 2019 en nú eru einungis 2,8% að hjóla í vinnuna. Eins var með almenningssamgöngurnar, fyrst fjölgaði notendum samhliða nýju sporvagnakerfi og fyrstu þriggja léttlestalínanna en svo virtist notkunin mettast árið 2012. Þá tók hún að minnka, hríðféll í Covid og nú nota færri almenningssamgöngur í Portland en um aldamótin, þrátt fyrir kostnaðarsamar fjárfestingar í annarri léttlestarlínu og nýju hraðvagnastrætókerfi. Því er oft haldið fram að notendum fjölgi sjálfkrafa með uppbyggingu en svo var ekki í flestum borgum Bandaríkjanna, Seattle verandi undantekningin. Þar keyrðu 26% til vinnu árið 2019 en nú 21%, á meðan fjöldi þeirra sem ferðaðist með almenningssamgöngum, deilibílum eins og Uber eða fóru gangandi, helmingaðist. Þrátt fyrir sprengingu í sölu rafhjóla í Seattle hefur fjöldi hjólandi inn í miðborg Seattle haldist í 3% frá árinu 2019, margir hjóla, bara annað en þangað. Þessu vildu fulltrúar samgöngusviðs Seattle ólmir breyta og voru sigri hrósandi þegar notkun almenningssamgangna jókst um 4% því að Amazon skipaði starfsfólki að mæta í höfuðstöðvarnar einhverja daga vikunnar.

Almenningssamgöngur fyrir fólk eða fólk fyrir almenningssamgöngur?

Bæði í Portland og Seattle stóð til að útvíkka leiðakerfi almenningssamgangnanna til hverfanna á jaðrinum, þá til að ferja fólk til og frá miðborginni frekar en innan hverfanna. Samgöngusvið Seattle vildi einnig þétta byggð til að fjölga svokölluðum 15 mínútna hverfum utan miðborgarinnar. Þó fjarvinnan væri að skapa rekstrargrundvöll fyrir meiri þjónustu innan hverfanna og gera þau að 15 mínútna hverfum án nokkurrar þéttingar, þá minnkaði hún ábata af núverandi leiðakerfi, en í stað þess að aðlaga almenningssamgöngurnar fólkinu átti að laga fólkið að almenningssamgöngunum.

Byggt á lærdómi af Covid-árunum mælir OECD-hugveitan International Transport Forum með stefnubreytingu í skipulagi almenningssamgangna til að mæta ferðaþörfum fleiri íbúa en þeirra sem ferðast í vinnu eða háskóla. Þjónusta þurfi í meira mæli fólkið sem ferðast vegna barnanna, til að versla í matinn eða í íþróttir innan hverfanna, eitthvað sem mætti innleiða strax hjá Strætó hérlendis. Nefna má að þegar kollegar mínir í meirihlutanum fengu að vita að aðeins 50% leiðakerfis borgarlínu Portlands væri í sérrými spurðu þau hvort vagnarnir kæmust nokkuð áfram fyrir umferð. „Vagnarnir okkar sitja aldrei fastir í umferð“, svaraði fulltrúinn, því að Portland hafði innleitt snjalla umferðarljósastýringu sem tryggði vögnunum græn ljós og forgang. Þeir væru því alltaf á réttum tíma en að auki styttist ferðatími allra annarra um að minnsta kosti 20%. Það má læra margt af þróun mála í Portland og Seattle og vonandi skilar sá lærdómur sér í stefnubreytingu hjá Reykjavíkurborg.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 11. september 2023