Parísarhjól sem snýst ekki

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:

Um­mæli borg­ar­stjóra í liðinni viku um að skrifa mætti stór­an þátt af ta­prekstri borg­ar­inn­ar á mál­efni fatlaðra voru hvort í senn ósmekk­leg og röng. Það að hlusta á slíkt tal minn­ir dá­lítið á pabb­ann sem kvartaði und­an því hvað það væri dýrt að eiga börn á meðan hann eyddi öllu sínu í vellyst­ing­ar og vín. All­ir sem hafa eitt­hvað fylgst með gangi mála í borg­inni vita að ára­langt sinnu­leysi í fjár­mál­um borg­ar­inn­ar skrif­ast ekki á einn mála­flokk, í þessu til­viki þjón­ustu við fatlaða, held­ur á áhuga­leysi og getu­leysi borg­ar­stjórn­ar til að reka borg­ina vel.

Við vit­um vel hvert vanda­málið er í rekstri borg­ar­inn­ar. Vinstri meiri­hlut­inn sem hef­ur stjórnað borg­inni nú í rúm 13 ár – með ýms­um viðbót­um og tjasli – hef­ur hvorki áhuga á fjár­mál­um né rekstri. Reykja­vík­ur­borg sker sig því úr hvað rekst­ur varðar en ósjálf­bær rekst­ur borg­ar­inn­ar hef­ur nei­kvæð áhrif á dag­legt líf borg­ar­búa til lengri tíma. Það kem­ur alltaf að skulda­dög­um og í til­felli borg­ar­inn­ar koma áhrif­in fyrst og fremst fram í verri þjón­ustu við borg­ar­búa. Þar má meðal ann­ars nefna ár­leg­an skort á leik­skóla­pláss­um, skort á snjómokstri, vanda­mál við sorp­hirðu, van­rækslu á viðhaldi skóla, töf á svör­um við leyf­is­veit­ing­um og þannig má áfram telja. Það má því á viss­an hátt segja að það sé nú þegar komið að skulda­dög­um, því íbú­ar í borg­inni líða nú þegar fyr­ir skuld­irn­ar þar sem þeir fá ekki þá grunnþjón­ustu sem borg­in á að veita.

Lest­ar­slys sýnt hægt

Þó slæm­ur fjár­hag­ur borg­ar­inn­ar sé nú öll­um aug­ljós er vanda­málið ekki nýtt af nál­inni. Það er lengi búið að vara við því hvert rekst­ur borg­ar­inn­ar stefn­ir. Á ár­un­um fyr­ir heims­far­ald­ur ríkti hér eitt mesta góðæri sem ís­lensk þjóð hef­ur nokk­urn tím­ann kynnst. Ríkið nýtti þann tíma til að greiða niður skuld­ir og safna í sjóði. Á sama tíma safnaði borg­in skuld­um og rekst­ur henn­ar komst í óefni.

Rekst­ur­inn hef­ur lengi litið út eins og lest­ar­slys sem sýnt er hægt. Þeir sem bentu á það voru sakaðir um leiðindi og röfl, þar með talið sú sem hér skrif­ar. Vinstri meiri­hlut­inn hef­ur lagt meira upp úr því að hafa gam­an, hvort sem er hér á landi eða í skemmti­ferðum til út­landa, held­ur en að sýna ábyrgð. Meiri­hlut­inn féll að vísu í kosn­ing­um 2018 og aft­ur 2022, en tókst að snapa Viðreisn og síðar Fram­sókn­ar­flokk­inn í áfram­hald­andi par­tístand þar sem meiri áhersla er lögð á að byggja skýja­borg­ir en þjón­usta íbúa borg­ar­inn­ar. Ólíkt íbú­um í Reykja­vík virðist þess­um flokk­um líða vel, þó par­tíið sé auðvitað löngu búið.

Það er auðvitað miklu skemmti­legra að tala um par­ís­ar­hjól og pálma­tré en rekst­ur og ráðdeild. Staðreynd­in er þó sú að flest­ir vita að það þarf að hafa fyr­ir hlut­un­um og taka ábyrgð. Það vita til dæm­is þeir fjöl­mörgu ungu for­eldr­ar í borg­inni sem geta ekki sinnt fullri vinnu af því að þeir fá ekki leik­skóla­pláss. Enn bitn­ar það verr á at­vinnuþátt­töku kvenna. Það hjálp­ar þeim lítið þó borg­ar­stjóri gorti sig af því í fjöl­miðlum að bjóða upp á ódýr­ustu leik­skóla­pláss­in. Það er eins og að monta sig af ódýrri mat­vöru þó all­ar hill­ur í búðinni séu tóm­ar, eins og við þekkj­um úr sög­unni.

Yf­ir­drátt­ur­inn bú­inn

Reykja­vík­ur­borg er búin að full­nýta lánalín­ur bank­anna (sem eru eins og yf­ir­drátt­ur) og fjár­fest­ar hafa lít­inn áhuga á því að kaupa skulda­bréf borg­ar­inn­ar. Fé­lags­bú­staðir stefna að öllu óbreyttu í greiðsluþrot og það verður ekki alltaf hægt að sækja inn­stæðulaus­ar arðgreiðslur í Orku­veit­una eins og gert var fyrr á þessu ári til að fegra reikn­ing­ana. Það er al­veg sama hversu oft og í hversu mörg­um orðum frá­far­andi borg­ar­stjóri reyn­ir að halda því fram að borg­in sé vel rek­in. Töl­urn­ar í reikn­ing­um borg­ar­inn­ar segja allt sem segja þarf um getu og áhuga meiri­hlut­ans á því að reka borg­ina vel.

Mögu­lega verður skipaður starfs­hóp­ur um end­ur­skoðun á rekstri borg­ar­inn­ar, sem eft­ir nokk­urra mánaða vinnu kemst að því að það þurfi mögu­lega að reka borg­ina bet­ur. Rétt eins og starfs­hóp­ur um end­ur­skoðun á hand­bók vetr­arþjón­ustu komst að því að það þyrfti að moka göt­urn­ar þegar það snjó­ar.
Það er vissu­lega fyndið þar til það snjó­ar og það kem­ur í ljós að það er ekk­ert skipu­lag í kring­um þjón­ust­una.

Reyk­bomb­ur

Það verður ekki af borg­ar­stjór­an­um tekið að það var sniðugt að varpa fram hug­mynd­um um par­ís­ar­hjól á síðustu dög­um. Það er skemmti­legra að ræða það held­ur en fjár­hags­stöðu borg­ar­inn­ar. Staðan núna er þó sú að þó hjólið rísi myndi það ef­laust ekki snú­ast.

Það væri aft­ur á móti fróðlegt að heyra hag­fræðing­inn og formann Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, sem þráir það heit­ast að setj­ast í stól fjár­málaráðherra, gefa álit sitt á rekstri Reykja­vík­ur­borg­ar. Hvort hún túlki töl­urn­ar með sama hætti og borg­ar­stjór­inn eða setji upp raun­veru­leg hag­fræðigler­augu til að meta tjónið.

Efna­hags­stefna Sam­fylk­ing­ar­inn­ar geng­ur í meg­in­at­riðum út á það að hækka skatta og safna skuld­um og henni hef­ur verið fylgt eft­ir í Reykja­vík. Það má því velta því fyr­ir sér hvort það sé eft­ir­sókn­ar­vert að heim­færa rekst­ur borg­ar­inn­ar upp á ríkið.

Hin leiðin er að sýna ábyrgð, reka hið op­in­bera af skyn­semi og sinna grunnþjón­ustu við íbúa vel. Þannig er hægt að skapa aðstæður þar sem lífið get­ur verið skemmti­legt fyr­ir alla, en ekki bara þá sem vinna í ráðhús­inu. Það væri meira að segja hægt að reisa par­ís­ar­hjól sem snýst.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 11. september 2023.