Kostnaðarkviksyndi opinberra framkvæmda

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:

Mikil óvissa ríkir um fjármögnun og rekstur svonefnds samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins og er því nauðsynlegt að endurskoða hann. Margar þarfar framkvæmdir eru í pakkanum en þar má líka finna framkvæmdir, sem þarf að endurmeta vegna mikils kostnaðar. Athuga þarf hvort hagkvæmari leiðir séu tiltækar. Hugmyndir eru uppi um að leggja á nýjan vegskatt þrátt fyrir að Íslendingar greiði nú þegar einhverja hæstu bensínskatta og bifreiðagjöld í heimi. Slík skattheimta kæmi þyngst niður á íbúum höfuðborgarsvæðisins.

Þegar stjórnmálamenn vilja koma stórum gæluverkefnum með óvissan kostnað á herðar skattgreiðenda, er oft farin sú leið að halda kostnaðaráætlunum sem lægstum á meðan verið er að skuldbinda skattgreiðendur. Um það leyti sem framkvæmdir hefjast, margfaldast kostnaðartölur og verða um leið raunhæfari. En þá er líka orðið of seint að hætta við og skattgreiðendur sitja fastir í kviksyndinu.

Þetta virðist vera raunin með margar opinberar framkvæmdir, þar á meðal sum verkefni samgöngusáttmálans.

Sexföldun kostnaðaráætlunar Sæbrautarstokks

Árið 2019 var áætlað að kostnaður við Sæbrautarstokk myndi nema 2.740 milljónum króna. Samkvæmt endurskoðaðri áætlun mun stokkurinn kosta 17.720 milljónir króna. (Báðar tölur á verðlagi í desember 2022.) Þetta er rúmlega sexföldun áætlaðs kostnaðar. Enn er aðeins um kostnaðaráætlun að ræða og ef reiknað er 40% óvissuálagi ofan á hana þyrfti ekki að koma á óvart að endanlegur kostnaður við stokkinn yrði um 25 milljarðar króna.

Fokdýr Fossvogsbrú

Hugmyndin um Fossvogsbrú komst á dagskrá borgarstjórnar fyrir rúmum áratug og var þá um göngu- og hjólabrú, sem átti að kosta nokkur hundruð milljónir. Um er að ræða um 300 metra langa stálbrú, sem á að tengja saman tvö jaðarsvæði: Kársnes og Nauthólsvík. Brúin hefur takmarkaðan almennan tilgang þar sem einungis er gert ráð fyrir gangandi og hjólandi umferð um hana, auk einnar strætisvagnaleiðar, en ekki almennri bílaumferð.

Kostnaður við smíði Fossvogsbrúar mun nema 7.500 milljónum króna samkvæmt nýbirtri áætlun. Hækkar sú tala í 7.700 milljónir þegar 200 milljóna framkvæmdakostnaði við færslu rafstrengja vegna brúarinnar er bætt við. Er það fjórföldun kostnaðaráætlunar frá árinu 2013 miðað við sama verðlag.

Í uppfærðri áætlun er ekki gert ráð fyrir því að ryðfrítt stál sé notað í brúna eins og áður var stefnt að en þannig næst að lækka áætlunina um 1.400 milljónir. Notkun ryðfría stálsins var áður kynnt sem snjöll aðferð til að halda viðhaldskostnaði brúarinnar í lágmarki. Því vaknar sú spurning hvort ekki sé um sparnað að ræða með þessari breytingu heldur þeim mun hærri viðhaldskostnað allan líftíma brúarinnar.

Hugmynd að hagkvæmri lausn

Hægt væri að stórbæta strætótengingar milli Nauthólsvíkur (Háskólans í Reykjavík) og Kópavogs með því að lagfæra gamlan veg í sunnanverðri Öskjuhlíð og gera hann að svokallaðri strætógötu, sem einungis strætisvagnar fengju að aka eftir. Jafnframt yrðu gerðar umbætur á stígakerfi Öskjuhlíðar í þágu gangandi og hjólandi vegfarenda. Slíkar lausnir væru miklu fljótlegri og margfalt ódýrari en brúargerð, sem kosta mun hátt í tíu milljarða króna.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 7. september 2023.