Að breyttu breytanda

Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur:

Fjórðung­ur er liðinn af nýju kjör­tíma­bili borg­ar­stjórn­ar. Meiri­hlut­inn sem felld­ur var í síðustu kosn­ing­um fékk fram­halds­líf í boði Fram­sókn­ar, sem þó hafði lofað breyt­ing­um. Mál­efna­áhersl­um fyrri meiri­hluta yrði viðhaldið – að breyttu breyt­anda. En hvað hef­ur breyst?

Sorp­hirða í lamasessi

Á sum­ar­mánuðum var tekið í notk­un nýtt flokk­un­ar­kerfi sorp­hirðu á höfuðborg­ar­svæðinu. Í Reykja­vík hef­ur inn­leiðing gengið veru­lega illa. End­ur­vinnslutunn­ur hafa staðið yf­ir­full­ar og ekki verið tæmd­ar svo vik­um skipt­ir. Á sama tíma hafa ná­granna­sveit­ar­fé­lög tryggt nokkuð áfalla­lausa inn­leiðingu. En í hverju felst mun­ur­inn?

Ná­granna­sveit­ar­fé­lög hafa öll boðið út rekst­ur sinn­ar sorp­hirðu, en Reykja­vík­ur­borg tel­ur æski­legra að reka sorp­hirðuna sjálf. Í haust munu því 66 borg­ar­starfs­menn starfa við sorp­hirðu Reykja­vík­ur. Sjálf­stæðis­flokk­ur hef­ur ít­rekað lagt til að þjón­ust­an verði boðin út. Reynsla ná­granna­sveit­ar­fé­laga sé góð og eng­in ástæða fyr­ir hið op­in­bera að reka eig­in sorp­hirðu. Til­lag­an hef­ur ít­rekað verið felld af öll­um flokk­um í meiri­hlut­an­um.

Versn­andi leik­skóla­vandi

Áfram rík­ir gríðarleg óvissa í leik­skóla­mál­um borg­ar­inn­ar. Í liðnum kosn­ing­um sagðist Sam­fylk­ing geta tryggt öll­um 12 mánaða börn­um leik­skóla­pláss strax um haustið. Lof­orðin voru vit­an­lega svik­in og for­eldr­ar fjöl­menntu á mót­mæli í Ráðhús­inu. Meðal­ald­ur barna við inn­göngu á leik­skóla reynd­ist vera 19 mánuðir, hækkaði upp í 20 mánuði um ára­mót og 22 mánuði nú í sum­ar. Fram­sókn held­ur um mála­flokk­inn og hef­ur engu breytt – nema kannski því að staðan fer versn­andi.

Áfram­hald­andi halla­rekst­ur

Síðustu árs­reikn­ing­ar Reykja­vík­ur­borg­ar voru eng­ar fag­ur­bók­mennt­ir. Rekstr­ar­halli síðasta árs reynd­ist 15,6 millj­arðar og skuld­ir héldu áfram að aukast. Odd­viti Fram­sókn­ar lofaði að herða tök­in í fjár­mál­un­um, ráðast í um­fangs­mikl­ar hagræðing­ar og ná fram áþreif­an­leg­um viðsnún­ingi strax á þessu ári. Hann ætlaði að breyta!

Mann rak því í rogastans þegar rekstr­ar­upp­gjör borg­ar­inn­ar, fyr­ir fyrstu þrjá mánuði árs­ins, var birt í borg­ar­ráði í sum­ar. Rekstr­ar­hall­inn reynd­ist nær fjór­ir millj­arðar og var niðurstaðan tæp­lega tveim­ur millj­örðum lak­ari en áætlan­ir gerðu ráð fyr­ir. Í síðastliðinni viku fór svo fram skulda­bréfa­út­boð þar sem þátt­taka var svo lé­leg að borg­in neydd­ist til að hafna öll­um til­boðum.

Nýj­ustu vend­ing­ar gefa því miður ekki góð fyr­ir­heit um breyt­ing­ar á rekstri borg­ar­inn­ar.

Vax­andi sam­göngu­vandi

Sam­kvæmt ný­leg­um mæl­ing­um Vega­gerðar­inn­ar hef­ur um­ferð á höfuðborg­ar­svæðinu aldrei mælst meiri, en hún jókst um 7,3% milli ára í júlí­mánuði, og telja sér­fræðing­ar Vega­gerðar­inn­ar að ársum­ferð á höfuðborg­ar­svæðinu muni að lík­ind­um aukast um 4,5% milli ára.

Illa hef­ur gengið að vinna að sam­göngu­bót­um á höfuðborg­ar­svæðinu og fer sam­göngu­vand­inn vax­andi. Líkt og á fyrri kjör­tíma­bil­um ger­ir meiri­hlut­inn lítið til að greiða úr um­ferð fyr­ir alla far­ar­máta og flýta nauðsyn­leg­um fram­kvæmd­um. Staðan er slæm og hún versn­ar.

Hús­næðis­upp­bygg­ing í frosti

Fram­sókn­ar­flokk­ur lofaði upp­bygg­ingu 3.000 íbúða ár­lega í Reykja­vík. Lítið hef­ur þokast í mála­flokkn­um. Þung­lama­leg stjórn­sýsla og íþyngj­andi skil­mál­ar hamla fram­taki í borg­inni. Eng­in hreyf­ing hef­ur kom­ist á upp­bygg­ing­ar­svæði sem þó hafa verið á teikni­borðinu um ára­bil. Tæki­færi til upp­bygg­ing­ar á nýj­um og spenn­andi svæðum eru áfram vannýtt. Áherslu­breyt­ing­ar Fram­sókn­ar sjást hvergi inn­an sjón­deild­ar­hrings­ins.

Skólastarf í upp­námi

Áfram er skólastarf í upp­námi um alla borg vegna viðhaldsvanda. Skóla­stjóri Laug­ar­nesskóla sagði upp störf­um í sum­ar vegna langvar­andi ástands á hús­næði skól­ans. Skóla­byrj­un í Haga­skóla var jafn­framt frestað um viku vegna tafa á fram­kvæmd­um. Leik­skóla­hús­næði um alla borg ligg­ur und­ir skemmd­um og biðlist­ar lengj­ast til sam­ræm­is. Áfram mætti telja.

Börn í yfir 30 leik- og grunn­skól­um hafa verið á ver­gangi síðustu árin vegna margra ára upp­safnaðs viðhaldsvanda. Illa geng­ur að vinda ofan af vand­an­um og af­leiðing­arn­ar eru enn að raun­ger­ast. Starfs­fólk vinn­ur við óviðun­andi skil­yrði og börn eru svipt lög­bundn­um rétti til mennt­un­ar.

Að heita því að breyta

Nýtt kjör­tíma­bil end­ur­nýjaðs meiri­hluta hef­ur farið brös­ug­lega af stað og fátt hef­ur breyst til batnaðar. Rekst­ur­inn er áfram í mol­um og þjón­ust­an fer versn­andi. Það er ljóst að lof­orð um breyt­ing­ar voru höfð að engu – og kjós­end­ur voru hafðir að fífli. Það er miður – því sann­ar­lega er betra að breyta vel en heita vel – og oft var þörf en nú er nauðsyn.

Greinin birtist í Morgunblaðinu, 24. ágúst 2023.