Vatnaskógur – Heillaríkt starf í heila öld

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:

Í sumar eru hundrað ár liðin frá upphafi sumarbúðanna í Vatnaskógi. Á þessum tíma hefur æskulýðsstarfið í skóginum vaxið og dafnað, ekki síður en skógurinn sjálfur, sem orðinn er einn gróðursælasti staður landsins. Vatnaskógur er góður vitnisburður um að skógrækt og æskulýðsstarf getur átt góða samleið.

Vatnaskógur er við Eyrarvatn í Svínadal í Hvalfjarðarsveit. Fyrsta ferðin þangað á vegum KFUM var farin af nítján drengjum og foringja fyrir réttum hundrað árum, 3. ágúst 1923.

Ungliðarnir þurftu að ganga stærstan hluta leiðarinnar eða um fimmtíu kílómetra þar sem bílvegur náði þá ekki lengra en að Þverárkoti í Mosfellssveit. Tók það hópinn tvo daga að ganga í Vatnaskóg og fékk hann að gista í hlöðu á leiðinni.

Ómælt sjálfboðastarf

Ferðin heppnaðist mjög vel og brátt myndaðist öflugur hópur ungliða, sem fór á hverju sumri í Vatnaskóg og hóf uppbyggingu sumarbúðanna þar í ómældri sjálfboðavinnu. Þægindi þess tíma voru af skornum skammti svo ekki sé talað um nútíma þægindi. Fyrstu áratugina var gist og matast í tjöldum og menn böðuðu sig í vatninu. Ráðist var í söfnun fyrir húsbyggingu og árið 1943 var glæsilegur skáli vígður, sem nú er kallaður Gamli skáli. Síðan hafa mörg hús risið í Vatnaskógi og gegnir hvert þeirra sínu ákveðna hlutverki: íþróttahús, kapella, matskáli, svefnskálar og bátaskýli.

Ekki hefur verið látið staðar numið við uppbygginguna í Vatnaskógi. Nú er verið að byggja nýjan og glæsilegan matskála og úr honum verður afar fallegt útsýni yfir Eyrarvatn.

Miðað er við að halda dvalargjöldum lágum svo að sem flestir eigi þess kost að sækja sumarbúðirnar. Flest uppbygging í Vatnaskógi er því fjármögnuð sérstaklega og hefur orðið að veruleika með samstilltu átaki fórnfúsra sjálfboðaliða og örlæti velunnara.

Innihaldsrík dvöl í fallegu umhverfi

Tugþúsundir barna og ungmenna hafa notið innihaldsríkrar dvalar og útiveru í fallegu umhverfi á þeirri öld, sem sumarbúðirnar hafa verið starfræktar. Á það ekki síður við um aðrar sumarbúðir, sem starfræktar eru á vegum KFUM og -K, sem eru í Vindáshlíð og að Hólavatni, Kaldárseli og Ölveri.

Mörg barnanna eru í sinni fyrstu ferð án foreldra og læra þannig að standa á eigin fótum í hópi jafnaldra. Slíkt getur verið krefjandi en er um leið mjög þroskandi og persónueflandi eins og margir geta vitnað um.

Í Vatnaskógi una drengirnir sér við margvíslega útiveru: íþróttir, leiki, gönguferðir og bátsferðir. Á hverjum morgni er kafli úr Nýja testamentinu lesinn og ræddur. Kvöldvökur enda með Guðs orði og bæn. Þá fer fram náttúrufræðsla þar sem menn geta skoðað plöntur og lært að þekkja þær um leið og þeir njóta útiverunnar.

Starfsemi allt árið

Góður húsakostur gerir það að verkum að hægt er að nota Vatnaskóg árið um kring fyrir ýmsa starfsemi þótt sumarbúðastarfið sé í öndvegi. Fermingarfræðsla fer t.d. fram í Vatnaskógi að vetrinum enda er skógurinn ekki síður ævintýralegur í vetrarskrúða.

Í tilefni afmælisins ætla nokkrir piltar að leggja land undir fót og ganga sömu leið og brautryðjendurnir gerðu fyrir hundrað árum og safna um leið áheitum í þágu starfsins í Vatnaskógi.

Ástæða er til að færa KFUM- og K þakkir fyrir heillaríkt starf í Vatnaskógi í heila öld með ósk um að íslensk æska megi njóta öflugs starfs samtakanna í ríkum mæli, hér eftir sem hingað til.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 3. ágúst 2023.