Sjálfstæðisflokkurinn – þungamiðja stjórnmálaumræðunnar
'}}

Óli Björn Kárason formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:

Ég hef ágæt­an skiln­ing á því að and­stæðing­ar Sjálf­stæðis­flokks­ins hafi mest­an áhuga á því að ræða Sjálf­stæðis­flokk­inn, stefnu hans og störf og jafn­vel ein­staka þing­menn og ráðherra. Með því kom­ast þeir hjá því að ræða eig­in stefnu og hug­mynd­ir. Fyr­ir marga er ekki verra að losna við að standa skil á póli­tísku ár­ang­urs­leysi.

Það er eðli­legt að kast­ljós fjöl­miðla bein­ist frem­ur að Sjálf­stæðis­flokkn­um en öðrum flokk­um. Ekki dett­ur mér til dæm­is í hug að gagn­rýna frétta­stofu Stöðvar 2 sem taldi rétt að fá formann flokks, sem hef­ur fæsta þing­menn sér að baki, í langt viðtal til að fá álit hans á Sjálf­stæðis­flokkn­um. En óneit­an­lega vakti það at­hygli að „frétt­in“ um álit and­stæðings væri fyrsta frétt kvölds­ins. Ekk­ert nýtt kom fram, eng­ar nýj­ar upp­lýs­ing­ar. Viðtalið minnti frem­ur á leikþátt en frétt. Skemmtana­gildið var nokk­urt en lík­lega aðeins fyr­ir okk­ur sjálf­stæðis­menn.

Auka­atriði og klisj­ur

Hafi ein­hver beðið spennt­ur eft­ir viðtali við for­menn Miðflokks og Viðreisn­ar á Sprengisandi Bylgj­unn­ar síðasta sunnu­dag hef­ur sá hinn sami lík­lega orðið fyr­ir von­brigðum. Ekk­ert nýtt, aðeins göm­ul upp­færð hand­rit og inni­halds­laus slag­orð. Klisj­urn­ar runnu út á færi­bandi. Stefnu­mál eig­in flokka virðast oft­ast vera auka­atriði í huga for­ystu­fólks stjórn­ar­and­stöðunn­ar sem hef­ur mest­an áhuga á störf­um og stefnu Sjálf­stæðis­flokks­ins.

Þá sjald­an for­menn­irn­ir minnt­ust á eig­in stefnu var beitt nokkuð frjálsri aðferð. Mynd og hljóð fóru a.m.k. illa sam­an þegar formaður Viðreisn­ar hélt því fram að flokk­ur­inn hefði lagt fram fjöl­marg­ar til­lög­ur til hagræðing­ar í rík­is­rekstri. Við af­greiðslu fjár­laga fyr­ir yf­ir­stand­andi ár lagði þing­flokk­ur Viðreisn­ar til skatta­hækk­an­ir upp á 19,5 millj­arða króna og að út­gjöld yrðu auk­in nettó um 12 millj­arða. Þá er ógleymd til­laga um tekju­færslu upp á 13 millj­arða með því að hækka matsvirði Íslands­banka! Eng­ar til­lög­ur komu fram á liðnu vori við af­greiðslu fjár­mála­áætl­un­ar 2024 til 2028. Það er ekki að ástæðulausu að fyrr­ver­andi þingmaður og ráðherra Viðreisn­ar halda því fram að flokk­ur­inn hafi færst of mikið til vinstri. Viðreisn er leynt og ljóst í sam­keppni við aðra vinstri­flokka, skipt­ir engu hvort um er að ræða stefnu í mál­efn­um flótta­manna þar sem keppt er við Pírata eða í skatta- og út­gjalda­mál­um í kapp­hlaupi við Sam­fylk­ing­una.

Spjall formann­anna tveggja á Sprengisandi og skemmti­leg­ur leikþátt­ur í frétt­um Stöðvar 2 varpa hins veg­ar nokkru ljósi á hve fáir kost­ir voru og eru fyr­ir hendi til að mynda starf­hæfa sam­steypu­stjórn sem hef­ur póli­tískt þrek og brotn­ar ekki þegar á móti blæs. Þar skipta for­ystu­fólk og sterk­ir innviðir flokka mestu. Þessu feng­um við sjálf­stæðis­menn að kynn­ast fyr­ir nokkr­um árum í nokk­urra mánaða sam­starfi við tvo flokka. Ann­ar hef­ur gefið upp önd­ina en hinn tekið sér stöðu í kapp­hlaupi vinstri­flokk­anna.

Fjör­ugt sum­ar

Í nokkru hef­ur sum­arið verið óvenju fjör­ugt í póli­tík­inni. Eins og oft­ast snýst flest um Sjálf­stæðis­flokk­inn, sem er þunga­miðja stjórn­ar­má­laum­ræðunn­ar – akk­erið sem held­ur í ólgu­sjó. Fjöl­miðlar og póli­tísk­ir and­stæðing­ar hafa gert sér mat úr því að meðal sjálf­stæðismanna er tölu­verð óánægja með rík­is­stjórn­ina og áhyggj­ur af því að for­ysta og þing­flokk­ur hafi gengið of langt í mála­miðlun­um við sam­starfs­flokk­ana.

Gagn­rýn­in er ekki ný af nál­inni en það er nauðsyn­legt fyr­ir Sjálf­stæðis­flokk­inn að hún sé lif­andi á hverj­um tíma og á hana sé hlustað. Þing­flokk­ur og for­ysta Sjálf­stæðis­flokks­ins sæk­ir orku og nýj­ar hug­mynd­ir meðal ann­ars í gagn­rýni frá fé­lög­um sín­um. Klisj­ur og sleggju­dóm­ar póli­tískra and­stæðinga eru á stund­um ör­lít­il stund­ar­skemmt­un en yf­ir­leitt áhrifa­laust hjal sem engu breyt­ir.

Fyr­ir stjórn­mála­flokk sem byggður er á skýrri hug­mynda­fræði er það alltaf áskor­un að taka þátt í sam­steypu­stjórn. Það er jafn mik­il áskor­un og það er létt verk fyr­ir henti­stefnu­flokka og lýðhyggjusinna að taka hvaða til­boði sem er í póli­tík.

Hitt skal játað að við sjálf­stæðis­menn höf­um lúmskt gam­an af því hve and­stæðing­um okk­ar geng­ur illa að skilja hvernig sam­keppni hug­mynda og hörð skoðana­skipti leysa úr læðingi póli­tísk­an kraft Sjálf­stæðis­flokks­ins. En vissu­lega hafa sam­keppn­in og átök­in um mál­efni verið þeim ofviða sem geta ekki komið til móts við and­stæð sjón­ar­mið. Þeir hinir sömu eru mjög upp­tekn­ir af sín­um gamla flokki.

Mark­mið Sjálf­stæðis­flokks­ins er að vinna að fram­gangi hug­sjóna og hafa áhrif á framtíð sam­fé­lags­ins. Hug­sjón­um er erfitt að hrinda í fram­kvæmd án þátt­töku í sam­steypu­rík­is­stjórn enda hafa kjós­end­ur aldrei veitt stjórn­mála­flokki umboð sem dug­ar til að mynda meiri­hluta­stjórn eins flokks. Ein­mitt þess vegna höf­um við sjálf­stæðis­menn þurft að rækta hæfi­leik­ann til að koma til móts við and­stæð sjón­ar­mið án þess að missa sjón­ar á hug­sjón­um. For­senda fyr­ir ár­angri í sam­starfi við aðra flokka í rík­is­stjórn er að hafa burði til að gera mála­miðlan­ir. Sá sem ekki get­ur gert mála­miðlun án þess að missa sjón­ar á hug­sjón­um er dæmd­ur til áhrifa­leys­is. En mála­miðlun er aldrei gerð án sann­fær­ing­ar um að þrátt fyr­ir allt þok­ist bar­áttu­mál­in hægt og bít­andi áfram, ann­ars er illa hægt að rétt­læta mála­miðlan­ir eða þátt­töku í rík­is­stjórn.

Það skal viður­kennt að óþol­in­móðum manni finnst oft hægt ganga. Ég hef áður haft orð á því að frels­is­mál­in sitji á hak­an­um hjá þing­mönn­um. Það er áhyggju­efni að meiri­hluti þing­heims sýn­ir lít­inn áhuga á eða er bein­lín­is and­víg­ur því að frelsi ein­stak­linga sé aukið á flest­um sviðum. Af­leiðing­in er sú að litlu og stóru frels­is­mál­in dag­ar uppi í nefnd­um eða þau kom­ast ekki á dag­skrá þings­ins. Og ekki hef­ur verið hægt að reiða sig á stuðning við frels­is­mál­in frá and­stæðing­um sem sýna Sjálf­stæðis­flokkn­um meiri áhuga en eig­in stefnu­mál­um – þvert á móti.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 2. ágúst 2023.