Óli Björn Kárason formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:
Ég hef ágætan skilning á því að andstæðingar Sjálfstæðisflokksins hafi mestan áhuga á því að ræða Sjálfstæðisflokkinn, stefnu hans og störf og jafnvel einstaka þingmenn og ráðherra. Með því komast þeir hjá því að ræða eigin stefnu og hugmyndir. Fyrir marga er ekki verra að losna við að standa skil á pólitísku árangursleysi.
Það er eðlilegt að kastljós fjölmiðla beinist fremur að Sjálfstæðisflokknum en öðrum flokkum. Ekki dettur mér til dæmis í hug að gagnrýna fréttastofu Stöðvar 2 sem taldi rétt að fá formann flokks, sem hefur fæsta þingmenn sér að baki, í langt viðtal til að fá álit hans á Sjálfstæðisflokknum. En óneitanlega vakti það athygli að „fréttin“ um álit andstæðings væri fyrsta frétt kvöldsins. Ekkert nýtt kom fram, engar nýjar upplýsingar. Viðtalið minnti fremur á leikþátt en frétt. Skemmtanagildið var nokkurt en líklega aðeins fyrir okkur sjálfstæðismenn.
Aukaatriði og klisjur
Hafi einhver beðið spenntur eftir viðtali við formenn Miðflokks og Viðreisnar á Sprengisandi Bylgjunnar síðasta sunnudag hefur sá hinn sami líklega orðið fyrir vonbrigðum. Ekkert nýtt, aðeins gömul uppfærð handrit og innihaldslaus slagorð. Klisjurnar runnu út á færibandi. Stefnumál eigin flokka virðast oftast vera aukaatriði í huga forystufólks stjórnarandstöðunnar sem hefur mestan áhuga á störfum og stefnu Sjálfstæðisflokksins.
Þá sjaldan formennirnir minntust á eigin stefnu var beitt nokkuð frjálsri aðferð. Mynd og hljóð fóru a.m.k. illa saman þegar formaður Viðreisnar hélt því fram að flokkurinn hefði lagt fram fjölmargar tillögur til hagræðingar í ríkisrekstri. Við afgreiðslu fjárlaga fyrir yfirstandandi ár lagði þingflokkur Viðreisnar til skattahækkanir upp á 19,5 milljarða króna og að útgjöld yrðu aukin nettó um 12 milljarða. Þá er ógleymd tillaga um tekjufærslu upp á 13 milljarða með því að hækka matsvirði Íslandsbanka! Engar tillögur komu fram á liðnu vori við afgreiðslu fjármálaáætlunar 2024 til 2028. Það er ekki að ástæðulausu að fyrrverandi þingmaður og ráðherra Viðreisnar halda því fram að flokkurinn hafi færst of mikið til vinstri. Viðreisn er leynt og ljóst í samkeppni við aðra vinstriflokka, skiptir engu hvort um er að ræða stefnu í málefnum flóttamanna þar sem keppt er við Pírata eða í skatta- og útgjaldamálum í kapphlaupi við Samfylkinguna.
Spjall formannanna tveggja á Sprengisandi og skemmtilegur leikþáttur í fréttum Stöðvar 2 varpa hins vegar nokkru ljósi á hve fáir kostir voru og eru fyrir hendi til að mynda starfhæfa samsteypustjórn sem hefur pólitískt þrek og brotnar ekki þegar á móti blæs. Þar skipta forystufólk og sterkir innviðir flokka mestu. Þessu fengum við sjálfstæðismenn að kynnast fyrir nokkrum árum í nokkurra mánaða samstarfi við tvo flokka. Annar hefur gefið upp öndina en hinn tekið sér stöðu í kapphlaupi vinstriflokkanna.
Fjörugt sumar
Í nokkru hefur sumarið verið óvenju fjörugt í pólitíkinni. Eins og oftast snýst flest um Sjálfstæðisflokkinn, sem er þungamiðja stjórnarmálaumræðunnar – akkerið sem heldur í ólgusjó. Fjölmiðlar og pólitískir andstæðingar hafa gert sér mat úr því að meðal sjálfstæðismanna er töluverð óánægja með ríkisstjórnina og áhyggjur af því að forysta og þingflokkur hafi gengið of langt í málamiðlunum við samstarfsflokkana.
Gagnrýnin er ekki ný af nálinni en það er nauðsynlegt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að hún sé lifandi á hverjum tíma og á hana sé hlustað. Þingflokkur og forysta Sjálfstæðisflokksins sækir orku og nýjar hugmyndir meðal annars í gagnrýni frá félögum sínum. Klisjur og sleggjudómar pólitískra andstæðinga eru á stundum örlítil stundarskemmtun en yfirleitt áhrifalaust hjal sem engu breytir.
Fyrir stjórnmálaflokk sem byggður er á skýrri hugmyndafræði er það alltaf áskorun að taka þátt í samsteypustjórn. Það er jafn mikil áskorun og það er létt verk fyrir hentistefnuflokka og lýðhyggjusinna að taka hvaða tilboði sem er í pólitík.
Hitt skal játað að við sjálfstæðismenn höfum lúmskt gaman af því hve andstæðingum okkar gengur illa að skilja hvernig samkeppni hugmynda og hörð skoðanaskipti leysa úr læðingi pólitískan kraft Sjálfstæðisflokksins. En vissulega hafa samkeppnin og átökin um málefni verið þeim ofviða sem geta ekki komið til móts við andstæð sjónarmið. Þeir hinir sömu eru mjög uppteknir af sínum gamla flokki.
Markmið Sjálfstæðisflokksins er að vinna að framgangi hugsjóna og hafa áhrif á framtíð samfélagsins. Hugsjónum er erfitt að hrinda í framkvæmd án þátttöku í samsteypuríkisstjórn enda hafa kjósendur aldrei veitt stjórnmálaflokki umboð sem dugar til að mynda meirihlutastjórn eins flokks. Einmitt þess vegna höfum við sjálfstæðismenn þurft að rækta hæfileikann til að koma til móts við andstæð sjónarmið án þess að missa sjónar á hugsjónum. Forsenda fyrir árangri í samstarfi við aðra flokka í ríkisstjórn er að hafa burði til að gera málamiðlanir. Sá sem ekki getur gert málamiðlun án þess að missa sjónar á hugsjónum er dæmdur til áhrifaleysis. En málamiðlun er aldrei gerð án sannfæringar um að þrátt fyrir allt þokist baráttumálin hægt og bítandi áfram, annars er illa hægt að réttlæta málamiðlanir eða þátttöku í ríkisstjórn.
Það skal viðurkennt að óþolinmóðum manni finnst oft hægt ganga. Ég hef áður haft orð á því að frelsismálin sitji á hakanum hjá þingmönnum. Það er áhyggjuefni að meirihluti þingheims sýnir lítinn áhuga á eða er beinlínis andvígur því að frelsi einstaklinga sé aukið á flestum sviðum. Afleiðingin er sú að litlu og stóru frelsismálin dagar uppi í nefndum eða þau komast ekki á dagskrá þingsins. Og ekki hefur verið hægt að reiða sig á stuðning við frelsismálin frá andstæðingum sem sýna Sjálfstæðisflokknum meiri áhuga en eigin stefnumálum – þvert á móti.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 2. ágúst 2023.