Bjarni

Margt verið gert til að lækka skatta

„Við höfum gert alveg gríðarlega margar jákvæðar breytingar á kerfunum til að lækka skatta á fólk,“ segir Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra í viðtali í nýlegum hlaðvarpsþætti Þjóðmála. Þáttinn má finna hér.

Bjarni segist ánægður með ferilskrá sína í ráðuneytinu. Hann nefnir í þessu sambandi fjölmargar breytingar sem gerðar hafa verið í hans tíð. Þar nefnir hann þegar vörugjöldin voru aflögð og tollar lækkaðir sem hafi haft áhrif á þúsundir vöruflokka og jafnað samkeppnisstöðu íslenskrar verslunar við nágrannalönd. Einnig lækkun á efra þrepi virðisaukaskatts, skattkerfisbreytingar fyrir sprotafyrirtæki, nýsköpunarfyrirtæki og almannaheillafélög. Eins hafi frítekjumark í erfðafjárskatti verið hækkað í 5 milljónir og gerðar jákvæðar breytingar á fjármagnstekjuskattinum. Frítekjumark tekjuskatts hafi verið hækkað í 300 þúsund krónur sem síðan hafi verið tengt vísitölu. Jafnframt hafi verið gerðar margar breytingar á tekjuskattskerfinu til lækkunar.

Þá nefnir hann sem dæmi sölu á sumarhúsum sem hafi m.a. haft jákvæð áhrif á afkomu eldri borgara sem vilji selja. „Við tókum það úr skerðingarkerfunum og lækkuðum prósentuna með því að fara yfir í fjármagnstekjur,“ segir hann og einnig: „Sama gerðum við með hugverkaréttindi fyrir tónsmíði.“ Þá hafi verið búin til sérstök skattaívilnun fyrir sérfræðinga sem vilji flytjast til landsins í fyrsta skipti til að vinna.

„Við trúum að þetta séu fyrirtæki framtíðarinnar“

Endurgreiðslur hafa verið stórauknar vegna rannsókna og þróunar. Bjarni segir að sú aðgerð sé að skila sér í 15 milljarða skattalækun árlega til fyrirtækja sem eru að fjárfesta í rannsóknum og þróun á Íslandi.

„Afhverju erum við að þessu? Vegna þess að við trúum að þetta séu fyrirtæki framtíðarinnar, störf framtíðarinnar. Við viljum að fólk sem starfar við rannsóknir og þróun sé frekar að gera það á Íslandi heldur en það leiti á önnur mið, en það er ákveðin samkeppni milli þjóða um hvar slíkt starf fer fram,“ segir Bjarni.

Í viðtalinu segir hann ríkisfjármálin hafa þróast með ótrúlega jákvæðum hætti síðastliðinn áratug. Hér hafi verið skuldavandi og hvert lánið á fætur öðru á allt of háum vöxtum. Landið hafi einnig verið fast í fjármagnshöftum. Fjármagnshöftin hafi verið aflögð með stöðugleikaskatti og stöðugleikaframlögum sem skiluðu rúmlega 500 milljörðum til ríkisins þegar upp var staðið.

Spurður út í hvort ekki ætti að lækka skatta segir hann að á síðasta landsfundi hafi hann talað fyrir nauðsyn þess núna að safna kröftum, loka fjárlagagatinu og gera betur í meðferð opinbers fjár þannig að svigrúm væri til staðar á næsta kjörtímabili til að fara í myndarlegar skattalækkanir.

Eigum að horfa til millitekjufólksins

„Ég held að það sé millitekjufólkið á Íslandi sem við eigum að vera að horfa til. Fólk sem er með börn á framfæri, fólk sem er með væntingar um að komast úr fyrstu íbúðinni sem það flutti í sem fyrstu fjárfestingu og komast í næsta húsnæði. Fólk sem hefur áhyggur af því að taka lán til þess vegna þess að það veit ekki hvert vaxtastigið verður. Við eigum að tala til þessara hópa og segja að við ætlum að standa með þeim,“ segir Bjarni um áherslur í skattalækkunum.

Hann segir að með þeim áherslum sem sjálfstæðismenn hafi talað fyrir hafi náðst árangur og að það megi gera áfram. Nefnir hann í þessu sambandi jaðarskattana þegar fólk detti út úr bótakerfinu við það að hækka í launum og að fara í næsta skattþrep og aukna skattbirði eftir því sem það ferð hærra. „Þar finnst mér að við þurfum að vera að beita okkur,“ segir hann.

Þá segir hann rétt að skoða sömuleiðis ýmsa gjaldtöku og regluverk sem lítil og meðalstór fyrirtæki kvarti gjarnan undan og segja að stjórnkerfið sé of svifaseint og það sé of íþyngjandi að vera í samskiptum við hið opinbera.

„Ég hef lagt áherslu á starfræn samskipti og við höfum fjárfest gríðarlega þar. Ég veit að við höfum náð miklum árangri og létt undir með fólki og fyrirtækjum. Ég held að við getum gert miklu meira þannig að fólk finni að það er staðið með því ef það er tilbúið að láta til sín taka,“ segir Bjarni.

Þáttinn í heild sinni má finna hér.