Íbúasamráði hafnað í mikilvægum málum

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:

Æskilegt er að valdhafar leggi sig fram um að vera í góðu sambandi við umbjóðendur sína og eigi við þá samráð um margvísleg málefni. Slíkt samráð er sérstaklega mikilvægt þegar um er að ræða breytingar í nærumhverfi íbúa, sem geta haft veruleg áhrif á lífsgæði þeirra. Er þá rétt að stjórnvöld kynni fyrirhugaðar breytingar og gefi íbúum kost á að segja skoðun sína áður en endanleg ákvörðun er tekin. Slíkt samráð þarf ekki að fela í sér að stjórnvöld fallist á allar athugasemdir íbúa í öllum málum. Það er þó tvímælalaust mikils virði fyrir valdhafana að kynna sér þannig viðhorf íbúa og þekkja þau áður en lengra er haldið. Með slíku samráði er líka efnt til samtals milli íbúa og valdhafa, sem getur auðveldað mjög málamiðlun í viðkvæmum málum.

Því miður hefur sú þróun orðið í málefnum Reykjavíkurborgar á undanförnum árum að samráð við borgarbúa fer minnkandi. Lögbundnu samráði í skipulagsmálum er sinnt, en þá frekar í þeim tilgangi að fullnægja lagaákvæðum en að nota samráðsferlið til að ná sem mestri sátt um einstakar breytingar.

Ekkert samráð um gjaldtöku í íbúahverfum

Í lok júní 2023 ákvað meirihluti Framsóknar, Pírata, Samfylkingar og Viðreisnar að hækka bílastæðagjöld í miðborg Reykjavíkur um 40% Einnig var gjaldskyldutími lengdur til kl. níu, öll kvöld vikunnar.

Svo umfangsmiklar breytingar verðskulda að sjálfsögðu vandað samráð við borgarbúa og umræður á vettvangi borgarstjórnar. Meirihlutinn beið með að leggja tillögur sínar fram þar til borgarstjórn var farin í sumarfrí og afgreiddi þær síðan með forgangshraða á tveimur dögum. Tillögur Sjálfstæðisflokksins um, að fyrirhugaðar breytingar yrðu kynntar fyrir íbúum, íbúasamtökum og rekstraraðilum í miðborginni og þeim gefinn kostur á að segja álit sitt á þeim, voru felldar.

Áður hafði meirihlutinn ákveðið að stækka gjaldsvæði með því að taka upp gjaldskyldu í um tuttugu íbúagötum í Vesturbænum og Austurbænum. Tillaga Sjálfstæðisflokksins, um að íbúum viðkomandi gatna yrði gefinn kostur á að tjá sig um þær áður en ákvörðun yrði tekin, var einnig felld af fulltrúum meirihlutans.

Umferðarskipulagi íbúagatna breytt án samráðs

Í lok júní 2023 ákvað meirihlutinn einnig að koma á einstefnuakstri um Ásvallagötu og Sólvallagötu, austan Hofsvallagötu. Tillagan var kynnt umhverfis- og skipulagsráði með minnsta mögulega fyrirvara og keyrð í gegn á síðasta fundi þess fyrir sumarleyfi. Tillaga Sjálfstæðisflokksins um að íbúum viðkomandi gatna yrði gefinn kostur á að tjá sig um málið áður en endanleg ákvörðun yrði tekin, var felld af fulltrúum meirihlutans.

Full ástæða hefði verið til að skoða málið betur og gefa íbúum kost á að tjá sig enda ólíklegt að einstefnuakstur auki umferðaröryggi. Hugmyndir um einstefnuakstur í umræddum götuköflum hafa nefnilega áður verið skoðaðar innan borgarkerfisins. Ekki var á þeim tíma fallist á einstefnu þar sem umferðarsérfræðingar töldu að hún myndi auka hraðakstur og þar með slysahættu.

Bílastæðum fækkað án samráðs

Að undanförnu hefur meirihlutinn ákveðið margvíslegar breytingar á skipulagi í íbúagötum án þess að viðkomandi íbúum sé gefinn nokkur kostur á samráði. Þannig hefur verið ákveðið að leggja niður öll almenn bílastæði (36 talsins) við Rauðarárstíg milli Bríetartúns og Hverfisgötu. Einnig hefur verið ákveðið að fækka bílastæðum verulega við Öldugötu og í Brautarholti um a.m.k. 19 á sama tíma og íbúðum við götuna fjölgar um a.m.k. 78. Þá verður Mjölnisholti breytt í tvístefnugötu, sem mun þýða aukna umferð um götuna og brotthvarf 24 almennra bílastæða. Fleiri dæmi mætti nefna og ekki er vitað hvaða Reykvíkingar verða næst sviptir bílastæðum sínum.

Auka þarf samráð við borgarbúa

Hér að ofan eru nefnd nokkur svæðisbundin hagsmunamál, sem skipta viðkomandi íbúa miklu máli. Í þessum tilvikum og ýmsum fleirum, lögðu borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins til að kynning færi fram og íbúum gefinn kostur á að tjá sig áður en ákvörðun yrði tekin. Fulltrúar meirihlutans hafna hins vegar öllum slíkum tillögum um aukið samráð. Þeir kjósa þannig að taka ekki samtalið við þá borgarbúa, sem breytingarnar varða mest.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins munu áfram leggja áherslu á að borgaryfirvöld viðhafi samráð við íbúa um mikilsverð hagsmunamál í nærumhverfi þeirra.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 27. júlí 2023.