Fengsæl sókn á óviss mið

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins og utanríkisráðherra:

Frétt­ir af sölu ís­lenska fy­ritæk­is­ins Kerec­is inn í alþjóðlega sam­stæðu hafa von­andi þau áhrif að auka enn frek­ar skiln­ing hér á landi á mik­il­vægi þess að á Íslandi sé framúrsk­ar­andi um­hverfi fyr­ir ný­sköp­un­ar­drifna frum­kvöðla­starf­semi. Þessi ánægju­legi ár­ang­ur und­ir­strik­ar ræki­lega þá staðreynd að hug­vit og sköp­un­ar­gáfa eru grund­völl­ur verðmæta­sköp­un­ar og ef rétt er á mál­um haldið geta hug­mynd­ir orðið að mikl­um verðmæt­um.

Í til­viki Kerec­is hafa komið sam­an fjöl­marg­ir já­kvæðustu eig­in­leik­ar frjáls markaðshag­kerf­is. Ekki er gengið á nátt­úru­auðlind­ir við fram­leiðslu á vöru fyr­ir­tæk­is­ins; þvert á móti bygg­ist hún á bættri nýt­ingu á nátt­úru­legri afurð (fiskroði). Starf­semi fyr­ir­tæk­is­ins býður upp á fjölda áhuga­verðra og hátt launaðra starfa sér­fræðinga víða um heim, og hafa marg­ir þeir sem tekið hafa þátt í upp­bygg­ing­unni þar að auki notið ríku­legs ávaxt­ar af vel­gengni fyr­ir­tæk­is­ins þar sem stofn­and­inn hef­ur lagt áherslu á að áhöfn­in hans eigi hlut­deild í þeim ár­angri sem hún hef­ur tekið þátt í að skapa. Síðast en ekki síst hef­ur sjálf var­an sem fyr­ir­tækið fram­leiðir það mark­mið að lina þján­ing­ar fólks og draga úr af­leiðing­um af al­var­leg­um sár­um.

Lýs­ing­ar Guðmund­ar Fer­trams stofn­anda Kerec­is á hvernig hug­mynd hans um að nota fiskroð til að græða sár kviknaði sýna einnig fram á það hvernig fjölþætt reynsla, víðsýni og hug­mynda­auðgi geta orðið kveikja að glæ­nýj­um og skap­andi lausn­um. Í ný­legu viðtali á Sprengisandi sagði hann frá því hvernig reynsla hans við að sinna roðfletti­vél í fisk­vinnslu á Ísaf­irði leiddi beint til þess að með hon­um kviknaði hug­dett­an um að nota þorskroð til að græða sár. Þessi litla saga um upp­runa hug­mynd­ar sem er upp­haf gríðarlegr­ar verðmæta­sköp­un­ar er gagn­leg áminn­ing um að leiðirn­ar sem sköp­un­ar­kraft­ur manns­ins get­ur farið eru ófyr­ir­sjá­an­leg­ar og geta aldrei lotið snyrti­leg­um verk­ferl­um eða passað inn í fyr­ir­fram­gef­in skap­alón. Sam­fé­lag sem bygg­ist á sköp­un þarf að hafa skiln­ing á því að slíkt krefst umb­urðarlynd­is gagn­vart óvissu og óreiðu.

Viðsnún­ing­ur í stuðningi

Hug­mynd­in sjálf er aðeins fyrsta skrefið á langri og óvissri veg­ferð sem er ætíð lík­legri til þess að enda með upp­gjöf en sigri. Það er í eðli raun­veru­legr­ar ný­sköp­un­ar að frum­kvöðlarn­ir sjálf­ir, starfs­menn­irn­ir, fjár­fest­arn­ir og sam­fé­lagið, sætta sig við þann veru­leika að gríðarlega margt þarf að ganga upp til þess að jafn­vel hinar bestu hug­mynd­ir hjá hinu hæf­asta fólki skili ár­angri og ávöxt­un.

Und­an­far­in ár hef­ur um­hverfi frum­kvöðladrif­inn­ar ný­sköp­un­ar styrkst mjög á Íslandi. Hér skipt­ir ekki minnstu að smám sam­an hef­ur orðið til auk­in þekk­ing á gang­verki hins alþjóðlega fjár­mögn­ar­um­hverf­is vísifjár­festa (e. vent­ure capital) og hröð upp­bygg­ing á slík­um sjóðum inn­an­lands. Sam­kvæmt töl­um frá Northstack var Ísland árið 2022 lík­lega það land í heim­in­um þar sem vísifjár­fest­ing­ar voru mest­ar miðað við höfðatölu. Er þetta al­gjör viðsnún­ing­ur á stutt­um tíma. Hér skipt­ir einnig máli að nú starfa á Íslandi fjöl­marg­ir frum­kvöðlar sem þegar hafa markað braut­ina, öðlast alþjóðlega vel­gengni og leggja hart að sér við að miðla af þekk­ingu sinni, reynslu og tengslaneti svo aðrir ís­lensk­ir frum­kvöðlar eigi betri færi til þess að láta hug­mynd­ir sín­ar þrosk­ast upp í raun­veru­leg verðmæti. Til þess að snjöll hug­mynd eigi mögu­leika á vexti eins og dæmið um Kerec­is sýn­ir þarf henni að fylgja bæði þraut­seigja og fjár­magn; en einnig mik­il og alþjóðlega sam­keppn­is­hæf þekk­ing á sviði vöruþró­un­ar, vís­inda, markaðsmá­la, fjár­mála og viðskipta. Allt þetta get­ur myndað um­hverfi ár­ang­urs sem allt sam­fé­lagið nýt­ur góðs af.

Fimm und­ir­stöður

Í hlut­verki mínu sem ráðherra ný­sköp­un­ar­mála kynnti ég í októ­ber 2019 ný­sköp­un­ar­stefnu ís­lenskra stjórn­valda. Í henni var ekki gerð til­raun til þess að giska á hvert ný­sköp­un­ar­kraft­ur Íslands ætti helst að renna. Þar var ekki að finna neins kon­ar end­an­leg svör um hvort framtíðin fæl­ist í fiskroði, sýnd­ar­veru­leika eða ein­hvers kon­ar ann­arri tækni. Í ný­sköp­un­ar­stefn­unni var ein­mitt lögð of­uráhersla á að ýta und­ir hið al­menna um­hverfi ný­sköp­un­ar á Íslandi og að auka skiln­ing á eðli þeirr­ar teg­und­ar at­vinnu­starf­semi sem fel­ur í sér litl­ar lík­ur á ár­angri, en gríðarleg­an ábata í þeim fáu til­vik­um þegar allt smell­ur sam­an. Þar voru fimm und­ir­stöður ný­sköp­un­ar skil­greind­ar sem fjár­magn, mannauður, markaðsaðgengi, um­gjörð og hug­ar­far. Í nú­ver­andi hlut­verki mínu sem ut­an­rík­is­ráðherra tel ég miklu skipta að efla skiln­ing á mik­il­vægi þess að gæta að hags­mun­um frum­kvöðladrif­inn­ar ný­sköp­un­ar. Í því sam­hengi nefni ég áherslu mína á þátt­töku Íslands í ný­sköp­un­ar­sjóði Atlants­hafs­banda­lags­ins en ís­lensk­ir frum­kvöðlar geta vita­skuld lagt sitt­hvað af mörk­um í viðfangs­efn­um sem geta varðað ör­ygg­is­mál.

Hinn mikli fjár­hags­legi ábati sem stofn­end­ur, starfs­menn og fjár­fest­ar í Kerec­is hafa nú upp­skorið ætti að vera hvatn­ing. Svona ár­ang­ur er þó und­an­tekn­ing og þess vegna þarf að tryggja að þeir sem leggja sam­an út í slík­ar óvissu­ferðir, hvort sem það eru skip­stjór­arn­ir eða há­set­arn­ir á slík­um skút­um, njóti ávaxt­anna af þeim þegar þær lukk­ast. Þannig styrk­ist smám sam­an geta okk­ar sem sam­fé­lags til þess að nýta þá óþrjót­andi og um­hverf­i­s­vænu nátt­úru­auðlind sem mestu ræður um lífs­gæði okk­ar og vel­ferð – sköp­un­ar­gleði og fram­kvæmda­mátt ein­stak­lings­ins.

Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 16. júlí 2023.