Diljá Mist Einarsdóttir alþingismaður:
Á dögunum fékk ég svar frá utanríkisráðherra við fyrirspurn minni um karfaveiðar Rússa á Reykjaneshrygg. Rússar eru þeir einu sem stunda veiðarnar þvert á bann Norður-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar sem var sett á í kjölfar ráðlegginga Alþjóðahafrannsóknaráðsins vegna veikrar stöðu stofnsins. Tilefni fyrirspurnarinnar var umfjöllun fjölmiðla um þjónustu Færeyinga við rússneska togara sem hafa stundað þessar veiðar á svæðinu, en bæði veiðar og þjónusta við skip sem þar veiða falla undir bannið.
Í svarinu kemur fram að Færeyingar hafi vissulega tekið undir bannið, en hafi borið við skorti á lagaheimild til þess að bregðast við því. Úr því hefur nú verið bætt þegar Færeyingar breyttu umræddum lögum nú í júní sl. Eftir það hafa borist fregnir af því að rússneskir togarar sigli með afla sinn alla leið til Noregs. Þar eð Norðmenn sátu hjá þegar umrætt bann var samþykkt eru þeir ekki bundnir af því innan lögsögu sinnar og geta því þjónustað Rússa. Þessar upplýsingar eru tilefni til frekari eftirgrennslana. Afstaða Norðmanna, sem hafa hagnast gríðarlega á breyttri stöðu heimsmálanna, að aðstoða Rússa kemur á óvart. Norðmönnum á að vera tjónið af veiðunum vel ljóst.
Í umræddri fyrirspurn spurði ég sömuleiðis um rússneska togara, sem hafa við veiðarnar verið staðnir að því að toga yfir fjarskiptastrengi, og um viðbrögð íslenskra stjórnvalda. Þótt Rússar njóti hér frelsis eins og aðrir til friðsamlegra siglinga er vitað að þeir hafa verið að sniglast í kringum neðansjávarkaplana okkar. Utanríkisráðherra upplýsti að vegna þessa og breyttrar stöðu í öryggismálum almennt hefði eftirlit verið aukið með umferð rússneskra togara um íslenska lögsögu. Eftirlit Landhelgisgæslunnar hefur þannig aukist, en sömuleiðis eftirlit í samstarfi við nágrannaríki okkar, m.a. kafbátaeftirlit.
Þættirnir Skuggastríð sem unnir voru af ríkismiðlum Norðurlandanna, að RÚV undanskildu, afhjúpuðu umfangsmikla njósnastarfsemi Rússa sem beinist m.a. að því að kortleggja fjarskiptastrengi. Það er nauðsynlegt að hér sé samfellt og virkt kafbátaeftirlit. Eins og utanríkisráðherra benti á í svari sínu var nýleg ákvörðun um að heimila bandarískum kafbátum að koma hingað til lands liður í auknu eftirliti og tryggir betra öryggi neðansjávarinnviða. Þrátt fyrir áróður sumra er ljóst að öflugar varnir hafa fælingarmátt og auka því síður en svo líkur á árás á okkar friðsælu eyju.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 13. júlí 2023.