Vill fækka stofnunum úr tíu í fimm

Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur á undanförnu mánuðum unnið að því í ráðuneyti sínu að sameina þær stofnanir sem starfa á vegum ráðuneytisins.

Vinna við frumvarp um sameiningu Vatnajökulsþjóðgarðs, Þjóðgarðsins á Þingvöllum, náttúruverndarsvið Umhverfisstofnunar og Minjastofnun í Náttúruverndar- og minjastofnun annars vegar og Orkustofnun og Umhverfisstofnun í Loftslagsstofnun hins vegar er langt komin.

Ráðherra hefur ákveðið að áform um Náttúruvísindastofnun munu ekki ganga upp nema að hluta og þarfnist frekari skoðunar. Sú hugmynd gekk út á að Náttúrufræðistofnun Íslands, Náttúrurannsóknarstöðin við Mývatn, Veðurstofa Íslands, Landmælingar Íslands og ÍSOR myndu sameinast í ofangreinda stofnun, en ákveðið hefur verið að Veðurstofan og ÍSOR verði áfram reknar sjálfstæðar. Áfram verður þó unnið að því að efla samstarf stofnananna og skoða samþættingu eða flutning einstakra verkefna.

Þetta kemur fram í frétt á vef ráðuneytisins. Þar segir m.a.: „Sameiningu stofnana umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins er m.a. ætlað að ná þeim markmiðum að:

  • Til verði stærri, kröftugri og faglega öflugri stofnanir sem geti tekist á við áskoranir  til framtíðar og unnið að markmiðum Íslands í umhverfismálum.
  • Efla þekkingar- og fræðasamfélag og nýsköpun í opinberum rekstri.
  • Fjölga störfum á landsbyggðinni og störfum óháð staðsetningu
  • Nýta betur þekkingu og innviði og auka sveigjanleika til að takast á við stór verkefni.
  • Einfalda áætlanagerð og auka rekstrarhagkvæmni.
  • Tryggja aðkomu nærsamfélaga að þjóðgörðum og friðlýstum svæðum.“

Undirstofnunum ráðuneytisins fækkar því með þessum áformum úr tíu í fimm.

Fréttina í heild má sjá hér.