Mikill taprekstur borgarsjóðs þrátt fyrir stórauknar tekjur

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:

Borgarsjóður var rekinn með 3.974 milljóna króna halla á fyrsta ársfjórðungi 2023 samkvæmt nýbirtu árshlutauppgjöri.  Er það 1.807  milljóna verri niðurstaða en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir. Rekstrarniðurstaða fyrir fjármagnsgjöld er neikvæð um 764 milljónir króna en fjármagnsgjöld nema 3.209 milljónum á tímabilinu.

Vaxandi skuldir áhyggjuefni

Ekkert lát er á skuldasöfnun Reykjavíkurborgar. Samkvæmt rekstraruppgjörinu jukust skuldir borgarsjóðs um tíu milljarða á fyrsta ársfjórðungi og nema þær nú 184 milljörðum króna. Aukast skuldirnar þannig mun hraðar en í fyrra en þá hækkuðu þær um þrjátíu milljarða á öllu árinu. Ef svo fer fram sem horfir gætu skuldir borgarsjóðs farið yfir 200 milljarða króna á árinu 2023, sem yrði mikið áhyggjuefni.

Borgarsjóður á ekki við tekjuvanda að stríða. Heildartekjur tímabilsins aukast um rúmlega 15% á milli ára eða vel umfram verðbólgu. Svo mikil tekjuaukning á milli ára fól að sjálfsögðu tækifæri til að bæta reksturinn verulega en það virðist ekki hafa verið nýtt sem skyldi.

Stórhækkun skatttekna

Sérstaka athygli vekur mikil hækkun útsvarstekna borgarinnar á fyrsta ársfjórðungi 2023 í samanburði við sama tímabil 2022. Hækka tekjurnar um 4,6 milljarða á milli ára eða um 17%. Svo mikil hækkun umfram launavísitölu vekur athygli og þarfnast nánari skoðunar og skýringa.

Stöðugildi voru 8.427 hjá A-hluta Reykjavíkurborgar á fyrsta ársfjórðungi 2023 og hafði þeim fjölgað um 180 eða rúmlega 2% miðað við sama tímabil 2022.

Umrætt rekstraruppgjör var lagt fram í borgarráði á næstsíðasta degi júnímánaðar. Óheppilegt er að slíkt uppgjör komi svo seint fram, ekki síst þegar staðan er jafn erfið og raun ber vitni. Áður ríkti sú hefð að birta slík uppgjör í maí eða byrjun júní. Sú spurning vaknar hvort borgarstjóri hafi ákveðið að fresta framlagningu uppgjörsins þar til borgarstjórn væri komin í sumarleyfi og koma þannig í veg fyrir óþægilega umræðu á þeim vettvangi.

Aðgerða er þörf

Umrætt uppgjör gefur vísbendingu um að hallarekstri og skuldasöfnun borgarsjóðs verði ekki snúið við á árinu 2023. Slíkt er mikið áhyggjuefni af mörgum ástæðum. Ekkert sveitarfélag getur byggt rekstur sinn á lántökum árum og jafnvel áratugum saman eins og gerst hefur í Reykjavík. Og á tímum verðbólgu og hækkandi vaxta er slík stefna beinlínis hættuleg.

Aldrei hefur verið mikilvægara að borgarstjórn Reykjavíkur nái saman um aðgerðir til að binda enda á langt tímabil hallarekstrar og skuldasöfnunar. Ljóst er að sú aðgerðaáætlun í fjármálum, sem meirihluti Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar samþykkti í tengslum við fjárhagsáætlun 2023 (á sama tíma og víðtækum hagræðingartillögum Sjálfstæðisflokksins var hafnað) hefur ekki skilað miklum árangri.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins eru sem fyrr reiðubúnir til samvinnu við meirihlutann um raunverulegar aðgerðir í því skyni að ná stjórn á fjármálum borgarinnar og koma rekstrinum í jafnvægi. Til þess þarf að endurskoða allan rekstur og ráðast í víðtækan sparnað og hagræðingu. Þá þarf að skoða sölu eigna í því skyni að grynnka á skuldum.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 6. júlí 2023.