Vantraust grefur undan samstarfi

Óli Björn Kárason formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:

Sem sam­fé­lag stönd­um við Íslend­ing­ar frammi fyr­ir fjöl­mörg­um áskor­un­um á kom­andi mánuðum og miss­er­um. Það reyn­ir á at­vinnu­rek­end­ur og for­ystu launa­fólks. Þegar tek­ist er á við verk­efn­in reyn­ir einnig á rík­is­stjórn­ina enda mark­miðið að leysa þau með far­sæl­um hætti í sam­starfi við aðila vinnu­markaðar­ins. Hvernig til tekst ræðst ekki síst af því að sæmi­legt traust sé á milli launþega, at­vinnu­rek­enda og rík­is­stjórn­ar. Ef traust og trúnaður rík­ir ekki við rík­is­stjórn­ar­borðið minnka lík­ur á að ár­ang­ur ná­ist.

Rík­is­stjórn Katrín­ar Jak­obs­dótt­ur tók til starfa eft­ir kosn­ing­ar árið 2017. Þegar ákveðið var að halda sam­starfi rík­is­stjórn­ar­flokk­anna áfram eft­ir kosn­ing­arn­ar 2021 (sem var ekki sjálf­gefið), hélt ég því fram hér á síðum Morg­un­blaðsins að það væri gert í þeirri trú að sam­starfið yrði gott. Trúnaður yrði við rík­is­stjórn­ar­borðið og „þing­menn stjórn­ar­liðsins bæri­lega sátt­ir við hvernig mál gangi fram“. Ég sótti, eins og oft áður, í kistu Davíðs Odds­son­ar og vitnaði í stefnuræðu hans sem for­sæt­is­ráðherra í októ­ber 1997. Þá var sam­steypu­stjórn Sjálf­stæðis­flokks­ins og Fram­sókn­ar­flokks á sínu öðru kjör­tíma­bili. Davíð benti á að eðli máls sam­kvæmt sé „tog­streita á milli flokk­anna um ein­stök mál“ en „slík­ar glím­ur eru jafn­an háðar und­ir for­merkj­um þess að ná niður­stöðu sem báðir flokk­ar geti unað við, en forðast er að setja sam­starfs­flokki óbil­gjörn eða óaðgengi­leg skil­yrði“.

And­stæð sjón­ar­mið

Stuðnings­menn sam­steypu­stjórna vita að það reyn­ir ít­rekað á hæfi­leika þeirra til að koma til móts við and­stæð sjón­ar­mið, án þess að missa sjón­ar á eig­in hug­sjón­um. Í þriggja flokka rík­is­stjórn reyn­ir enn frek­ar á þol­lyndi og gagn­kvæm­an skiln­ing. Fram­ganga mat­vælaráðherra í hval­veiðimál­inu ber þess merki að lít­ill skiln­ing­ur sé á mik­il­vægi þess að taka til­lit til sjón­ar­miða sam­starfs­flokk­anna. Engu virðist skipta að ráðherr­ann gangi ber­lega gegn vilja meiri­hluta rík­is­stjórn­ar­inn­ar. Varla er hægt annað en kom­ast að þeirri niður­stöðu að um beina ögr­un sé að ræða við rík­is­stjórn Katrín­ar Jak­obs­dótt­ur. Með öðrum orðum; mat­vælaráðherra hef­ur gert at­lögu að sam­starfi rík­is­stjórn­ar­flokk­anna. Og þar með veikt rík­is­stjórn­ina og grafið und­an mögu­leik­um henn­ar til að leysa erfið verk­efni á kom­andi mánuðum.

Sterk og skýr rök hafa verið sett fram um að mat­vælaráðherra hafi gengið gegn lög­um með ákvörðun um að fresta hval­veiðum. Ekki verður séð að ráðherr­ann hafi sinnt rann­sókn­ar­skyldu sinni né gætt meðal­hófs – fylgt sann­gjarnri og hóf­samri stjórn­sýslu. Gengið er þvert á stjórn­ar­skrár­var­in at­vinnu­rétt­indi og í engu hugað að þeim mikla fjár­hags­lega skaða sem ákvörðunin veld­ur um 150 launa­mönn­um og fjöl­skyld­um þeirra. And­mæla­rétt­ur er eng­inn og fyr­ir­var­inn nokkr­ir klukku­tím­ar.

Snýst ekki um hval­veiðar

Óháð því hvort rétt sé að við Íslend­ing­ar stund­um hval­veiðar eða ekki – óháð því hvort við áskilj­um okk­ur rétt til að nýta auðlind­ir okk­ar með sjálf­bær­um hætti eða ekki – þá er stjórn­sýsla ráðherra ósann­gjörn og ekki lög­um sam­kvæm. Ráðherr­ann hef­ur kastað blautri tusku í and­lit allra þing­manna sam­starfs­flokka rík­is­stjórn­ar­inn­ar. Það er póli­tísk­ur barna­skap­ur að halda að slíkt hafi ekki áhrif á sam­starfið inn­an rík­is­stjórn­ar­inn­ar. Eitt er að minnsta kosti víst: Traust milli mat­vælaráðherra og stjórn­arþing­manna er lítið og það mun hafa áhrif á sam­starf þeirra á kom­andi mánuðum.

Allt frá því að rík­is­stjórn Vinstri grænna, Fram­sókn­ar­flokks og Sjálf­stæðis­flokks var mynduð fyr­ir sex árum hef­ur reynt á þanþol flestra stjórn­arþing­manna með ein­um eða öðrum hætti. Ekki var við öðru að bú­ast þegar þrír gjör­ólík­ir flokk­ar taka hönd­um sam­an.

Þrátt fyr­ir efa­semd­ir hef ég, eins aðrir þing­menn Sjálf­stæðis­flokks­ins, haldið tryggð við rík­is­stjórn­ina – verið heill í stuðningn­um. En það hef­ur oft reynt á enda af­salaði eng­inn okk­ar rétt­in­um til að gagn­rýna, berj­ast fyr­ir breyt­ing­um á stjórn­ar­frum­vörp­um, standa í vegi fyr­ir fram­gangi vondra mála eða vinna að fram­gangi hug­sjóna.

Fram­ganga mat­vælaráðherra er vatn á myllu þeirra sem ef­ast hafa um rétt­mæti þess að halda áfram sam­starfi við flokk sem er lengst til vinstri. Flokk sem fagn­ar þegar ekki er hægt að nýta sjálf­bær­ar orku­auðlind­ir, flokk sem ekki er til­bú­inn til að horf­ast í augu við vanda vegna flótta­manna, flokk sem tel­ur betra að auka álög­ur á fyr­ir­tæki og launa­fólk en að nýta sam­eig­in­lega fjár­muni bet­ur, flokk sem er sann­færður um að biðraðir séu betri en að nýta einkafram­takið í heil­brigðisþjón­ustu.

Eitt er víst. Við sem berj­umst fyr­ir at­vinnu­frelsi, sjálf­bærri nýt­ingu auðlinda og stjórn­sýslu þar sem meðal­hófs og sann­girni er gætt eig­um litla sam­leið með ráðherra sem geng­ur fram með þeim hætti sem mat­vælaráðherra hef­ur gert. Það eru göm­ul sann­indi og ný að van­traust gref­ur und­an sam­starfi.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 5. júlí 2023.