Lögin og straumur tímans

Óli Björn Kárason formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:

Tíminn og tæknin grafa oft undan lögum – gera þau úrelt, tilgangslaus eða það sem verra er, lögin hamla framþróun samfélagsins. Löggjafinn á þá um tvennt að velja. Annars vegar að fella viðkomandi lög niður og/eða breyta þeim í takt við breytta tíma. Eða hins vegar að þráast við, berja hausnum við steininn og neita að horfast í augu við samtímann og skynja í engu framtíðina. Velji löggjafinn síðari kostinn er hættan sú að virðing fyrir gildandi lögum hverfi, almenningur hunsi lögin og leiti lausna utan hins löglega.

Eitt verður hins vegar að standast tímans tönn og brotna ekki undan sviptivindum tískunnar og mislyndi stjórnmálamanna. Fyrir samfélag frjálsra borgara er fátt mikilvægara en stjórnarskrá sem er æðsta réttarheimild hverrar þjóðar og yfir önnur lög hafin. Stjórnarskrá leggur grunninn að ríkisstjórn laga en ekki manna, tryggir mannréttindi og réttindi borgaranna gagnvart ríkisvaldinu, ver eignaréttinn og frelsi hvers og eins til orðs og æðis.

Stjórnskipan og öll lög byggjast á grunni stjórnarskrárinnar. Grundvallarritum á ekki að breyta nema brýna nauðsyn beri til. Það er gæfa okkar Íslendinga að komið var í veg fyrir að stjórnarskránni væri hent út í hafsauga til að þjónka dægurflugu stjórnmálaflokka og duttlungum háværs hóps sem taldi sig hafa fundið Stórasannleika, í kjölfar falls viðskiptabankanna.

En stjórnarskrá þarf að þróast og þroskast. Frá því að stjórnarskráin tók gildi við lýðveldisstofnun 1944 hefur 45 efnisgreinum af 79 verið breytt eða þeim bætt við. Þrátt fyrir allt hefur okkur tekist að umgangast stjórnarskrána af virðingu og náð að vinna að nauðsynlegum breytingum af yfirvegun og tryggja almennan stuðning.

Úrelt og óþörf lagasetning

Með sama hætti og orð eldast misvel fer tíminn ekki alltaf mjúkum höndum um lagasmíð löggjafans. Almenn lög sem samin eru með hliðsjón af aðstæðum hvers tíma eða jafnvel pólitískum hagsmunum sem eru síbreytilegir, hætta eðli máls að þjóna tilgangi sínum og standa samfélaginu á stundum fyrir þrifum. Það er ekki síst þess vegna sem löggjafinn verður sífellt að endurskoða og huga að hvort ástæða sé til að halda lögum í gildi eða hvort hægt sé með einhverjum hætti að einfalda þau.

Það var til fyrirmyndar árið 2020 þegar Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, þá ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, beitti sér fyrir því að felldar voru niður lagalegar kvaðir um leyfis- eða skráningarskyldu vegna starfsemi sem ekki var talið nauðsynleg. Um leið voru felld úr gildi 16 lög sem talin voru úrelt og höfðu ekki sjálfstætt gildi lengur. Líf einstaklinga og fyrirtækja var gert einfaldara og lögin löguð að breyttum tímum.

Hið sama átti við þegar Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, fékk samþykkt frumvarp um að fella úr gildi á fjórða tug laga sem höfðu lokið hlutverki sínu og ekki var missir af úr lagasafninu. Um mat á áhrifum frumvarpsins sagði í greinargerð að samþykkt þess hefði „þau ein áhrif að auka skýrleika lagasafnsins að því er varðar lög á verksviði fjármála- og efnahagsráðuneytisins“.

Enn er töluvert verk að vinna við að fella úr gildi úrelt og óþörf lög.

Landið sökk ekki

En það hefur ekki alltaf gengið vel að fella úr gildi lög sem eru orðin óþörf, þjóna ekki lengur neinum tilgangi eða standa í vegi fyrir framþróun sem almenningur kallar eftir.

Það tók þingmenn Sjálfstæðisflokksins margar tilraunir að afnema einkarétt ríkisins á öldum ljósvakans. Andstaða við að leyfa einkaaðilum að eiga og reka útvarp og sjónvarp var mikil og rótgróin. En baráttan skilaði árangri og varla er nokkur maður til sem skilur ástæður þess að ríkið skuli hafa einokað fjölmiðlamarkaðinn með þeim hætti sem gert var áður en frelsið hafði yfirhöndina. Varðstaðan um Ríkisútvarpið er að vísu enn sterk og ægivald ríkisins á fjölmiðlamarkaði hefur verið tryggt með stuðningi meirihluta þingmanna. Eitthvað segir mér að sagan dæmi þá varðstöðu með svipuðum hætti og lögverndaða einokun ríkisins á öldum útvarps og sjónvarp. Hún verður óskiljanleg.

Flestum finnst í dag það ekki aðeins skrítið heldur fremur spaugilegt, að löggjafinn hafi í áratugi talið nauðsynlegt að banna Íslendingum að kaupa og drekka áfengan bjór, en leyfa neyslu á sterkum drykkjum á sama tíma. Spádómar um að landið legðist á hliðina ef áfengur bjór yrði leyfður gengu ekki eftir – þvert á móti.

Hægt og bítandi hefur molnað undan rökunum fyrir því að ríkið skuli einoka smásölu áfengis með svipuðum hætti og fyrir einokun á útvarps- og sjónvarpsrekstri. Þó einstaka stjórnmálaflokkar berji enn hausnum við steininn og vilji ekki horfast í augu við samtímann, eru dagar ríkiseinokunar á áfengi brátt taldir. Löggjafinn getur með aðgerðaleysi sínu horft upp á einokunarverslunina daga uppi sem steinþurs eða reynt að móta lagaramma um skyldur og réttindi einkaaðila sem taka að sér smásölu á áfengi.

Forsætisráðherra hefur kallað „eftir breiðu samtali alls þjóðfélagsins um það í hvaða farvegi umgengni áfengis eigi að vera“. Ráðherrann áttar sig á því að breytinga er þörf enda lögin í litlum tengslum við samtímann. Samtalið getur verið gott en verður aldrei vörn þeirra sem vilja verja kerfi sem fyrir löngu hefur gengið sér til húðar. En yfirlýsing forsætisráðherra bendir til þess að hægt verði að stíga stór skref á komandi þingvetri, þannig að löggjafinn nái takti við samfélag frjálsra borgara.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 21. júní 2023.