Strákarnir okkar í skóla

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla,- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:

Það er ástæða fyr­ir því að ég hef á liðnu ári lagt áherslu á mik­il­vægi þess að fjölga strák­um í há­skóla­námi. Fyr­ir það fyrsta mun það gagn­ast þeim til lengri tíma, opna nýj­ar dyr fyr­ir þá og fjölga þeim tæki­fær­um sem þeir hafa til að búa sér gott líf. Í öðru lagi er hér um mik­il­vægt efna­hags­mál að ræða. Það ligg­ur fyr­ir að við þurf­um fleiri sér­fræðinga í ólík­um geir­um og fólk sem hef­ur sótt sér fjöl­breytta mennt­un til að auka enn frek­ar við hag­sæld hér á landi og fjölga stoðum í at­vinnu­líf­inu.

Þess vegna vilj­um við hvetja stráka til dáða í stað þess að tala niður stöðu þeirra í sam­fé­lag­inu, hingað til hef­ur það ekki skilað okk­ur nein­um ár­angri. Strák­arn­ir eru ekki vanda­málið, held­ur kerfið. Það er því okk­ar verk­efni að laga kerfið sem við bjóðum þeim upp á.

Aðsókn stráka í há­skóla­nám hef­ur verið áhyggju­efni og síðastliðin fjög­ur ár hafa þeir aðeins verið um þriðjung­ur nem­enda í Há­skóla Íslands. Ráðuneyti mitt stóð fyr­ir átaki nú í vor, sam­hliða um­sókna­tíma­bili í há­skóla lands­ins, und­ir yf­ir­skrift­inni Heim­ur­inn stækk­ar í há­skóla. Mark­mið átaks­ins var að hvetja ungt fólk, sér­stak­lega stráka, til að skrá sig í há­skóla og sjá tæki­fær­in sem fel­ast í því að mennta sig til fjöl­breyttra starfa í sam­fé­lag­inu.

Með átak­inu vild­um við sýna ungu fólki og þá sér­stak­lega strák­um fram á það að há­skól­inn er ekki bara fyr­ir þá sem hafa bestu ein­kunn­irn­ar í fram­halds­skóla held­ur alla sem hafa áhuga á að skapa sér frek­ari tæki­færi í framtíðinni. Há­skóla­nám þreng­ir ekki val­kosti ungs fólks held­ur er um að ræða fjár­fest­ingu sem fjölg­ar tæki­fær­um til framtíðar.

Árang­ur­inn lét ekki á sér standa. Fyrstu aðsókn­ar­töl­ur í Há­skóla Íslands eru langt um­fram vænt­ing­ar en fjölg­un er í um­sókn­um beggja kynja. Um­sókn­um kvenna hef­ur fjölgað um 2% og um­sókn­um karla um heil 13%. Það er ánægju­legt að sjá að um­sókn­ir strákanna dreifast á marg­ar deild­ir skól­ans og þeir eru helst að fara í ís­lensku, heim­speki, iðnaðar- og véla­verk­fræði og raun­vís­inda- og tölv­un­ar­fræðideild. Einnig er skemmti­legt að sjá að stelp­um fjölg­ar um­fram stráka í raf­magns- og tölvu­verk­fræði. Niður­stöðurn­ar úr Há­skóla Íslands eru mik­il­væg­ar því þar stunda 65% þeirra sem skráðir eru í há­skóla á Íslandi nám.

Þess­ari vit­und­ar­vakn­ingu þarf að halda áfram. Há­skóla­sam­fé­lagið á að end­ur­spegla sam­fé­lagið og þar get­um við gert bet­ur. Til að mynda skila strák­ar á lands­byggðinni sér verr inn í lang­skóla­nám og það þarf að skoða frek­ar hvernig hægt er að ná bet­ur til þeirra. Jafn­framt þurf­um við fleira fólk af er­lend­um upp­runa inn í há­skól­ana okk­ar. Þar liggja gríðarleg tæki­færi enda er mennt­un lyk­ill­inn að aukn­um tæki­fær­um í okk­ar sam­fé­lagi. Átak­inu er því eng­an veg­inn lokið.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 15. júní 2023.