Íþrótta- og afreksstarf lagt niður í Hveragerði

Alda Pálsdóttir, bæjarfulltrúi D-listans í Hveragerði:

Íþrótta- og frístundastefna Hveragerðisbæjar hefur síðustu ár verið höfð að leiðarljósi við gerð áætlana á sviði íþrótta- og frístundamála bæjarfélagsins og er ekki síst ætluð til bættrar lýðheilsu bæjarbúa til framtíðar.

Meginmarkmið Hveragerðisbæjar í íþrótta- og frístundastarfi var að skapa tækifæri fyrir íbúa til bættrar lífsgæða með fjölbreyttum möguleikum til hreyfingar, útiveru, iðkunar íþrótta og annarrar afþreyingar og frístundaiðju.

Leiðarljós stefnunnar er að umgjörð til frístundastarfs í bæjarfélaginu sé til fyrirmyndar og um leið hvetjandi fyrir fólk á öllum aldri til þátttöku í íþróttum, hreyfingu, útivist og frístundastarfstarfs sem í boði er. Lagt hefur verið upp með góða samvinnu á milli bæjarfélagsins, íþrótta- og frístundafélaga og annarra aðila til að bæta lýðheilsu íbúanna. Einnig að tryggja börnum og ungmennum öruggt umhverfi þar sem unnið er markvisst gegn áhættuhegðun svo sem einelti, ofbeldi, klámvæðingu og notkun vímuefna. Hveragerðisbær hefur unnið að því að skapa umhverfi sem hvetur íbúa til að stunda íþróttir og þá hreyfingu sem þeir kjósa, hvort sem það er til heilsubótar, ánægju eða á afreksstigi. Stefnan var samþykkt í bæjarstjórn 8. febrúar 2018.

Hvar erum við stödd í dag?

Þegar þessi grein er skrifuð liggur ekki fyrir hver á að setja upp stundatöflu fyrir næsta vetur vegna æfinga á eina inniíþróttasvæði okkar Hvergerðinga. Eins og málin standa þá erum við með aðstöðu til inniæfinga í íþróttahúsinu við Skólamörk. Í því húsnæði fara fram skólaíþróttir fyrir 450 nemendur yfir daginn. Þá eigum við eftir að koma fyrir öllu íþróttastarfi Hamars s.s. badmintoni, blaki, fimleikum, knattspyrnu og körfubolta, íþróttaskóla, hreyfingu eldri borgara og svo ég minnist nú ekki á að við erum með afreksíþróttamenn í fleiri en einni grein og þar af leiðandi þarf að úthluta húsinu í keppni. Umburðalyndi sem bæjarbúar sýndu síðasta vetur ber að þakka en ég hef fullan skilning á því að það sé ekki hægt að ganga að því sem vísu að bæjarbúar sýni þessu skilning annan veturinn í röð. Lausn á þessum vanda er til staðar, það eina sem vantar er þor til að velja þá lausn.

Nú er mér gróflega misboðið

Á bæjarstjórnarfundi nú í júní lögðu bæjarfulltrúar O- og B- lista fram stefnu Hveragerðisbæjar 2023-2028. Skjalið er vel upp sett og fer fögrum orðum um náttúruna og samfélagið. Í því er ekkert nýtt, við vissum til að mynda að Hveragerði hefur verið til áratuga blómstrandi bær, staðsetning og umhverfið hefur jákvæð áhrif á okkur og þau fyrirtæki sem hér eru hafa styrkt samfélagið okkar og uppbyggingu.

Það er þó einn stór galli á þessu annars fína skjali og það er að við mótun þess var ekkert samráð haft við fulltrúa úr íþróttastarfinu. Okkur á D-listanum þykir þessi nálgun ekki bara furðuleg heldur beinlínis ámælisverð. Það að ætla að markaðssetja bæjarfélagið sem heilsueflandi samfélag án þess að fá þá aðila sem bera hitann og  þungann af því starfi að borðinu, ber merki um ófagleg vinnubrögð svo ekki verði sterkara að orði komist.

Bæði í íþrótta- og frístundastefnu og á heimasíðu Hveragerðisbæjar er fjallað um góða samvinnu bæjarfélagsins, íþrótta- og frístundafélaga og annarra aðila sem bæta lýðheilsu íbúa. Það er einmitt þannig sem þetta á að virka, en til þess þarf samtalið og við höfum fengið þær upplýsingar að sú samvinna sé ekki fyrir hendi.

Það er alveg ljóst að við á D-listanum leggum ekki sömu merkingu í orðin skilvirk, gagnsæ, ábyrg og aðgengileg stjórnsýsla. Hún er greinilega eitthvað öðruvísi á vinstri vængnum!

Greinin birtist fyrst á DFS.is, 12. júní 2023