„Afkoma á frumjöfnuði ríkissjóðs stefnir í að verða 90 milljörðum betri í ár en við gerðum ráð fyrir við samþykkt síðustu fjárlaga. Að auki við þessa stórbættu afkomu og rúmlega 36 milljarða aðhald í fjárlögum næsta árs kynntum við enn frekari aðgerðir í dag [í gær] til að vinna gegn verðbólgu og vaxtahækkunum. Þar standa nokkur atriði upp úr í mínum huga:
– Við flýtum gildistöku fjármálareglna laga um opinber fjármál um ár, en þeim var tímabundið vikið til hliðar í heimsfaraldri. Skuldahlutföll og afkoma eru enda langtum betri nú en flestar spár hafa gert ráð fyrir síðustu misseri.
– Stofnframlög til uppbyggingar leiguíbúða innan almenna íbúðakerfisins verða tvöfölduð og framlög til hlutdeildarlána aukin enn frekar þannig að 1.000 íbúðir verði byggðar árlega árin 2024 og 2025 með stuðningi ríkisins í stað 500.
– Lögum verður breytt þannig að laun þjóðkjörinna fulltrúa og æðstu embættismanna ríkisins hækki um 2,5% í stað 6% þann 1. júlí nk. Þannig verði tryggt að laun æðstu embættismanna skapi ekki aukinn verðbólguþrýsting“ sagði Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra á facebook-síðu sinni í gær eftir að ríkisstjórnin kynnti sérstakar aðgerðir til að sporna gegn verðbólgu.
Helstu aðgerðir
Yfirlit yfir aðgerðirnar má finna í frétt á vef fjármála- og efnahagsáðuneytisins (sjá hér).
Helstu aðgerðir eru:
- Lögum verður breytt þannig að laun þjóðkjörinna fulltrúa og æðstu embættismanna ríkisins hækki um 2,5% í stað 6% þann 1. júlí nk. Þannig verði tryggt að laun æðstu embættismanna skapi ekki aukinn verðbólguþrýsting.
- Stofnframlög til uppbyggingar leiguíbúða innan almenna íbúðakerfisins verða tvöfölduð og framlög til hlutdeildarlána verða aukin enn frekar þannig að í stað þess að 500 íbúðir verði byggðar árlega árin 2024 og 2025 með stuðningi ríkisins verða þær 1000 á ári. Auk þess verður 250 nýjum íbúðum bætt við fyrri áætlanir þessa árs og verða þá samtals tæplega 800. Þetta styður við aukið framboð á húsnæðismarkaði.
- Fjármálareglur taka gildi ári fyrr en áætlað var en þeim var tímabundið vikið til hliðar í heimsfaraldri.
- Frumvarp um stofnun Þjóðarsjóðs verður lagt fram að nýju til að styrkja enn frekar áfallaþol ríkissjóðs til framtíðar.
- Lagt verður mat á árangur af núverandi fjármálareglum og tækifæri til úrbóta.
- Afkoma ríkissjóðs verður bætt um 36,2 milljarða króna á næsta ári með sparnaði í rekstri ríkisins, þar með talið niðurskurði í ferðakostnaði, frestun framkvæmda, nýjum tekjum og með því að draga úr þensluhvetjandi skattaívilnunum eins og fram kemur í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar.
- Þar af verður framkvæmdum fyrir a.m.k. 3,5 milljarða króna frestað tímabundið til að draga úr þenslu. Meðal verkefna er nýbygging stjórnarráðsins og samhæfingarmiðstöð viðbragðsaðila.
- Til þess að verja kaupmátt örorku- og ellilífeyrisþega verður lífeyrir almannatrygginga hækkaður um 2,5% frá miðju ári, til viðbótar við 7,4% hækkun í upphafi árs.
- Frítekjumark húsnæðisbóta leigjenda verður hækkað um 2,5% fyrir yfirstandandi ár, afturvirkt frá 1. janúar sl., til viðbótar við hækkun þess í upphafi árs um 7,4%.
- Þá er unnið að lagabreytingum sem munu bæta réttarstöðu leigjenda á húsnæðismarkaði og mun starfshópur skila tillögum sínum þar að lútandi fyrir 1. júlí næstkomandi.
- Kannaðar verða breytingar á lagaumhverfi heimagistingar til að jafna samkeppnisstöðu og draga úr þrýstingi á húsnæðismarkað.
Þá mun ríkisstjórnin leggja fram frumvarp á Alþingi um að launahækkanir þjóðkjörinna fulltrúa og æðstu embættismanna ríkisins verði einungis 2,5% í ár í stað 6% eins og núverandi lög gera ráð fyrir. Með því vill ríkisstjórnin tryggja að laun æðstu ráðamanna auki ekki verðbólguþrýsting.
Dregið saman í ríkisrekstri gegn verðbólguþrýstingi
Í frétt ráðuneytisins kemur fram að í fjármálaáætlun til næstu fimm ára sé gert ráð fyrir aðhaldi á næsta ári upp á 8,8 milljarða með auknum sparnaði og viðbótaraðhaldi á aðalskrifstofur ráðuneyta sem og frestun fjárfestinga upp á 3,5 milljarða. Því til viðbótar verður afkoman bætt um 9 milljarða í fjárlögum næsta árs. „Þar verður m.a. horft til þess að draga úr ferðakostnaði Stjórnarráðsins og stofnana ríkisins, fresta fjárfestingum og draga úr ríkisstuðningi þar sem þenslan er mest. Meðal verkefna sem verður frestað frekar er nýbygging stjórnarráðsins við Lækjargötu og samhæfingarmiðstöð viðbragðsaðila.
Þá er unnið er að útfærslu ríflega 18 milljarða króna tekjuráðstafana fyrir fjárlög næsta árs sem m.a. munu birtast í breyttu gjaldtökukerfi af ökutækjum og í aukinni gjaldtöku á ferðaþjónustu. Þá verður gjald á fiskeldisfyrirtæki hækkað á árinu 2025 auk þess sem gert er ráð fyrir að endurskoðun veiðigjalds muni skila viðbótartekjum upp á samtals 13 milljarða á tímabili áætlunarinnar. Enn fremur verður tekjuskattur lögaðila tímabundið hækkaður um 1% í eitt ár árið 2025 vegna tekna ársins 2024.“
Staðið vörð um grunnþjónustu
Í fréttinni segir jafnframt að afkomutryggingakerfin og velferðarþjónustan verði áfram undanþegin aðhaldi og engin aðhaldskrafa gerð á almannatryggingar, atvinnuleysistryggingar, sjúkratryggingar og heilbrigðis- og öldrunarstofnanir. Jafnframt verður aðhaldsmarkmið í rekstri framhalds- og háskóla lægra en almennt aðhald eða 0,5% og einnig felld niður aðhaldskrafa á fangelsismál og löggæslu á árunum 2024 og 2025.
Aukinn stuðningur við framboð á húsnæði
Ríkisstjórnin ætlar að auka framboð af húsnæði fyrir tekju- og eignaminni fjölskyldur og einstaklinga á næstu misserum. Framlög í hlutdeildarlán verða aukin og stofnframlög til uppbyggingar leiguíbúða innan almenna íbúðakerfisins verða tvöfölduð þannig að 1.000 íbúðir verði byggðar árlega næstu tvö árin með stuðningi ríkissjóðs í stað 500. Þá verða tæplega 800 íbúðir byggðar í ár sem er fjölgun um 250 frá fyrri áformum.