Bjarni

Áratugur síðan Sjálfstæðisflokkurinn settist aftur í ríkisstjórn

Í dag eru tíu ár síðan Sjálfstæðisflokkurinn undir forystu Bjarna Benediktssonar settist aftur í ríkisstjórn.

Áratugurinn einkennist af stórstígum framförum og árangri á flestum sviðum, hvort sem litið er langt aftur eða skammt. Bætt lífskjör, lægri álögur, fleiri tækifæri, betri þjónusta, einfaldara kerfi og fjölbreyttara hagkerfi eru grunnur enn frekari sóknar á komandi árum.

Lífskjörin hafa batnað svo um munar í landinu, ráðstöfunartekjur heimila hækkað að raunvirði um 36% og kaupmáttur launa hefur vaxið um 45%. Það munar um minna.

Skuldir heimila lækkaðar

Þegar Sjálfstæðisflokkurinn settist að nýju í ríkisstjórn 2013 var það yfirlýst markmið ríkisstjórnarinnar að lækka skuldir heimila sem höfðu vaxið umtalsvert í kjölfar efnahagshrunsins.

Tíu árum síðar eru skuldirnar umtalsvert lægri en 2013. Þannig voru skuldir heimila sem hlutfall af ráðstöfunartekjum ríflega 200% árið 2013 en komnar niður fyrir 150% á árinu 2023 og fóru lækkandi.

Höft losuð og eignarhlutir seldir

Árið 2015 kynnti þáverandi ríkisstjórn heildstæða áætlun um afnám gjaldeyrishafta, og vorið 2017 voru gjaldeyrishöft afnumin með góðum árangri undir forystu Bjarna Benediktssonar í stóli forsætisráðherra. Þrotabú gömlu bankanna voru gerð upp og niðurstaðan varð talsvert betri en bjartsýnustu spár gerðu ráð fyrir, enda skilaði uppgjörið umtalsverðum tekjum til samfélagsins með stöðugleikaframlögum sem metin voru 660 milljarðar.

Ríkið hefur selt 57,5% eignarhlut sinn í Íslandsbanka fyrir um 108 milljarða króna. Salan hefur ekki einungis styrkt stöðu ríkissjóðs heldur einnig aukið umtalsvert virði á 42,5% eignarhluta ríkisins í bankanum í dag.

Söluandvirðið hingað til stendur undir allri fjárfestingu í fjárlögum ársins 2023, þ.á.m. í nýjum Landspítala, hjúkrunarheimilum og samgöngukerfinu.

Uppgangsár í hagkerfinu í aðdraganda heimsfaraldurs voru nýtt til að búa í haginn og lækka skuldir, sem gerði ríkissjóði kleift að standa með fólki og fyrirtækjum af krafti þegar á reyndi.

Stóraukinn stuðningur við velferðarkerfið

Á síðasta áratug hefur orðið 75% raunaukning á framlögum til heilbrigðismála eftir að þau höfðu setið á hakanum í tíð vinstristjórnarinnar. Tvöföldun hefur orðið á framlögum til almannatrygginga. Áhersla hefur verið lögð á að bæta mest kjör þeirra sem minnstar tekjur hafa, m.a. með umtalsverðri lækkun tekjuskatts auk verulegra hækkana á bótum almannatrygginga og barnabótum.

Skattfrjáls ráðstöfun séreignarsparnaðar vegna fyrstu kaupa á húsnæði var innleidd í tíð og ráðstöfun inn á höfuðstól íbúðalána hafa nýst tugþúsundum fjölskyldna við að komast inn á húsnæðismarkað og auka eiginfjárhlutfall sitt í eigin fasteign.

Lægri álögur á fólk og fyrirtæki

Í tíu ára ríkisstjórnartíð Sjálfstæðisflokksins hafa almenn vörugjöld verið afnumin með öllu og tollar á öllum vörum utan landbúnaðarvara verið felldir niður. Með því tókst að ná í gegn baráttumáli sem margir sjálfstæðismenn höfðu látið sig dreyma um í áratugi, en ekki hafði tekist að framkvæma. Tekjuskattar á einstaklinga hafa verið lækkaðir. Efra þrep virðisaukaskatts var lækkað úr 25,5% í 24% og er nú lægst á öllum Norðurlöndunum.

Frítekjumark fjármagnstekjuskatts hefur verið þrefaldað í 300 þúsund krónur, tekjuskattur lækkað verulega – sérstaklega fyrir tekjulága, og tryggingagjald lækkað úr 7,69% árið 2013 í 6,35% árið 2023. Fjöldi skattahvata hefur verið innleiddur, meðal annars fyrir fólk og fyrirtæki til að styðja við almannaheillastarfsemi án milligöngu ríkisins – og til að auka græna fjárfestingu. Áfram mætti lengi telja.

Breytingarnar hafa allar miðað að því að létta byrðar launafólks, styrkja afkomu fyrirtækja, hvetja til fjárfestinga og byggja undir nýsköpun og þróun. Eftir sitja fleiri krónur í vösum skattgreiðenda og umsvif í atvinnulífinu eru meiri. Reikna má með að einstaklingur á meðallaunum greiði 63 þúsund krónum minna í tekjuskatt í ár en hann hefði gert m.v. sömu skattbyrði og árið 2013.

Einfaldara, gagnsærra og stafrænna kerfi

Stafræn þjónusta og samskipti ríkisins við almenning hefur tekið stökk fram á við. Áherslan er á aukna hagræðingu, bætta þjónustu og skilvirkni. Stafræn ökuskírteini, rafrænar þinglýsingar, fjöldi rafrænna umsókna og leyfisveitinga eru aðeins örfá dæmi af mörgum sem spara fólki útgjöld, tíma og spor.

Stafræn opinber þjónusta á Íslandi mælist nú með því besta sem gerist á heimsvísu og fleygir stöðugt fram.

Áratugur hagvaxtar og framfara

Síðasti áratugur hefur verið tímabil hagvaxtar og uppbyggingar í íslensku atvinnulífi, m.a. með stórsókn í íslenskri ferðaþjónstu og verulega aukinni áherslu á nýsköpun. Atvinnuleysi á síðasta áratug hefur verið með því lægsta sem gerist í heiminum og íbúum landsins fjölgar stöðugt.

Útflutningstekjur í hugverkaiðnaði hafa aukist um á annað hundrað milljarða samhliða áherslu flokksins á stuðning við rannsóknir og þróun. Öflug ný fyrirtæki og fjöldi verðmætra starfa hafa orðið til í grein sem nú er sannkölluð fjórða stoð hagkerfisins. Sjálfstæðisflokkurinn hefur leitt ljósleiðaravæðingu Íslands með öllum þeim sóknarfærum sem sú aðgerð skapar fyrir alla landsmenn.

Áhersla hefur verið lögð á orkuskipti í samgöngum og einföldun regluverks, ekki síst í ferðaþjónustunni. Aukið frelsi m.a. með heimild handverksbrugghúsa til sölu á bjór beint frá framleiðslustað og út úr húsi er eitt af mörgum „minni málum“, sem skipta þó lítil framsækin fyrirtæki um allt land miklu máli.

Áfram hefur verið lögð áhersla á sameiningu ríkisstofnana með tilheyrandi hagræðingu og skilvirkari þjónustu. Sjálfstæðisflokkurinn hefur innleitt stóraukið gagnsæi í fjármálum ríkisins, m.a. með nýjum lögum um opinber fjármál, sundurliðuðum rafrænum álagningarseðlum og opnum reikningum.

Síðasti áratugur undir forystu Sjálfstæðisflokksins hefur verið sannkallaður áratugur hagvaxtar og framfara á Íslandi.