Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:
Ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2022 er skýr vitnisburður um mikla óstjórn í fjármálum. Margar lykiltölur sýna að rekstrinum hefur verið stefnt í mikið óefni undir stjórn núverandi borgarstjóra og meirihluta undanfarinna kjörtímabila.
Rekstrarhalli borgarsjóðs nam 15,6 milljörðum króna á síðasta ári, sem er þrettán milljörðum verri niðurstaða en áætlanir gerðu ráð fyrir. Skuldasöfnunin er stjórnlaus þrátt fyrir stórauknar tekjur og hámarksskattheimtu.
Skuldir borgarsjóðs hækkuðu um þrjátíu milljarða króna á milli ára eða um 21% og námu 174 milljörðum um síðustu áramót.
Ákúrur eftirlitsnefndar
Nú er svo komið að Reykjavíkurborg stenst ekkert þriggja lágmarksviðmiða um A-hluta rekstrar, sem eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga, setur. Um er að ræða rekstrarniðurstöðu, veltufé frá rekstri og framlegð sem hlutfall af tekjum.
Skuldir samstæðu Reykjavíkurborgar (A- og B-hluta) jukust um 39 milljarða króna á milli ára og námu 446 milljörðum um síðustu áramót.
Það er dýrt að skulda. Fjármagnsgjöld A-hluta námu 5,7 milljörðum króna á síðasta ári og fjórfjölduðust á milli ára. Fjármagnsgjöld samstæðunnar námu 27,6 milljörðum og hækkuðu um 85% á milli ára.
27,6 milljarða fjármagnsgjöld
Fjármagnsgjöld samstæðu Reykjavíkurborgar námu 27,6 milljörðum króna á síðasta ári eins og áður sagði. Auðvitað er óskandi að svo háum fjárhæðum sé varið í eitthvað skynsamlegra en vaxtagjöld og verðbætur. Til dæmis í að eyða rekstrarhalla, draga úr skattheimtu og bæta þjónustu við borgarbúa.
Há fjármagnsgjöld eru oft kölluð blóðpeningar enda óæskileg í öllum rekstri. Þegar fjármagnsgjöldin eru skoðuð í samhengi við annan rekstur Reykjavíkurborgar á síðasta ári kemur skýrlega í ljós hversu þungt þau vógu.
Rekstur grunnskóla hefur löngum verið veigamesti þátturinn í rekstri Reykjavíkurborgar. Á síðasta ári varði borgin 29 milljörðum króna til rekstrar 34 almennra grunnskóla. Fjármagnsgjöld síðasta árs eru þannig nálægt því að samsvara rekstrarfé grunnskólanna það ár eins og meðfylgjandi tafla sýnir. Þá eru þau mun hærri en rekstrarfé allra leikskóla borgarinnar.
Fjármagnsgjöldin eru mun hærri en rekstur allra þjónustumiðstöðva velferðarsviðs borgarinnar. Þá eru þau næstum þrefalt hærri en allur rekstur íþrótta- og tómstundasviðs borgarinnar en undir það heyrir m.a. rekstur sundlauga, íþróttamannvirkja og styrkir til íþróttafélaga.
Fjármagnseigendur fagna
Stjórnmálamenn eru gjarnan dæmdir eftir því hversu viljugir þeir eru að veita fé til góðra mála – og slæmra. Gífurleg skuldasöfnun borgarinnar hefur gert það að verkum að fjármagnsgjöldin – málaflokkur fjármagnseigenda – eru orðin ein helsta stærðin í bókhaldi hennar.
446 milljarða skuld verður ekki til af sjálfu sér. Núverandi borgarstjóri hefur markvisst leitt höfuðborgina í þá alvarlegu stöðu að hún er orðin afar berskjölduð fyrir verðbólgu og vaxtahækkunum. Slíkt hefði ekki gerst ef aðhalds hefði verið gætt og lántökum haldið innan hóflegra marka.
Skuldir og fjármagnsgjöld þurfa skattgreiðendur að borga á endanum. Fjármagnseigendur hljóta hins vegar að vera ánægðir með þá áherslu sem meirihluti borgarstjórnar leggur á hagsmuni þeirra eins og málaflokkurinn ,,fjármagnsgjöld“ ber með sér.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 11. maí 2023