25.366 milljónir

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:

Orkuveita Reykjavíkur (OR) hefur á 24 ára tímabili lagt rúmar 25 þúsund milljónir króna í fjarskiptarekstur á samkeppnismarkaði (verðlag í marz 2023). Orkuveitan hefur því greitt rúman milljarð króna árlega með þessum rekstri í 24 ár, rekstri sem átti upphaflega að standa undir sér og vera sjálfbær. Færa má rök fyrir því að þessi tala sé í raun mun hærri þar sem OR fjármagnaði hluta þessara framlaga fyrir hrun með erlendum lánum, sem síðan stökkbreyttust.

Sjálfsagt er að skattgreiðendur í Reykjavík séu upplýstir um áðurnefnda upphæð og viti þannig í hvað peningarnir þeirra fara. Þeir greiða þetta allt saman með hærri orkugjöldum en ella. Borgarbúar hafa þannig verið skikkaðir til að standa straum af áhættusömum fjárfestingum í samkeppnisrekstri, sem óvíst er hvort muni nokkurn tímann skila sér.

Aldarfjórðungs fjárvöntun

Árið 1999 stofnaði þáverandi vinstri meirihluti í Reykjavík fjarskiptafyrirtækið Línu.Net að frumkvæði Samfylkingarinnar. Síðar var nafni fyrirtækisins breytt í Gagnaveitu Reykjavíkur og loks í Ljósleiðarann ehf.

Upphaflega var samþykkt að leggja þessu dótturfélagi OR til allt að 200 milljónir kr. í hlutafé, sem síðan átti að selja með góðum hagnaði. Enn hefur enginn hlutur verið seldur úr Ljósleiðaranum eða forverum hans. Framlög OR til fyrirtækisins hafa verið mörg og mikil en í hvert sinn hefur verið fullyrt að til frekari framlaga þurfi ekki að koma. Það hefur aldrei gengið eftir. Fjárvöntun Ljósleiðarans virðist vera viðvarandi.

Tugmilljarða fjárbinding Orkuveitunnar í fjarskiptastarfsemi hefur lengi verið ámælisverð vegna samkeppnissjónarmiða en ekki síður vegna þeirrar áhættu, sem hún hefur í för með sér fyrir skattgreiðendur, eigendur fjárins.

Tugmilljarða skuldir

Auk beinna framlaga hefur Ljósleiðarinn safnað miklum skuldum í skjóli Orkuveitunnar en um síðustu áramót námu þær um 20 milljörðum króna. Tap Ljósleiðarans nam 87 milljónum króna á árinu 2022.

Löngu er tímabært að Orkuveitan losi um hlut sinn í Ljósleiðaranum og reyni að ná til baka a.m.k. hluta af því mikla fé, sem runnið hefur til félagsins og forvera þess. Þá er auðvitað óvarlegt að binda tugmilljarða af fé borgarbúa til langframa í slíkri áhættustarfsemi á síbreytilegum fjarskiptamarkaði.

Að undanförnu hefur meirihluti Samfylkingar, Framsóknar, Pírata og Viðreisnar hins vegar aukið umsvif Ljósleiðara OR í þessum áhætturekstri með því að fara í útrás á landsbyggðinni. Á meðan Reykjavíkurborg glímir við mikla fjárhagserfiðleika og skorið er niður til grunnþjónustu, hefur dótturfyrirtæki hennar frítt spil til að fara í milljarða útrás í fjarskiptarekstri utan skilgreinds starfsvæðis OR.

Skuldsett útrás

Í þessu skyni keypti Ljósleiðarinn stofnnet Sýnar á þrjá milljarða króna um áramótin. Stofnnetið var við sölu bókfært á 564 milljónir og er söluhagnaður Sýnar vegna kaupanna því 2.436 milljónir króna. Umrædd kaup höfðu í för með sér nokkurra milljarða króna viðbótarskuldsetningu fyrir Reykjavíkurborg á háum vöxtum.

Á fundi borgarstjórnar 2. maí 2023 ætlar vinstri meirihlutinn að heimila Ljósleiðaranum að leita eftir nýju hlutafé inn í félagið til að styrkja stöðu þess á samkeppnismarkaði og greiða niður skuldir.

Jákvætt er að nýir eigendur séu þannig fengnir að fyrirtækinu en um leið þyrfti að búa svo um hnúta að OR leggi því ekki til frekara fé, hvorki í formi lánsfjár né hlutafjár. Það virðist þó ekki vera markmið meirihlutans og virðist jafnvel vera í undirbúningi að Orkuveitan verði skikkuð til að leggja Ljósleiðaranum til enn meira fé.

Góð söluvara

Best væri ef borgarstjórn markaði nú skýra stefnu um að selja allt hlutafé Ljósleiðarans og losa OR þannig úr áhættusömum fjarskiptarekstri. Nota ætti andvirðið til að lækka skuldir OR, sem nema nú rúmum 204 milljörðum króna. Skoða má mismunandi leiðir til að stuðla að því að OR fengi sem mest fyrir hlut sinn í slíku söluferli, t.d. að selja Ljósleiðarann í áföngum.

Ljósleiðarinn er öflugt fjarskiptafyrirtæki með gott starfsfólk enda var ekkert til sparað við uppbyggingu fyrirtækisins og forvera þess. Fjárfestar munu væntanlega sýna fyrirtækinu verðskuldaðan áhuga og vonandi seljast hlutabréfin vel. Ekki er þó búist við því að Orkuveitan fái til baka nema hluta þeirra fjármuna, sem lagðir hafa verið í fjarskiptaævintýrið.

Greinin birtist í Morgunblaðinu, 27. apríl 2023.