Fjármagnsgjöldin samsvara rekstrarfé grunnskólanna

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:

Þrátt fyrir gífurlegan skuldavanda ætlar borgarstjóri ekki að hvika frá þeirri stefnu að fjármagna rekstur borgarinnar með enn frekari lántökum.

Á síðasta ári námu fjármagnsgjöld samstæðu Reykjavíkurborgar rúmlega 26 milljörðum króna. Er það svipuð upphæð og kostaði að reka alla grunnskóla borgarinnar á því ári skv. útkomuspá. Það er dýrt að skulda.

Fjármálastjórn Samfylkingarinnar og samstarfsflokka hennar snýst um að þenja út rekstur borgarinnar og fjármagna hann með sívaxandi lántökum og vaxtagjöldum. Þessi stefna er skattgreiðendum í Reykjavík dýr.

Fjármál Reykjavíkurborgar voru rædd á fundi borgarstjórnar þriðjudaginn 18. apríl að frumkvæði borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Á fundinum ítrekaði ég spurningar mínar frá fyrri fundum um hvernig Reykjavíkurborg væri fjármögnuð um þessar mundir.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri gaf litlar upplýsingar um ástæður þess af hverju borgin felldi niður tvö síðustu skuldabréfaútboð, þ.e. 8. marz og 12. apríl. Seinna útboðið var fellt niður með afar skömmum fyrirvara.

Leynileg vaxtakjör

Eftir ítrekaðar fyrirspurnir um stöðu yfirdráttarlána (lánalína) borgarinnar, staðfesti borgarstjóri í lok fundar að sex milljarða króna lánalína í Landsbankanum væri fullnýtt. Og að sex milljarða króna lánalína í Íslandsbanka væri nýtt til hálfs eða um þrjá milljarða. Hann svaraði þó ekki þeirri spurningu hversu lengi svigrúmið myndi duga, sem enn er fyrir hendi á yfirdráttarláni Íslandsbanka og hvenær borgin yrði aftur að leita út á skuldabréfamarkaðinn eftir meira rekstrarfé.

Borgarstjóri vildi ekki upplýsa um vaxtakjör á umræddum lánalínum og sagði þau vera trúnaðarmál. Engin rök eru fyrir slíkri leyndarhyggju. Að sjálfsögðu á að upplýsa greiðendur þessara vaxta, þ.e. Reykvíkinga, um kjör vegna slíkrar lántöku, sem nálgast nú tíu milljarða króna.

Bréf eftirlitsnefndar

Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga sendi borgarstjórn bréf í lok febrúar. Þar kemur fram að borgin fullnægi ekki lágmarksviðmiðum fyrir A-hluta rekstrar hennar í fjárhagsáætlun 2023. Ekki er það góð einkunn fyrir nýsamþykkta fjárhagsáætlun meirihlutans.

Næstum tveir mánuðir eru nú liðnir frá því borgarstjóri fékk umrætt bréf í hendur. Allan þennan tíma hefur hann ekki séð ástæðu til að leggja bréfið sérstaklega fram til umræðu eða afgreiðslu í borgarráði og borgarstjórn Er slíkt með ólíkindum enda ljóst að efni bréfsins varðar mjög mikilvæga hagsmuni sveitarfélagsins. T.d. er álitamál hvort borginni beri ekki að senda tilkynningu til kauphallar um bréfið í ljósi viðamikillar skuldabréfaútgáfu hennar.

Til að bæta úr þessari vanrækslu borgarstjóra lagði ég bréfið formlega fram á fundi borgarstjórnar 18. apríl og óskaði eftir því að framlagning þess yrði bókuð í fundargerð.

Afneitun borgarstjóra

Á fundinum kom í ljós að borgarstjóri er enn í mikilli afneitun vegna erfiðra fjármála Reykjavíkurborgar og þá sérstaklega skuldavanda hennar. Ætlar hann ekki að hvika frá þeirri eindregnu stefnu sinni að fjármagna rekstur borgarinnar með enn frekari lántökum. Sem betur fer kveður við annan tón hjá Einari Þorsteinssyni, formanni borgarráðs. Hann virðist átta sig á hrikalegri stöðu borgarinnar og viðurkennir að við mikinn vanda sé að glíma.

Stjórnlaus skuldasöfnun

Áætlað er að borgarsjóður verði rekinn með rúmlega fimmtán milljarða króna halla á árinu.

Skuldir borgarsjóðs námu 176 milljörðum um síðustu áramót og höfðu þá hækkað um 22% á milli ára samkvæmt útkomuspá. Áætlað er að skuldirnar verði orðnar um 194 milljarðar króna í árslok 2023.

Heildarskuldir samstæðu borgarinnar námu 442 milljörðum króna um síðustu áramót og höfðu þá hækkað um 35 milljarða á milli ára samkvæmt útkomuspá. Áætlað er að skuldirnar hækki um 22 milljarða á árinu og verði orðnar 464 milljarðar um næstu áramót.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 20. apríl 2023.