Bölvun þverpólitískrar samstöðu

Óli Björn Kárason formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:

Einn merk­asti fjár­málaráðherra Bret­lands eft­ir stríð er fall­inn frá. Nig­el Law­son var áhrifa­mesti arki­tekt rót­tækra efna­hags­um­bóta Mar­grét­ar Thatcher á ní­unda ára­tug liðinn­ar ald­ar. Hann varð und­ir­ráðherra í fjár­málaráðuneyt­inu þegar Thatcher tók við sem for­sæt­is­ráðherra árið 1979, svo orku­málaráðherra 1981 en tók við sem fjár­málaráðherra árið 1983. Sem fjár­málaráðherra leiddi Law­son rót­tæk­ar breyt­ing­ar í efna­hags- og rík­is­fjár­mál­um – breyt­ing­ar sem Bret­land þurfti nauðsyn­lega á að halda eft­ir að hafa dreg­ist aft­ur úr öðrum þjóðum.

„Vin­sæll fjár­málaráðherra er ekki að sinna starfi sínu,“ sagði Law­son eitt sinn. Hann var sann­færður um að stjórn­mála­maður sem væri til­bú­inn til að mæta andúð and­stæðing­anna væri stjórn­mála­maður sem gæti látið hlut­ina ger­ast – komið ein­hverju til leiðar. En sá er vill breyt­ing­ar verður að búa sig und­ir átök. Law­son vildi breyta bresku efna­hags­lífi en brýndi fyr­ir skoðana­bræðrum sín­um að rót­tækni sé til­gangs­laus án stefnu og hug­sjóna. Mark­miðin verði að vera skýr. Það verði að und­ir­búa jarðveg­inn áður en ráðist er í að hrinda stefnu í fram­kvæmd.

Hver á að benda á gall­ana?

Þver­póli­tísk samstaða var eit­ur í bein­um Law­sons. Sam­stöðunni fylgi bölv­un. Í ræðu sem hann hélt í lá­v­arðadeild breska þings­ins árið 2012 sagðist Law­son hafa af langri reynslu í stjórn­mál­um lært að þegar all­ir þrír flokk­arn­ir á þingi (Íhalds­flokk­ur­inn, Verka­manna­flokk­ur­inn og Frjáls­lyndi flokk­ur­inn) væru sam­stiga þá væri stefn­an nær alltaf röng. Samstaða allra flokka komi í veg fyr­ir að stefn­an sé rædd al­menni­lega og hún rýnd. Og hver á þá benda á gall­ana – vill­urn­ar sem stjórn­mála­flokk­arn­ir hafa komið sé sam­an um? Í hvert skipti sem stjórn­mála­stétt­in krýp­ur niður við alt­ari sam­eig­in­legra hug­mynda og skoðana, er því nauðsyn­legt að fyll­ast djúp­stæðri tor­tryggni.

Law­son var sann­færður um að mörk­in milli stjórn­mála­flokka hefðu þurrk­ast hægt og bít­andi út frá síðari heims­styrj­öld­inni til loka átt­unda ára­tug­ar­ins. „Al­menn sann­indi“ hefðu tekið við. Praktísk rök fyr­ir kapí­tal­isma hefðu þagnað í nafni póli­tískr­ar sam­stöðu. Og þar með hefðu menn gleymt siðferðileg­um rök­um fyr­ir kapí­tal­isma – markaðsbú­skap frjálsra viðskipta. Fáir ve­fengdu op­in­ber­lega háskatta­stefnu sem Verka­manna­flokk­ur­inn inn­leiddi í Bretlandi með skelfi­leg­um af­leiðing­um fyr­ir efna­hag lands­ins. Árið 1976 hafði Bret­land neyðst til að leita á náðir Alþjóðagjald­eyr­is­sjóðsins um neyðarlán. Þetta breytt­ist þegar Thatcher var kjör­in leiðtogi Íhalds­flokks­ins 1975.

Sem fjár­málaráðherra hafði Law­son meiri trú á al­menn­ingi og frum­kvöðlum en rík­is­vald­inu. Sem for­sæt­is­ráðherra leiddi Thatcher um­fangs­mikla einka­væðingu, af­nam höft og ein­faldaði reglu­verkið. Law­son tryggði fram­gang rót­tækra breyt­inga á skatt­kerf­inu. Und­ir stjórn Verka­manna­flokks­ins var hæsta þrep tekju­skatts­ins allt að 83%. Den­is Hea­ly fjár­málaráðherra (1974-1979) lýsti því fjálg­lega yfir að hann ætlaði sér að skatt­leggja auðmenn svo ang­istaróp þeirra myndu heyr­ast.

Heima­vinn­an fyrst

Law­son var sann­færður um að snúa yrði af braut skatt­pín­ing­ar sem hefði leitt Bret­land í efna­hags­leg­ar ógöng­ur. En fyrst yrði Íhalds­flokk­ur­inn að vinna heima­vinn­una. Ekki væri hægt að lækka skatt­hlut­föll án þess að koma bönd­um á út­gjöld rík­is­ins. Aðhalds­leysi í rík­is­fjár­mál­um myndi óhjá­kvæmi­lega leiða aft­ur til þyngri skatt­heimtu. Sá sem ætli sér að koma á um­bót­um í skatt­kerf­inu verði fyrst að sann­færa al­menn­ing um að út­blásið rík­is­vald leiði til veik­ara hag­kerf­is og verri lífs­kjara. Efna­hags­leg­ar um­bæt­ur bygg­ist á því að búið sé að und­ir­búa póli­tísk­an jarðveg. Ára­tug­um síðar lærði Liz Truss þessa ein­földu en hörðu lex­íu þegar hún var gerð aft­ur­reka með áform um skatta­lækk­un. Truss var for­sæt­is­ráðherra í 50 daga.

Með aðhalds­samri stefnu í rík­is­fjár­mál­um hrinti Law­son um­bót­um á skatt­kerf­inu í fram­kvæmd. Hæsta skattþrep tekju­skatts var lækkað í 40%. Háskatta­stefn­unni var hent út í hafsauga. Tekju­hæstu ein­stak­ling­arn­ir á Bretlandi höfðu flúið land – gerst skatta­leg­ir út­lag­ar. Frum­kvöðlar forðuðust landið og tekju­hæsta 1% greiddi aðeins 11% af öll­um tekju­skatti á tím­um Verka­manna­flokks­ins. Eft­ir skatt­kerf­is­breyt­ing­ar sem Law­son hafði for­ystu um tvö­faldaðist hlut­deild­in. Efsta tekju­tí­und­in hafði á tím­um háskatta staðið und­ir um 35% af heild­ar­tekju­skatti. Eft­ir lækk­un skatt­hlut­falls fór hlut­deild efstu tekju­tí­und­ar­inn­ar upp í 48%.

Law­son renndi þannig styrk­um stoðum und­ir það sem John F. Kenn­e­dy, for­seti Banda­ríkj­anna, lýsti sem „þversagna­kennd­um sann­leika“ rík­is­fjár­mála: lægri skatt­hlut­föll geta leitt til hærri skatta­tekna. Skattaglaðir vinstri menn, hvort held­ur er hér á Íslandi, í Bretlandi eða í öðrum lönd­um, hafa fæst­ir skilið varnaðarorð sem John F. Kenn­e­dy, for­seti Banda­ríkj­anna, setti fram árið 1962:

„Efna­hags­kerfi sem er þrúgað af háum skött­um mun aldrei skila nægi­leg­um tekj­um til að jafn­vægi ná­ist í rík­is­fjár­mál­um, al­veg eins og það mun aldrei búa til nægi­leg­an hag­vöxt eða nægi­lega mörg störf.“

Fáir gerðu sér betri grein fyr­ir því en Law­son að póli­tík snýst um að leggja fram stefnu – hug­sjón­ir – og vinna rök­ræðuna. Allt annað er tekn­ó­krat­ismi. Okk­ur hægri mönn­um er hollt að hafa þessi ein­földu sann­indi í huga.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 12. apríl 2023.