Feluleikur með Fossvogsbrú

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:

Hér með er skorað á Betri samgöngur ohf. að upplýsa skattgreiðendur og stjórnmálamenn nú þegar um áætlaðan heildarkostnað vegna Fossvogsbrúar.

Ánægjulegt er að forystumenn ríkisstjórnarinnar boði langþráð aðhald hjá hinu opinbera. Endurskoða má margar opinberar framkvæmdir með arðsemi og notagildi að leiðarljósi.

Borgarlínuverkefnið er skýrt dæmi um þetta. Allt bendir til að verkefnið verði óarðbært og hafi neikvætt núvirði. Margar aðrar samgönguframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu eru arðbærar og miklu þarfari. Framkvæmdakostnaður við sex áfanga borgarlínu er nú áætlaður 69 milljarðar króna, sem telja má mikla bjartsýni miðað við umfang. Mikill rekstrarkostnaður kemur þarna til viðbótar. Nær væri að efla núverandi strætókerfi en að skapa nýtt með óvissum kostnaði og árangri.

Stjórnmálamenn valda – Skattgreiðendur gjalda

Sú aðferð er þekkt við opinber gæluverkefni með óvissan kostnað, að halda kostnaðaráætlunum sem lægstum þegar verið er að ,,selja“ verkefnið og lauma því yfir á herðar skattgreiðenda. Þegar framkvæmdir hefjast, snarhækka kostnaðartölur og verða raunhæfari. En þá er líka oft orðið of seint að hætta við.

Fossvogsbrú er fyrsta verkframkvæmd borgarlínu. Um er að ræða ca. 300 metra langa stálbrú, sem tengja á saman tvö jaðarsvæði: Kársnes og Nauthólsvík. Brúin hefur takmarkaðan almennan tilgang þar sem einungis er gert ráð fyrir umferð gangandi og hjólandi vegfarenda um hana, auk strætisvagna. Brúin mun beinlínis hafa neikvæð áhrif á siglingastarfsemi og sjósund, sem löng hefð er fyrir í Nauthólsvík.

Frá síðastliðnu sumri hefur undirritaður árangurslaust óskað eftir réttum upplýsingum um kostnað við Fossvogsbrú. Þá þegar hafði verið tilkynnt að framkvæmdir við brúna myndu hefjast fyrir árslok 2022. Taldi ég sjálfgefið að fyrir hendi væri ábyggileg kostnaðaráætlun vegna svo stórs mannvirkis, sem framkvæmdir væru að hefjast við. Um leið undraðist ég af hverju slík kostnaðaráætlun væri ekki orðin opinber, enda mikilvægt að kostnaður lægi fyrir áður en endanleg ákvörðun væri tekin.

Í september fékk ég þau svör hjá einum verkefnastjóra borgarlínu að kostnaðaráætlun Fossvogsbrúar væri endurskoðuð reglulega og uppfærð eftir hvert hönnunarstig. Engar upplýsingar fengust þó um kostnaðinn þrátt fyrir góð orð þar um.

Úreltar upplýsingar lagðar fram

Í október sl. lagði ég fram formlega fyrirspurn í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkur um kostnað og framkvæmdir við Fossvogsbrú. Reykjavíkurborg er næststærsti eigandi Betri samgangna ohf. og eiga borgarfulltrúar að fá allar slíkar upplýsingar frá fyrirtækinu án undanbragða.

Svar við fyrirspurninni var lagt fram á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 14. desember. Samkvæmt því er áætlaður kostnaður við framkvæmdina 2,25 milljarðar króna.

Sú kostnaðartala, sem fram kom í svarinu, byggðist á tveggja ára gömlu frummati frá árinu 2021, sem gert var áður en brúin fór í hönnunarsamkeppni! Öllum er ljóst að þessi tala er löngu úrelt og er með ólíkindum að hún sé lögð fram sem svar við fyrirspurn í opinberu ráði um stóra framkvæmd. En á meðan nýrri upplýsingar eru ekki lagðar fram formlega, ber að miða við þessa tölu þótt augljóst sé að hún standist ekki.

Ágiskun mín er sú að heildarkostnaður við Fossvogsbrú geti numið 5-7 milljörðum króna,

Biðin langa

Í allan vetur hef ég beðið eftir kostnaðaráætlun Fossvogsbrúar en á þeim tíma hefur mér margoft verið sagt að vinna við uppfærslu hennar sé á lokastigi. Á meðan ég beið árangurslaust eftir kostnaðaráætluninni, hófust framkvæmdir við brúna með færslu rafmagnsstrengja í Fossvogi, sem kostaði um 200 milljónir króna. Með ólíkindum er að framkvæmdir hefjist við svo stórt verk án þess að kjörnum fulltrúum sé sýnd rétt kostnaðaráætlun vegna þess.

Ámælisverð leyndarhyggja

Ítrekaðar óskir um kostnaðaráætlanir Fossvogsbrúar, bæði núgildandi sem og hinar fyrri, hafa verið hundsaðar. Í vikunni fékk ég það svar frá ríkisfyrirtækinu Betri samgöngum, sem verkefnið heyrir undir, að uppfærð áætlun sé í vinnslu og verði ekki afhent fyrr en samgöngusáttmálinn verði uppfærður í vor. Slík upplýsingatregða hjá ríkisfyrirtæki er ámælisverð.

Eitt helsta hlutverk kjörinna fulltrúa er að forgangsraða opinberum framkvæmdum út frá notagildi og arðsemi. Til að geta sinnt því starfi þurfa þeir að vera vel upplýstir um kostnað við slíkar framkvæmdir og breytingar á þeim.

Stjórnmálamenn bera endanlega ábyrgð á opinberum framkvæmdum og er því óskiljanlegt að uppfærðum kostnaðarupplýsingum um margra milljarða króna verkefni sé markvisst haldið frá þeim. Sú spurning vaknar hvort verið sé að tefja birtingu óþægilegra upplýsinga þar til of seint verður að hætta við það óarðbæra verkefni, sem Fossvogsbrú er?

Hér með er skorað á ríkisfyrirtækið Betri samgöngur að upplýsa skattgreiðendur og stjórnmálamenn nú þegar um áætlaðan heildarkostnað vegna Fossvogsbrúar.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 30. mars 2023.