Skipta gildi máli í alþjóðaviðskiptum?

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins og utanríkisráðherra:

Almennt er spurningin um hvort gildi eigi erindi í viðskiptum reyndar alls ekki ný af nálinni, og í gegnum tíðina hafa sjónarmið sveiflast til og frá.

Oft er fræg grein eftir Milton Fridman tilgreind sem vendipunktur í umræðu um hvort taka eigi tillit til siðferðislegra álitaefna í viðskiptum. Í greininni sem hann birti í New York Times árið 1970 hélt hann því fram—og færði fyrir því sannfærandi rök—að hið eina siðferðislega réttlætanlega markmið stjórnenda í fyrirtækjum væri að hámarka hagnað til hluthafa. Allt annað, hversu göfugt sem það kynni að hljóma á yfirborðinu, gæti falið í sér einhvers konar undanbrögð frá frumskyldu stjórnandans og væri þar að auki ólíklegt til þess að skila árangri.

Þessi hugsun varð mjög ríkjandi í heimi viðskipta og hagfræði á undanförnum áratugum.

Á sama tíma var önnur hugsun mjög ríkjandi í heimi alþjóðaviðskipta. Hún var sú að efnahagslegar framfarir myndu leiða samfélög í áttina að aukinni virðingu fyrir einstaklingsbundnum mannréttindum. Lengi var vísað til þess að aldrei hefðu tvö ríki þar sem hægt væri að kaupa McDonald’s hamborgara farið í stríð við hvort annað.

Á þýsku var þessi hugmyndafræði nefnd „Wandel durch Handel“ – breytingar knúnar af viðskiptum.

Á allra síðustu árum hefur pendúllinn í umræðum um bæði þessi atriði sveiflast.

Hvað varðar hugmyndina um skyldur fyrirtækja þá hafa ýmiss konar kröfur um siðferðislega hegðun farið vaxandi. Þær kröfur eru að einhverju leyti frá opinberum aðilum en einkum drifnar af almenningsáliti og þrýstihópum. Þar er sú krafa í raun gerð að fyrirtæki þurfi að taka skref í áttina frá því að líta fyrst og fremst á að hámarka hagnað fyrir hluthafa en taka í auknum mæli tillit til annarra þátta. Ég er ekki sérlega hrifin af þeirri hugmyndafræði að rekstur fyrirtækja á frjálsum markaði þurfi lúta því að hneykslunaröldur pólitísks rétttrúnaðar geti kaffært fyrirtækin og tekið yfir vilja markaðarins. Þó er sanngjarnt og eðlilegt að neytendur geti tekið upplýsta ákvörðun um hvar þeir kjósa að eiga viðskipti. Sá sem vill frekar borga hærra verð fyrir vöru sem uppfyllir einhver siðferðisviðmið má gjarnan kjósa með sínu veski og beita kaupmætti sínum þannig til góðs.

Krafan á fyrirtæki frá hinu opinbera á þó á mínum dómi ekki að ganga mikið lengra en að þau fari að lögum, og þau lög eiga ekki að þrengja gildismati meirihlutans upp á alla aðra.

Þegar kemur að hinni hugmyndinni, þeirri sem snýr að viðskiptum í ríkjum og á landsvæðum þar sem ríkir slæmt stjórnarfar, getur hið opinbera haft annars konar hlutverk.

Í nokkra áratugi var það álitin skynsamleg og siðferðislega réttlætanleg stefna að opinberir aðilar hjálpuðu einkaaðilum að komast í ýmiss konar viðskipti, jafnvel í löndum þar sem stjórnarfar var vafasamt og réttindi fólks fótum troðin. Hin siðferðislega réttlæting fyrir slíku var á þá leið að þótt samkrullið við vond stjórnvöld skildi eftir sig óbragð í munni þá myndi efnahagsleg uppbygging smám saman leiða til framfara fyrir almenning, bæði með tilliti til efnahagslegra lífsgæða og mannréttinda.

Nú, þegar heimurinn hefur horft upp á hvernig gerræðisríki á borð við Rússland haga sér þegar á reynir, hefur það reynst tilefni til þess að velta fyrir sér hvort endurskoða þurfi afstöðu stjórnvalda til viðskipta í slíkum löndum.

Stefnan sem gerði ráð fyrir breytingu knúinni af viðskiptum virðist ekki endilega hafa verið reist á nægilega traustum grunni. Að minnsta kosti er umhugsunarvert í tilviki Rússland hvort fjárhagslegir hagsmunir í Evrópu hafi í raun aukið umburðarlyndi gagnvart gerræðisstjórninni í Moskvu; semsagt að stefnan hafi í raun haft þveröfug áhrif á við það sem ætlast var til.

Enn og aftur tel ég rétt að árétta að mér finnst ekki koma til álita að stjórnvöld skipti sér sérstaklega af því hvar einkaaðilar kjósa að eiga viðskipti, svo lengi sem farið er að lögum.

Með öðrum orðum — fyrirtæki sem kjósa að eiga viðskipti í löndum þar sem mannréttindi, lýðræði og réttarríki eru ekki virt — eru fullkomlega frjáls að gera það innan ramma laganna, en ættu ekki að ganga út frá því sem vísu að stjórnvöld komi þeim til aðstoðar ef vandræði hljótast af slíkum ákvörðunum. Þetta held ég að gildi alls ekki bara um Ísland, heldur stjórnvöld víða, sem sjá nú skýrar en áður að ekki er gott að flækjast um of í hagsmunanet með gerræðislegum stjórnvöldum.

Í mínum huga ætti ekki ekki að þurfa eitthvert sérstakt valdboð til þess að hvetja fyrirtæki til þess að velja frekar að starfa á mörkuðum þar sem þessi gildi eru við lýði; þetta eru gildin sem gera frjálst markaðshagkerfi og heilbrigða samkeppni mögulega. Þetta eru gildin sem tryggja eignarréttinn, réttláta meðferð fyrir dómstólum og frelsi til þess að skapa nýja hluti og skora á hólm ríkjandi viðhorf og leggja út í samkeppni, jafnvel gegn þeim sem eru stórir og valdamiklir.

Ríki sem ekki virða þessi réttindi eru líkleg til þess að fela í sér aukna áhættu fyrir þau sem velja að eiga viðskipti þar. Þar kemur meðal annars til hætta á eignarnámi, að samningar haldi ekki eða að aðilar sæti refsiaðgerðum. Þetta þarf allt að hafa í huga þegar teknar eru ákvarðanir um hvar viðskipti eru stunduð.

Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 25. mars 2023.