Af hverju alþjóðlegir sérfræðingar?

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:

Heim­ur­inn er í kapp­hlaupi um fólk, kapp­hlaupi um sér­hæfða kunn­áttu fólks sem þörf er á svo vaxta­tæki­færi at­vinnu­lífs­ins verði að veru­leika. Sam­keppn­in er hörð og að mörgu leyti hef­ur Ísland staðið vel. Fólk vill koma hingað en erfitt hef­ur reynst að fá leyfi til að starfa til skemmri eða lengri tíma þar sem kerfið hef­ur verið of tor­velt.

Á Iðnþingi í gær lýstu stjórn­end­ur í fyr­ir­tækj­un­um Control­ant og Sensa þeim áskor­un­um sem fylgja því þegar skort­ur er á sér­hæfðu starfs­fólki. Fyr­ir­tæk­in geta ekki stækkað og bæði eru þau þess vegna með verk­efni á bið. Verk­efni sem myndu skipta máli fyr­ir okk­ur öll og munu skapa aukn­ar tekj­ur þjóðarbús­ins sam­hliða aukn­um vexti. Control­ant hef­ur stækkað hratt, hátt í 500 manns starfa hjá fyr­ir­tæk­inu sem velti tæp­um 19 millj­örðum á síðasta ári. Þau þurfa að reiða sig á alþjóðlega sér­fræðinga til þess og vegna flækj­u­stiga í kerf­inu hafa þau haft sér­hæfða starfs­menn sem sinna því einu að fá þá hingað til lands. Minni fyr­ir­tæki eiga ekki kost á því.

Það er því fagnaðarefni að við séum nú að stíga stór skref í rót­tæk­um breyt­ing­um á flóknu og þungu kerfi. Rík­is­stjórn­in hef­ur kynnt mik­il­væg­ar breyt­ing­ar­til­lög­ur á at­vinnu­rétt­ind­um út­lend­inga utan EES-svæðis­ins með það að leiðarljósi að nýtt kerfi verði skil­virk­ara, gagn­særra, hraðara og þjón­ustumiðaðra en um­fram allt sam­keppn­is­hæf­ara. Alþjóðleg­ir sér­fræðing­ar munu fá dval­ar­leyfi í fjög­ur ár í stað tveggja, kerfið verður ein­faldað til muna, mak­ar fá at­vinnu­leyfi, sjálf­stæðir at­vinnu­rek­end­ur geta komið með fyr­ir­tæki sín og starfað hér á landi, há­skóla­nem­end­ur fá dval­ar­leyfi í þrjú ár að námi loknu og svo mætti áfram telja. Til­lög­urn­ar eru fjöl­marg­ar sem nú er unnið að því að fram­kvæma.

Þess­ar breyt­ing­ar munu hafa já­kvæð og góð áhrif á ís­lenskt sam­fé­lag, hvort sem er í efna­hags­legu eða fé­lags­legu til­liti. Til að kom­ast út úr sveiflu­kenndu hag­kerfi þurf­um við að nýta vaxt­ar­tæki­fær­in í ís­lensku at­vinnu­lífi og þetta er stór liður í því. Fyr­ir­tæk­in vant­ar fólk í sér­hæfð störf og þau ná ekki að stækka ef þau fá ekki fólk í þessi störf. Skort­ur á mannauði má ekki hamla vaxt­ar­tæki­fær­um Íslands.

Ég mun vinna hörðum hönd­um að því að draga úr því að þekk­ing flæði frá Íslandi. Í því eru fólg­in ómet­an­leg verðmæti fyr­ir Ísland. Ég hef lagt á það mikla áherslu að við gríp­um vaxt­ar­tæki­færi Íslands og auðveld­um alþjóðleg­um sér­fræðing­um og nem­end­um að koma hingað til lands svo ís­lenskt at­vinnu­líf og sam­fé­lag fái notið sér­fræðiþekk­ing­ar þeirra og þeir miðli áfram sinni reynslu og þekk­ingu. Það hef­ur lengi verið til umræðu og loks­ins sjá­um við raun­veru­leg­ar breyt­ing­ar sem munu gera það að verk­um að við náum meiri ár­angri fyr­ir Ísland.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 10. mars 2023.