Hefnd borgarstjóra

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:

 

Laumuspilið vekur grunsemdir um að eitthvað annað búi að baki málinu en hagræðing eða faglegur ávinningur.

Tillaga borgarstjóra um að leggja niður Borgarskjalasafn var samþykkt í borgarstjórn 7. marz 2023. Ástæða er til að gagnrýna harðlega óviðunandi vinnubrögð borgarstjórnarmeirihlutans í málinu.

Borgarskjalasafn gegnir mikilvægu hlutverki við vistun og vörslu gagna hjá Reykjavíkurborg og er næststærsta skjalasafn landsins. Það kann að hljóma vel í eyrum einhverra, sem þekkja ekki til, að hægt sé að ákveða á nokkrum dögum að leggja slíkt safn niður og finna síðan út úr því hvað verði um starfsemina.
Laumuspil og leyndarhyggja
Augljóst er að við slíkar breytingar á stjórnsýslu borgarinnar verður að krefjast vandaðra vinnubragða og gagnsæis. Svo hefur ekki verið í þessu máli. Tillaga borgarstjóra kom fyrirvaralaust og án samráðs við yfirmenn og starfsfólk safnsins eða borgarstjórn. Borgarstjóri krafðist trúnaðar um tillöguna og ætlaði þannig að fá hana samþykkta. Ótrúlegt er að árið 2023 skuli slík leyndarhyggja vera viðhöfð varðandi breytingar, hvað þá niðurlagningu opinberrar stofnunar. Slíkar tillögur eiga auðvitað að þola kynningu og lýðræðislega umræðu áður en þær eru teknar til afgreiðslu. Laumuspil borgarstjóra vekur óneitanlega grunsemdir um að eitthvað annað búi að baki málinu en hagræðing eða faglegur ávinningur.
Trúnaði var loks aflétt eftir að undirritaður hafði gagnrýnt leyndina harðlega á fundi borgarstjórnar. Þrátt fyrir að leynd væri aflétt af tillögunni hunsaði meirihlutinn tilmæli um að unnið yrði að málinu í anda viðurkenndrar breytingarstjórnunar en kaus að keyra það í gegnum borgarstjórn á skemmsta mögulega tíma.

Tillaga borgarstjóra er vanreifuð, án tímalínu og ekki liggja fyrir upplýsingar frá ríkisvaldinu um getu eða vilja Þjóðskjalasafns til að taka við verkefnum Borgarskjalasafns. Bregður nú nýrra við þegar borgarstjóri, sem stöðugt kvartar undan samskiptum við ríkisvaldið og sakar það um að standa ekki við gerða samninga, skuli nú berjast fyrir því með oddi og egg að fela þessu sama ríki varðveislu næststærsta skjalasafns landsins.
Trufluð talnaleikfimi
Gögn borgarstjóra í málinu eru óviðunandi og talnameðferð stórlega ábótavant. Í tveimur sviðsmyndum af þremur er t.d. sú forsenda gefin að Borgarskjalasafn þurfi nýbyggingu, sem mun skv. frummati kosta fimm milljarða króna, svipaða byggingu og stórhýsi Alþingis, sem nú rís andspænis ráðhúsinu. Öllum er ljóst að slíkt stórhýsi verður ekki reist fyrir safnið enda getur það vel starfað áfram í núverandi húsnæði eða svipuðu. Einnig er gert ráð fyrir því að starfsmannafjöldi safnsins tvöfaldist þrátt fyrir að ekki sé þörf á því. En með því að reikna slíkar falskar forsendur inn í dæmið er leitast við að búa til eða stórýkja þann sparnað, sem leiðir af lokun safnsins.

Aldrei hefur verið meiri ástæða til sparnaðar og hagræðingar hjá borginni en nú. Sú vinna verður hins vegar að hvíla á raunverulegum tölum en ekki talnaleikfimi og óskhyggju, hvað þá hefndarhyggju. Óraunhæf óskhyggja Samfylkingarinnar og annarra vinstri flokka er sennilega ein helsta ástæða þess að Reykjavíkurborg er í eins miklum fjárhagsvandræðum og raun ber vitni.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa lagt fram ótal tillögur um hagræðingu í borgarkerfinu undanfarin ár. Hefur slíkum tillögum nær alltaf verið fálega tekið af borgarstjóra Samfylkingarinnar. Oft er sparnaðartillögum frestað undir því yfirskini að taka þurfi þær til vandlegrar skoðunar en síðan fréttist ekki meira af þeim.
Gagnrýni Borgarskjalasafns

Í ljósi mikillar andstöðu borgarstjóra við hagræðingu mörg undanfarin ár, vekur furðu að nú leggi hann ofuráherslu á að leggja Borgarskjalasafn niður.

Í þessu sambandi verður ekki hjá því komist að rifja upp samskipti Borgarskjalasafns við yfirstjórn borgarinnar á síðustu árum og faglega gagnrýni þess á hvernig þar er staðið að skjalamálum. Hæst bar þessa gagnrýni í braggamálinu svonefnda þar sem afar illa var staðið að skjalavistun. Svo virðist jafnvel sem óþægileg gögn hafi horfið með óútskýrðum hætti. Auðvitað kom sú gagnrýni sér illa gagnvart borgarstjóra og afhjúpaði arfaslaka verkstjórn hans í fjármálum og eftirliti með framkvæmdum. Er ljóst að hann kunni Borgarskjalasafninu litlar þakkir fyrir. Máttu yfirmenn þess þola aðfinnslur og áhrínisorð úr ráðhúsinu fyrir að sinna eftirlitsskyldu sinni.

Afar óvönduð vinnubrögð og offors borgarstjóra í þessu máli vekur þá spurningu hvort stund hefndarinnar sé nú runnin upp gagnvart Borgarskjalasafni.

Greinin birtist í Morgunblaðinu, 9. mars 2023.