Verðbólgan er viðbótarskattur

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Borgarstjórn Reykjavíkur:

Lækkum verðbólgu með auknu framboði lóða á hagstæðu verði og alvöru aðhaldi í opinberum rekstri.

Verðbólgan mælist nú 10,2% á ársgrundvelli og hefur ekki verið hærri í fjórtán ár. Er það óralangt frá 2,5% verðbólgumarkmiði stjórnvalda.
Verðbólga felur í sér að verðgildi peninga minnkar, sem og kaupmáttur almennings. Fáum við þannig 1,4% minna fyrir launin okkar nú um mánaðamótin en fyrir mánuði.
Verðbólga rýrir kjör almennings og er í raun viðbótarskattur sem leggst á alla. Um leið eykur slíkur skattur völd hins opinbera, sem fer með seðlaprentunarvaldið. Slíkur skattur bitnar hvað harðast á láglaunafólki og skuldugum íbúðarkaupendum. Haldist verðbólgan áfram há gæti hún étið upp vænta kaupmáttaraukningu launafólks.

Hvað er til ráða?

Verðbólga er ekki einfalt fyrirbæri og margt hefur áhrif á hana. Mikil þensla í hagkerfinu, hátt húsnæðisverð og margra ára opinber eyðsla umfram efni eru stórir orsakavaldar. Ólíklegt er að verðbólgudraugurinn verði kveðinn hratt niður. Þess vegna er mikilvægt að bregðast við sem fyrst.
Augljóst er að draga þarf úr neyslu og auka aðhald. Á það ekki síst við um hið opinbera, ríki og sveitarfélög, sem eru mörg rekin með halla og hafa safnað gífurlegum skuldum undanfarin ár. Þrátt fyrir þá stöðu eru ekki enn merki um að hið opinbera sé að rifa seglin, hvorki í fjárfestingu né rekstri.

Alvarleg staða Reykjavíkurborgar

Fjárhagsstaða Reykjavíkurborgar er mjög alvarleg og stefnir í að skuldir hennar verði 464 milljarðar í árslok. Sömu stjórnmálamenn og hafa siglt rekstri borgarinnar í strand, verja nú orku sinni í nýjar útgjaldahugmyndir. Ber þar hæst hina svokölluðu borgarlínu, gífurlega dýrt og óarðbært verkefni.
Verðbólgan hefur svo margar neikvæðar afleiðingar að takast verður á við hana af fullri hörku. Sú glíma getur vissulega verið erfið fyrir stjórnmálamenn, sem eru í harðri keppni um að ausa almannafé á báða bóga. Fé, sem oft er ekki til, heldur tekið að láni hjá framtíðinni.

Aðhald er óhjákvæmilegt

Besta og fljótlegasta ráðið í baráttunni við verðbólguna væri ef hið opinbera, ríki og sveitarfélög, rifuðu seglin og kæmu rekstri sínum í jafnvægi, rétt eins og heimili og fyrirtæki þurfa að gera í sínum rekstri. Eyðsluglaðir stjórnmálamenn þyrftu að vísu að hætta við eða fresta allra dýrustu gæluverkefnum sínum. En með því að draga úr miklum lántökum hins opinbera myndi fljótlega skapast svigrúm fyrir lækkun vaxta og hjöðnun verðbólgu.
Gott og fljótlegt væri einnig að lækka virðisaukaskatt og ná þannig fram lækkun á vöruverði, sem myndi einnig lækka verðbólgu.

Leysum lóðavandann

Viðvarandi framboðsskortur á fasteignum í Reykjavík hefur verið einn helsti drifkraftur verðbólgunnar á undanförnum árum. Húsnæðisliðurinn hefur mikil áhrif á verðbólgu enda með mikið vægi í neysluverðsvísitölunni.
Gífurlegar hækkanir á húsnæðisverði má ekki síst rekja til húsnæðisstefnu Samfylkingarinnar og samstarfsflokka hennar í borgarstjórn. Sú stefna felst í því að takmarka framboð lóða í borginni í því skyni að hækka húsnæðisverð og halda því háu. Komið hefur fram að vinstri meirihlutinn vill nú viðhalda lóðaskorti í borginni til að sem hæst verð fáist fyrir byggingarlóðir í Keldnalandi.

Lækkum verðbólguna

Þarna er því fyrst og fremst um framboðsvanda að ræða, sem auðvelt væri að leysa því nóg er af landi undir lóðir í borginni. Núverandi borgarstjórnarmeirihluta vantar hins vegar viljann til þess.
Það er því forgangsmál að breyta húsnæðisstefnu Reykjavíkurborgar. Í stað úreltrar vinstri stefnu sem byggist á skorti, okurverði á lóðum og uppsprengdu íbúðaverði, á borgin að kappkosta að fullnægja spurn eftir lóðum á hagstæðu verði fyrir alla. Slíkar úrbætur munu til langs tíma stuðla að lækkun verðbólgu og heilbrigðara efnahagsumhverfi. Síðast en ekki síst munu þær gera fjölda fólks kleift að kaupa eða leigja íbúð á mun lægra verði en nú tíðkast.

Greinin birtist í Morgunblaðinu, 2. mars 2023.