Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins og utanríkisráðherra:
Á föstudaginn var eitt ár liðið frá því Rússland hóf allsherjarinnrás í Úkraínu. Innrásin átti sér enga réttlætingu. Hún er hryllilegt brot á alþjóðalögum. Tugum þúsunda Úkraínumanna hefur verið misþyrmt og verið fluttir nauðungarflutningum frá heimilum sínum. Milljónir hafa lagt á flótta. Hryllingssögur um brottnám barna frá heimilum sínum eru meðal skelfilegustu fregna sem heyrast, og enn veit enginn um umfang þeirra níðingsverka.
Eitt er þó víst; stríðsglæpir Rússlands blasa við – og þeir eru hryllilegir. Á vettvangi Evrópuráðsins, þar sem Ísland situr nú í forsæti ráðherranefndarinnar, var í gær samþykkt að taka fyrstu skrefin að hlutverki ráðsins í því stóra gangverki réttlætis sem setja þarf á fót til þess að tryggja megi að Rússland sæti ábyrgð gjörða sinna.
Mikilvægur leiðtogafundur
Í maí verður haldinn fjórði leiðtogafundurinn í sögu þessarar merkilegu stofnunar. Þar koma leiðtogar ríkjanna saman í nafni þessara gilda og í nafni samstöðu með Úkraínu.
Leiðtogafundurinn verður stórt verkefni en er dýrmætt tækifæri fyrir okkur Íslendinga til að leggja okkar lóð á vogarskálarnar í þágu þeirra mikilvægu gilda sem hafa reynst svo heilladrjúg fyrir öll þau sem fengið hafa að njóta þeirra. Það verkefni nálgumst við af skyldurækni og auðmýkt.
Ofan í þá djúpu sorg sem við finnum mörg fyrir vegna þeirra atburða sem orðið hafa í Úkraínu blandast vitaskuld sú mikla virðing og vonarglæta sem hetjuleg framganga Úkraínumanna hefur veitt frá fyrstu dögum stríðsins. Óli Björn Kárason fjallaði í þingræðu um stríðið í Úkraínu síðastliðinn fimmtudag, um þrautseigju og hugrekki bæði hermanna og óbreyttra borgara í Úkraínu og minnti á áskorun Zelenskís Úkraínuforseta um að Evrópa sýni hvað í henni býr og fyrir hvaða gildi hún stendur.
Ber að styðja Úkraínu
Óli Björn sagði að innrás Rússa í Úkraínu hefði minnt þjóðir heims á að hernám einnar þjóðar rýri frelsi annarra. „Við Íslendingar, líkt og aðrar þjóðir, höfum verið minntir rækilega á hve sameiginlegt öflugt varnarsamstarf NATO-ríkja og annarra frjásra þjoða er mikilvægt. Værukærð, sakleysi eða rómantískar hugmyndir um vopnleysi og friðelskandi heim eru tálsýn, sem í gegnum söguna hefur kostað þjóðir sjálfstæði og milljónir manna lífið. Það er skylda frjálsra þjóða að hlýða kalli Zelenskís og úkraínsku þjóðarinnar og styðja við bakið á fólki sem hefur sýnt hugdirfsku gagnvart yfirgangi og hrottaskap. Okkur ber með öllum ráðum að styðja frjálsa Úkraínu,“ sagði hann og get ég tekið undir hvert orð.
Stríðið í Úkraínu kemur okkur beint við. Það snertir okkar helstu kjarnahagsmuni. Við Íslendingar eigum sjálfstæði okkar, fullveldið og efnahagslega tilveru undir því að alþjóðalög séu virt. Að landamæri og lögsaga ríkja séu ekki háð hnefarétti þar sem hinir stóru traðka yfir þá smærri. En það sem á endanum tryggir þessa heimsmynd er því miður ekki fagurgalinn einn, heldur þarf að vera til staðar kerfi sem haldið getur í skefjum þeim sem ekki leika eftir reglum friðseminnar. Við þurfum líka að gæta að öryggi okkar og leggja það af mörkum sem við getum.
Þessa daga minnumst við þess að það er mikilvægt að við stöndum með Úkraínu – og við stöndum með mannréttindum, lýðræðinu og réttarríkinu. Ekkert annað en sigur Úkraínu kemur til greina.
Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðins 26. febrúar 2023.