Fyrsti þingmaðurinn úr hópi kvenna

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur:

Ingibjörg er meðal merkustu Íslendinga síðustu aldar. Hún var brautryðjandi í stjórnmálum, menntamálum, heilbrigðismálum, íþróttamálum og kvenréttindum

Við þingsetningu árið 1923, fyrir réttri öld, tók kona fyrst sæti á Alþingi. Brautryðjandinn var Ingibjörg H. Bjarnason, skólastjóri Kvennaskólans, kjörin af landslista kvenna. Markmiðið var að koma konu á þing og það tókst.

Vel er við hæfi að minnast Ingibjargar á þessum tímamótum enda er hún í hópi merkustu Íslendinga síðustu aldar. Hún var brautryðjandi á mörgum sviðum: í menntamálum, heilbrigðismálum, íþróttamálum, menningarmálum og kvenréttindum.

Ingibjörg fæddist á Þingeyri við Dýrafjörð 14. desember 1868. Hún lauk námi frá Kvennaskólanum árið 1882 og stundaði framhaldsnám í Danmörku, Þýskalandi og Sviss á sviði uppeldis- og kennslumála.

Brautryðjandi í leikfimikennslu

Ingibjörg lauk leikfimikennaraprófi árið 1892, fyrst Íslendinga. Heimkomin lagði hún áherslu á mikilvægi góðrar leikfimikennslu, bæði við Barnaskólann og Kvennaskólann í Reykjavík. Var það henni mikið metnaðarmál að leikfimihús yrði reist við Kvennaskólann, sem hefur ekki enn orðið að veruleika.

Væri ánægjulegt ef ríki og borg tækju höndum saman um að hrinda þessu baráttumáli Ingibjargar í framkvæmd með því að reisa íþróttahús, sem bæri nafn hennar. Auk Kvennaskólans, gæti húsið þjónað Menntaskólanum í Reykjavík en samtals eru um 1.300 nemendur í skólunum tveimur.

Skólastjóri Kvennaskólans

Ingibjörg varð skólastjóri Kvennaskólans 1906 og gegndi starfinu til æviloka eða í 35 ár.

Kvennaskólinn þótti vera til fyrirmyndar í starfsháttum undir stjórn Ingibjargar. Áhersla var lögð á reglusemi og nákvæmrar hlýðni krafist en Ingibjörg gekk sjálf á undan með góðu fordæmi.

Félagsstarf reykvískra kvenna

Ingibjörg var virk í félagslífi Reykjavíkur og drifkraftur í samtökum kvenna. Hún starfaði mikið með Thorvaldsenfélaginu og var m.a. í stjórn barnauppeldissjóðs þess. Hún starfaði einnig í Hinu íslenska kvenfélagi og var meðal stofnenda Lestrarfélags kvenna og Heimilisiðnaðarfélagsins.

Barátta fyrir Landspítala

Árið 1915 samþykkti Alþingi að konur skyldu öðlast stjórnmálaleg réttindi til jafns við karla. Til að fagna réttarbótinni efndu konur til hátíðar og ávarpaði Ingibjörg þingheim fyrir hönd kvenna. Vottaði hún þakklæti og tilkynnti jafnframt að réttarbótarinnar yrði minnst með fjársöfnun til byggingar Landspítala. Þörfin var brýn og skortur á sjúkrarými brann mjög á konum.

Sjálfgefið var að Ingibjörg yrði formaður Landspítalasjóðs og vann hún þrotlaust að fjársöfnun fyrir hann. Þegar upp var staðið stóðu framlög úr sjóðnum straum af fjórðungi kostnaðar vegna stofnkostnaðar spítalans. Má telja óhugsandi að slík sjálfboðasamtök næðu nú að safna svo miklu fé til opinberrar byggingar með frjálsum framlögum.

Einingartákn íslenskra kvenna

Vegna starfa Ingibjargar og forystu hennar í Landspítalamálinu og fleiri þjóðþrifamálum, skipaði hún efsta sæti landslista kvenna árið 1922.

Það gustaði um Ingibjörgu á Alþingi eins og við var að búast. Það var ekki þægilegt að vera ein kvenna á þingi og mátti hún þola athugasemdir og áhrínsorð vegna kynferðis síns. Árið 1930 skrifaði hún eftirfarandi: ,,Fyrstu konurnar, brautryðjendurnir, verða auðvitað fyrir ýmsu hnjaski aðeins vegna þess að þær eru konur – en slíkt má ekki setja fyrir sig. Þegar konunum fjölgar á Alþingi Íslendinga hverfur það að ráðist sé á þær sérstaklega af því að þær eru konur.“

Réttur stúlkna til bóknáms

Ingibjörg beitti sér fyrir fjölmörgum málum á Alþingi. Auk byggingar Landspítalans má nefna bætt húsakynni og afnám óhollra íbúða. Hún barðist gegn óréttlæti í löggjöf, sem bitnaði á konum og beitti sér fyrir réttarbótum vegna launamála og hjúskapar þeirra. Hún mætti skilningsleysi og jafnvel harðri andstöðu margra þingmanna fyrir því að stúlkur öðluðust sama rétt og piltar til að ganga í menntaskóla, en hafði sigur að lokum.

Nokkru eftir að Ingibjörg varð þingmaður gekk hún til samstarfs við Íhaldsflokkinn, síðar Sjálfstæðisflokkinn. Gekk henni betur að vinna baráttumálum sínum framgang þar en sem þingmaður utan flokka.

Ingibjörg lést 30. október 1941. Á Alþingi minntist forseti sameinaðs þings, Haraldur Guðmundsson, Ingibjargar m.a. með þessum orðum: ,,Hún mun jafnan verða talin í fremstu röð þeirra kvenna er tóku að sinna almennum þjóðmálum með fullum réttindum eftir stjórnarskrárbreytinguna 1915 þá er konum var veittur kosningaréttur.“

Vel heppnuð höggmynd

Árið 2011 flutti ég tillögu í borgarstjórn um að gert yrði minnismerki um Ingibjörgu H. Bjarnason en 70 ár voru þá liðinn frá andláti hennar. Tillagan var samþykkt en ekkert var aðhafst vegna áhugaleysis þáverandi borgarstjórnarmeirihluta. Nokkrum árum síðar var þó ráðist í gerð glæsilegrar höggmyndar af Ingibjörgu að frumkvæði Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur, fyrrverandi forseta Alþingis og framkvæmdastjóra 100 ára afmælisnefndar kosningaréttar kvenna. Styttunni, sem gerð var af Ragnhildi Stefánsdóttur myndhöggvara, var valinn staður við Alþingishúsið og afhjúpuð 2015, á aldarafmæli kosningaréttar kvenna. Kostnaður við styttuna var greiddur með frjálsum framlögum nokkurra fyrirtækja, sem leitað var til í þessu skyni eftir að Alþingi hafði synjað verkefninu fjárstuðnings.

Styttan nær vel svipmóti og skapgerð Ingibjargar. Hún var kona sem gustaði um en bjó um leið yfir fágun og glæsileika. Vegna þessara mannkosta var hún áratugum saman merkisberi og einingartákn íslenskra kvenna.

Greinin birtist í Morgunblaðinu, 22. febrúar 2023.