Samgöngusáttmáli eða skattheimtusáttmáli?

Kjartan Magnússon borgarfulltrúi:

Dýr­asti draum­ur vinstri manna er borg­ar­lín­an svo­kallaða. Hún er jafn­framt helsta áherslu­mál meiri­hluta Sam­fylk­ing­ar, Fram­sókn­ar­flokks, Pírata og Viðreisn­ar á þessu kjör­tíma­bili. Kynnt­ar hafa verið und­ar­leg­ar for­send­ur, sem byggj­ast á ósk­hyggju varðandi fjár­fest­ing­ar­kostnað og notk­un kerf­is­ins.

Slík ósk­hyggja er þekkt þegar lauma á op­in­ber­um fram­kvæmd­um með óviss­an kostnað yfir á herðar skatt­greiðenda. Þá eru lág­ar töl­ur nefnd­ar í upp­hafi á meðan verið er að „selja“ verk­efnið og afla stuðnings hjá auðtrúa stjórn­mála­mönn­um og al­menn­ingi. Eft­ir að ákvörðun hef­ur verið tek­in og fram­kvæmd­ir komn­ar af stað, snar­hækka kostnaðartöl­ur og verða jafn­framt raun­hæf­ari. En þá er líka oft­ast orðið of seint að hætta við.

173 millj­arðar

Borg­ar­línu­verk­efnið er hluti af svo­kölluðum sam­göngusátt­mála, sem gerður var 2019 milli skatta­sinna flestra flokka. Inn­an vé­banda sátt­mál­ans má vissu­lega finna arðbæra vega­gerð og þarfar stíga­fram­kvæmd­ir sem lengi hef­ur verið beðið eft­ir. Fram­kvæmd­ir sem raun­ar hefði átt að ráðast í fyr­ir löngu með því mikla fé sem fell­ur til ár­lega á höfuðborg­ar­svæðinu með bens­íngjaldi og öðrum bif­reiðaskött­um.

Áætlaður kostnaður við sam­göngusátt­mál­ann er nú kom­inn í 173 millj­arða króna sam­kvæmt sam­an­tekt Morg­un­blaðsins. At­hygli vek­ur að áætlaður kostnaður við þrjú stokka­verk­efni nem­ur sam­tals 54 millj­örðum. Þar af sex­fald­ast kostnaðarmat Sæ­braut­ar­stokks og nem­ur nú tæp­um 18 millj­örðum.

Áætlaður kostnaður við fyrsta áfanga borg­ar­línu nem­ur 28 millj­örðum króna. Kostnaður við sex áfanga borg­ar­línu er áætlaður 69 millj­arðar króna, sem telja má mikla bjart­sýni miðað við áætlað um­fang. Eng­inn veit hver rekst­ar­kostnaður borg­ar­línu verður en hann kem­ur til viðbót­ar. Ekki skipt­ir máli hvort sá kostnaður lend­ir hjá ríki eða borg því niðurstaðan er sú sama: hann lend­ir á þér, skatt­greiðandi góður.

End­ur­skoða þarf sam­göngusátt­mál­ann

Ótækt er að skatt­greiðend­ur séu látn­ir fjár­magna verk­efni eins og borg­ar­lín­una þegar all­ar for­send­ur varðandi fjár­fest­ingu, rekst­ur og ávinn­ing eru svo veik­ar.

Mun betri kost­ur er að styðja bet­ur við nú­ver­andi stræt­is­vagna­kerfi sem má svo sann­ar­lega efla og bæta. Strætó bs. sár­vant­ar fé til bæði rekstr­ar og vagna­kaupa. Á sama tíma og Reykja­vík­ur­borg, meiri­hluta­eig­andi Strætó, ræður ekki við að reka það fyr­ir­tæki sóma­sam­lega, vill vinstri meiri­hlut­inn stofna annað stræt­is­vagna­kerfi, sem ljóst er að verður miklu dýr­ara í fjár­fest­ingu og rekstri en það sem fyr­ir er.

Svo­kölluð „létt­lausn“ borg­ar­línu gæti orðið mála­miðlun en fær­ustu sér­fræðing­ar hafa reiknað út að með henni væri unnt að ná flest­um mark­miðum „þungr­ar borg­ar­línu“ fyr­ir aðeins hluta áður­nefnds kostnaðar.

Aðhalds er þörf í op­in­ber­um rekstri enda á mik­il skulda­söfn­un sér stað hjá bæði ríki og borg. End­ur­skoða þarf öll verk­efni sam­göngusátt­mál­ans út frá arðsemi og raun­hæfni.

Forkólf­ar borg­ar­línu hyggj­ast fjár­magna fram­kvæmd­ir við hana með nýrri skatt­lagn­ingu, sér­stök­um veg­gjöld­um á höfuðborg­ar­búa, sem nú þegar greiða ein­hverja hæstu bens­ín- og bíla­skatta í heimi. Raf­skynj­ar­ar, sem komið verður fyr­ir á völd­um stöðum í borg­inni, eiga að skrá all­ar ferðir okk­ar og rukka sam­kvæmt því.

Borg­ar­línu­skatt? – Nei takk!

Verði nýr skatt­ur lagður á Reyk­vík­inga, hvort sem hann heit­ir borg­ar­línu­skatt­ur, veggjald, tafa­gjald eða flýtigjald, er grund­vall­ar­krafa að aðrir skatt­ar lækki jafn­mikið á móti. Fáir trúa því að það verði gert. Nær ómögu­legt virðist vera að lækka skatta eða af­nema eft­ir að þeir hafa einu sinni verið lagðir á.

Ef ráðist verður í um­rædda skatt­heimtu eins og aðstand­end­ur henn­ar sjá fyr­ir sér, verður um að ræða ein­hverja mestu gjalda­hækk­un á borg­ar­búa sem um get­ur.

Slíka ós­vinnu verður að koma í veg fyr­ir.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 2. febrúar 2023.