Flugvöllur án slitlags ekki forsvaranlegur

Ekki er forsvaranlegt að flugvöllurinn á Blönduósi sé eini skilgreindi sjúkraflugvöllurinn án slitlags að sögn Guðmundar Hauks Jakobssonar, forseta sveitarstjórnar Húnabyggðar, að því er fram kemur í viðtali við hann hjá Feyki.is. Í samtali miðilsins við Guðmund Hauk kemur fram að allra nauðsynlegustu framkvæmdum hafi lokið fyrir tveimur árum, að því er varðar aðflugshallaljós og RNP aðflug, en það er aðeins fyrsta skrefið að mati Guðmundar Hauks.

„Þetta mál snýr bara þannig að þegar við fáum heimsóknir frá ráðamönnum þá eru okkur allir sammála um mikilvægi þessa verkefnis og menn og konur hafa slegið sér á brjóst og sagt að þetta verði nú bara að raungerast en því miður þá virðist fenna yfir málið um leið og yfir sýslumörk er farið,“ sagði Guðmundur Haukur í samtali við Feyki, en hann skorar á innviðaráðherra og ríkisstjórn að upplýsa Húnabyggð um það hvenæar vænta megi slitlags á flugvöllinn.

„Til að byrja með þá er flugvöllurinn ekki bara fyrir íbúa Húnavatnssýslna, hann gegnir líka gríðarlega mikilvægu hlutverki fyrir þjóðveg 1 og vegfarendur sem um hann fara svo dæmi sé tekið. Flugvöllurinn hefur bjargað mannslífum og það þarf ekki að horfa lengra en til síðastliðins árs, leyfi ég mér að fullyrða. Hvers virði er mannslíf er hægt að spyrja á móti. Flugvöllurinn er lífæð og um hann þurfa okkar brýnustu bjargir að fara þegar svo ber við og hver mínúta skiptir máli,“ segir Guðmundur Haukur.

Viðtalið í heild sinni má lesa hér.