Eitrað andrúmsloft á tveimur glærum

Óli Björn Kárason formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:

Kenn­ari við þann góða skóla, Versl­un­ar­skóla Íslands, komst að þeirri niður­stöðu að það væri rétt, skyn­sam­legt og rök­rétt að út­búa glæru fyr­ir nem­end­ur með mynd af þrem­ur ein­stak­ling­um, Hitler, Mus­sol­ini og Sig­mundi Davíð Gunn­laugs­syni. Yf­ir­skrift­in: „Nokkr­ir merk­ir þjóðern­is­sinn­ar.“

Hvernig kenn­ara (og hér skipt­ir sam­hengið litlu) dett­ur í hug að setja þekkta hrotta, morðingja og and­lýðræðissinna við hlið ís­lensks stjórn­mála­manns er óskilj­an­legt nema til­gang­ur­inn hafi verið sá einn að vekja ákveðin hug­renn­inga­tengsl hjá nem­end­um: Í raun séu hug­mynda­fræðileg tengsl á milli for­manns Miðflokks­ins og tveggja af verstu ill­menn­um sög­unn­ar. Hitler og Mus­sol­ini eru í hópi með Stalín og Maó. All­ir áttu þeir blóði drifna slóð og virtu líf ein­stak­linga að vett­ugi og fót­um tróðu frelsi og lýðræði.

(Orðanotk­un kenn­ar­ans vek­ur at­hygli. Merk­ur er sá sem er telst mæt­ur, merki­leg­ur eða jafn­vel at­hygl­is­verður. Hvorki Hitler eða Mus­sol­ini voru merk­ir ein­stak­ling­ar. Íslensk­an á fjöl­mörg orð til að lýsa mönn­um af þeirra sauðahúsi; ill­menni, níðing­ar, var­menni, þræl­menni, fant­ar, óþokk­ar, hrott­ar. En auðvitað er illa hægt að nota rétt orð til að lýsa al­ræmd­um morðingj­um og gefa um leið í skyn að Sig­mund­ur Davíð eigi eitt­hvað sam­eig­in­legt með þeim. Þá hefðu nem­end­ur ör­ugg­lega hlegið, sum­ir mót­mælt og séð í gegn­um ómerki­leg­an áróður­inn. Kenn­ar­inn hefði misst trúnað og traust í kennslu­stof­unni).

Sig­mund­ur Davíð vakti at­hygli á glær­unni í færslu á Face­book og í sam­tali við Frétta­blaðið sagði hann meðal ann­ars:

„Þarna er verið að búa til mjög ógeðfellt sam­hengi og það er ekki hægt að kalla þetta annað en póli­tíska inn­ræt­ingu, þegar mynd af starf­andi stjórn­mála­manni er sett við hliðina á mynd­um af tveim­ur helstu ill­menn­um mann­kyns­sög­unn­ar.“

Föls­un og rang­færsla

Viðbrögð Sig­mund­ar Davíðs voru hófstillt miðað við til­efnið. Ég er nokkuð sann­færður um að for­ystumaður á vinstri væng stjórn­mál­anna hefði haft uppi stærri orð og þyngri ef viðkom­andi hefði verið stillt upp á glæru með Stalín og Maó und­ir yf­ir­skrift­inni „Merk­ir sam­eign­arsinn­ar“. Kraf­ist hefði verið brottrekstr­ar kenn­ar­ans og frétta­stofa rík­is­ins hefði farið ham­förum í nokkra daga. Að setja vinstri mann í flokk með fjölda­morðingj­um og alræðis­herr­um er inn­ræt­ing af verstu gerð sem aldrei skal líðast. Að tengja fyrr­ver­andi for­sæt­is­ráðherra og formann Miðflokks­ins við Hitler og Mus­sol­ini er mennt­un!!

En kenn­ar­inn í Versló er ekki sá eini sem hef­ur gert sig sek­an um smekk­leysu (svo ekki séu notuð sterk­ari orð). Elliði Vign­is­son, sveit­ar­stjóri í Ölfusi, birti mynd af glæru sem notuð er við kennslu við Mennta­skól­ann við Sund. Þar er Sjálf­stæðis­flokkn­um líkt við Þýska­land Hitlers, Gestapó og út­rým­ingu kynþátta. For­herðing­in er full­kom­in. Föls­un­in og rang­færsl­urn­ar eru yf­ir­gengi­leg­ar. Því verður vart trúað að kennsla í ís­lensk­um fram­halds­skól­um sé kom­in niður á þann stall að eiga ekk­ert skylt við mennt­un, sem all­ir skól­ar hafa gefið nem­end­um sín­um fyr­ir­heit um að veita. Kennsla sem er byggð á inn­ræt­ingu og föls­un­um hent­ar aðeins þeim sem aðhyll­ast for­ræðis­hyggju og ganga á hólm við frjálsa og sjálf­stæða hugs­un.

Sam­kvæmt frétt­um eru báðir kenn­ar­arn­ir sem hlut eiga að máli virk­ir í starfi vinstri flokka. Við því er ekk­ert að segja. Það er ekk­ert óeðli­legt að kenn­ar­ar, líkt og aðrir lands­menn, taki til máls í ræðu og riti. Berj­ist fyr­ir fram­gangi ákveðinna hug­sjóna. Kennslu­stof­an get­ur hins veg­ar aldrei og má aldrei verða vett­vang­ur póli­tískr­ar inn­ræt­ing­ar. Kennslu­stof­an á að vera skjól nem­enda til að sækja sér þekk­ingu og auka skiln­ing sinn á ólík­um viðfangs­efn­um. Griðastaður til að til­einka sér gagn­rýna hugs­un, kynn­ast ólík­um aðferðum og sjón­ar­miðum. Inn­ræt­ing, smekk­leysa og blekk­ing­ar rjúfa griðin.

Rjúf­um þögn­ina

Ef til vill eru glær­urn­ar tvær aðeins birt­ing­ar­mynd þess eitraða and­rúms­lofts sem hef­ur fengið að mynd­ast í op­in­berri umræðu hér á landi og víðar á síðustu árum. Virðing­ar- og umb­urðarleysi gagn­vart ólík­um skoðunum hef­ur auk­ist. Kröf­urn­ar og leik­regl­urn­ar hafa breyst. Dylgj­ur og meiðyrði vefjast lítið fyr­ir sum­um þeirra sem tekið hafa að sér að kenna við æðstu mennta­stofn­an­ir lands­ins. Búið er að setja hlut­leys­is- og sann­girn­is­regl­ur rík­is­rek­ins fjöl­miðils ofan í læsta skúffu sem eng­inn man hvar er og lykl­in­um hent.

Ég hef áður velt því upp hvort for­ystu­menn borg­ara­legra afla hafi búið til sitt eigið sjálf­skap­ar­víti með aðgerðarleysi – af­hent and­stæðing­um sín­um dag­skrár­valdið í op­in­berri umræðu sem mynd­ar skjól til að mis­nota mennta­stofn­an­ir og fjöl­miðla. Hvort sem það er sann­gjarnt eða ekki þá er ágæt­ur fé­lagi minn sann­færður um að upp­gang­ur vinstri mennsku sé af­leiðing af því að við, kjörn­ir full­trú­ar Sjálf­stæðis­flokks­ins, höf­um forðast hug­mynda­fræðilega bar­áttu. Höf­um af­hent vinstri mönn­um dag­skrár­valdið. Hægri menn elti umræðuna í stað þess að móta hana með skýrri hug­mynda­fræði og rök­um.

Það hef­ur yf­ir­leitt reynst mér vel að hlusta á þenn­an fé­laga minn. Og um eitt erum við sam­mála: Vinstri menn hef­ur ekki skort kjarkinn til að end­ur­rita sög­una enda þurfa marg­ir þeirra á því að halda. Þeir vita sem er að í póli­tískri bar­áttu erum við hægri menn frem­ur værukær­ir og fæst­ir sér­lega vopn­fim­ir. Óhrædd­ir mæta vinstri menn því á víg­völl stjórn­mál­anna og skirr­ast ekki við að breyta kennslu­stof­um í vett­vang póli­tískr­ar inn­ræt­ing­ar.

Er ekki kom­inn tími til að hægri menn taki hönd­um sam­an, rjúfi þögn­ina og hefji hug­mynda­fræðilega bar­áttu fyr­ir frelsi ein­stak­ling­anna, opnu sam­fé­lagi og mynda um leið jarðveg fyr­ir sjálf­stæða, gagn­rýna hugs­un?

Greinin birtist í Morgunblaðinu 18. janúar 2023.