Rjúfum vítahringinn

Óli Björn Kárason formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:

Á þessu ári verða út­gjöld rík­is­sjóðs, sam­kvæmt fjár­lög­um, vegna heil­brigðismála tæp­ir 325 millj­arðar króna. Þetta er nær 94 millj­örðum króna hærri fjár­hæð, á föstu verðlagi, en 2017 – árið sem sam­steypu­stjórn Sjálf­stæðis­flokks, Fram­sókn­ar­flokks og Vinstri-grænna tók við völd­um. Þetta er raun­aukn­ing um 40% – hvorki meira né minna. Þrátt fyr­ir þessa gríðarlegu aukn­ingu er því haldið fram að heil­brigðis­kerfið sé fjár­svelt.

Í um­fjöll­un sumra stjórn­mála­manna og fjöl­miðlunga er jafn­vel dreg­in upp sú mynd að niður­skurðar­hnífn­um hafi verið beitt óspart á heil­brigðis­kerfið á und­an­förn­um árum. Ekk­ert er fjær sanni. Frem­ur er hægt að halda því fram að gríðarleg aukn­ing út­gjalda rík­is­ins vegna heil­brigðismála hafi leitt til óhag­kvæm­ari nýt­ing­ar fjár­muna og um leið hafi stjórn­mála­menn og yf­ir­völd heil­brigðismála kom­ist hjá því að ráðast í nauðsyn­leg­ar og skyn­sam­leg­ar kerf­is­breyt­ing­ar til að tryggja góða og ör­ugga þjón­ustu við lands­menn.

Það er sama á hvaða mæli­kv­arða út­gjöld til heil­brigðismála eru skoðuð. Heild­ar­út­gjöld hafa snar­hækkað, út­gjöld sem hlut­fall af lands­fram­leiðslu og á hvern íbúa hafa hækkað hressi­lega. Vöxt­ur út­gjalda hef­ur verið langt um­fram vöxt lands­fram­leiðslu á síðustu árum.

Á föstu verðlagi hafa út­gjöld á íbúa ekki verið hærri í ára­tug. Árið 2017 voru þau um 694 þúsund krón­ur en stefna í að verða um 863 þúsund á þessu ári. Að teknu til­liti til ald­urs­sam­setn­ing­ar eru út­gjöld til heil­brigðismála sem hlut­fall af lands­fram­leiðslu há hér á landi. Leiðrétt fyr­ir ald­urs­sam­setn­ingu er kostnaður við heil­brigðis­kerfið sá þriðji hæsti inn­an OECD. Aðeins Banda­rík­in og Nor­eg­ur eru fyr­ir ofan. Heil­brigðisút­gjöld í Svíþjóð, Dan­mörku og Finn­landi, sem hlut­fall af lands­fram­leiðslu, eru tölu­vert lægri en á Íslandi.

Ratað í ógöng­ur

Ég hef lengi verið sann­færður um að umræðan um heil­brigðis­kerfið og stefnu­mót­un þess hafi ratað í ógöng­ur vegna gam­aldags hugs­un­ar­hátt­ar, þverg­irðings­legs viðhorfs til einka­rekstr­ar og að því er virðist blindr­ar trú­ar á að flest ef ekki öll vanda­mál sé hægt að leysa með aukn­um fjár­mun­um. Þess vegna snýst hið póli­tíska karp um hversu mikið skuli auka fjár­veit­ing­ar á hverju ári til heil­brigðismála. Karp sem verður oft­ar en ekki að yf­ir­boðum eins og kom ágæt­lega í ljós við af­greiðslu fjár­laga fyr­ir síðustu jól. Engu er lík­ara en það sé sjálf­stætt mark­mið að auka út­gjöld­in þannig að sí­fellt stærri hluti þjóðarfram­leiðslunn­ar renni til heil­brigðisút­gjalda. Skipu­lag kerf­is­ins og hag­kvæm nýt­ing fjár­muna verða auka­atriði. Hætt­an er sú að við miss­um sjón­ar á hvers vegna við höf­um ákveðið að reka sam­eig­in­legt sjúkra­trygg­inga­kerfi; að auka lífs­gæði allra með góðri og öfl­ugri heil­brigðisþjón­ustu.

Hug­sjón­in að baki ís­lenska heil­brigðis­kerf­inu – um aðgengi allra að góðri og nauðsyn­legri þjón­ustu óháð efna­hag – verður merk­ing­ar­laus ef fjár­mun­um er sóað í vit­lausu skipu­lagi. Sóun fjár­muna og fá­breytni í rekstr­ar­formi leiða til lak­ari þjón­ustu við okk­ur öll sem erum sjúkra­tryggð. Ójöfnuður og mis­rétti aukast þar sem hinir efna­meiri kaupa nauðsyn­lega þjón­ustu af inn­lend­um einkaaðilum eða í öðrum lönd­um, en við hin neyðumst til að bíða vik­um og mánuðum sam­an eft­ir þjón­ustu.

Víta­hring­ur Land­spít­al­ans

Sam­eig­in­legt sjúkra­trygg­inga­kerfi þýðir í sinni ein­földu mynd að fé fylgi þeim sem þarf á þjón­ustu að halda. Það er svo hlut­verk Sjúkra­trygg­inga Íslands að semja um þjón­ust­una fyr­ir okk­ar hönd óháð rekstr­ar­formi.

Hug­mynda­fræðin að baki Sjúkra­trygg­ing­um hef­ur því miður ekki náð fram að ganga nema að tak­mörkuðu leyti. Og ein­mitt þess vegna þarf fólk að bíða þol­in­mótt í rík­is­biðröðum t.d. eft­ir liðskiptaaðgerðum. Um leið hef­ur Land­spít­al­inn ekki fengið að ein­beita sér að kjarna- og lyk­il­starf­semi held­ur lát­inn axla sí­fellt fleiri verk­efni sem væru bet­ur kom­in utan spít­al­ans. Með þessu er ekki aðeins verið að sóa fjár­mun­um held­ur koma í veg fyr­ir að hæfi­leika­ríkt starfs­fólk spít­al­ans geti ein­beitt sér að því sem mestu skipt­ir. Þeir sem þurfa á þjón­ustu að halda líða fyr­ir og álag á spít­al­ann „yfir þol­mörk­um“ verður viðvar­andi – krón­ískt – ástand.

Við get­um orðað þetta svona: Gef­um Land­spít­al­an­um og starfs­fólki hans tæki­færi til að sinna kjarn­a­starf­semi og flytj­um aðra þjón­ustu frá spít­al­an­um til þeirra sem eru reiðubún­ir til að veita hana með samn­ing­um við Sjúkra­trygg­ing­ar. Ef yf­ir­völd heil­brigðismála eru ekki til­bú­in til að stokka upp spil­in verður ekki hægt að rjúfa þann víta­hring sem starf­semi mik­il­væg­ustu heil­brigðis­stofn­un­ar okk­ar er föst í.

Víta­hring­ur­inn verður hins veg­ar ekki slit­inn ef póli­tísk­ur stuðning­ur er ekki fyr­ir hendi. Því miður bend­ir margt til þess að sá stuðning­ur sé tak­markaður. Trú­in á rík­i­s­væðingu heil­brigðisþjón­ust­unn­ar lif­ir enn sæmi­legu lífi inn­an flestra stjórn­mála­flokka og í huga fjöl­miðlunga, þrátt fyr­ir biðlista, stór­auk­in út­gjöld, færri val­mögu­leika al­menn­ings til þjón­ustu og fá­breytt­ari starf­stæki­færi vel menntaðra heil­brigðis­starfs­manna. Hægt og bít­andi moln­ar und­an sam­eig­in­legu sjúkra­trygg­inga­kerfi og tvö­falt heil­brigðis­kerfi fest­ir ræt­ur. Af­leiðing­in verður aukið mis­rétti og auk­inn kostnaður sam­fé­lags­ins. Því verður ekki trúað að það sé vilji rík­is­stjórn­ar, sem hef­ur beitt sér fyr­ir gríðarlegri aukn­ingu út­gjalda til heil­brigðismála, að láta það verða sína arf­leifð.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 11. janúar 2023.