Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra:
Árið 2022 var ár breyttrar heimsmyndar. Með árásarstríði Rússa snemma árs var ekki aðeins ráðist á saklausa íbúa Úkraínu, heldur þau grunngildi sem við Íslendingar stöndum vörð um og byggjum fullveldi okkar á. Þar var ráðist gegn virðingu fyrir mannréttindum, alþjóðalögum og sjálfsákvörðunarrétti þjóða. Langt er síðan svo afdrifaríkir atburðir hafa átt sér stað í veröldinni og samstaða vinaþjóða hefur sjaldan skipt meira máli en nú.
Það var því mikilvægt að við Íslendingar tækjum skýra afstöðu með Úkraínu strax frá upphafi. Við stöndum með vinaþjóð okkar og þeim gildum sem vestræn ríki í Atlantshafsbandalaginu munu ávallt verja. Grundvöllur afstöðu okkar ristir djúpt. Fámenn herlaus þjóð sem hefur þurft að berjast fyrir fullveldi sínu og sjálfstæði þekkir sérstaklega vel hve dýrmætt, en brothætt, frelsið getur verið. Fyrir herlausa þjóð í Norður-Atlantshafi er stríðið sterk áminning um mikilvægi öryggis- og varnarmála á svæðinu.
Við Íslendingar munum áfram styðja við Úkraínu, jafnt í orði sem á borði, allt þar til innrásin er brotin á bak aftur og munum ekki láta okkar eftir liggja við uppbyggingarstarfið sem þá tekur við.
Eyland í alheimskrísu
Þó þau blikni í samanburði við raunir Úkraínumanna hafa áhrif innrásarinnar fundist langt út fyrir landamæri ríkisins. Framboðsbrestir og rof á framleiðslukeðjum hafa sett efnahagslíf fjölda ríkja úr skorðum með tilheyrandi áhrifum á íbúa. Það er fjarlægur veruleiki fyrir flesta Íslendinga að ræða um það við náungann hvað kostar að fara í sturtu eða hella upp á kaffikönnuna. Sú er hins vegar raunin víða í orkukreppunni sem nú skekur nágrannaríki okkar.
Það er á tímum sem þessum sem sjálfbærni í orkumálum verður ómetanleg, heita vatnið og sjálfbær raforka sér heimilunum fyrir hlýju og birtu. Við höfum marga styrkleika sem birtast um þessar mundir. Verðmætasköpun hefur verið mikil og atvinnuleysi lítið sem ekkert, eftir miklar hæðir í heimsfaraldrinum. Kaupmáttur hefur vaxið verulega undanfarin ár og haldist sterkur ólíkt því sem þekkist víða í kringum okkur – ekki síst vegna lægri tekjuskatts og mikils stuðnings við viðkvæma hópa.
Ný fyrirtæki spretta upp, vaxa, dafna og ráða nýtt starfsfólk. Íslenskt hugvit nýtist til að leysa fjölmörg alþjóðleg vandamál og með áframhaldandi skattastuðningi og hvetjandi umhverfi má gera ráð fyrir að sú þróun haldi áfram af fullum krafti.
Blómstrandi mannlíf
Kvennalandsliðið stóð sig með prýði á EM í fótbolta á Englandi í sumar og handboltalandslið karla tryggði sér sæti á HM sem hefst á næstu dögum, en þar eigum við nú suma af bestu leikmönnum samtímans. Íslenskt íþróttafólk nær glæstum árangri, hvort sem er í sundi, á gönguskíðum eða öðrum greinum.
Listafólkið okkar haslar sér völl um allan heim. Víkingur Heiðar fékk hin virtu Schock-verðlaun á árinu, Laufey Lín átti eina vinsælustu plötu Bandaríkjanna og Ragnar Kjartansson, sem pakkaði sýningu sinni í Moskvu saman eftir innrásina í Úkraínu, heldur áfram að slá í gegn um allan heim. Hildur Guðnadóttir fékk svo enn eina tilnefningu til verðlauna nú undir lok árs og fjöldi annars hæfileikafólks í kvikmyndagerð sækir fram. Áfram mætti lengi telja.
Afrek ársins eru mörg og til marks um þann kraft sem í þjóðinni býr. Sterk staða Íslendinga á flestum sviðum er ekki sjálfsögð, heldur afleiðing áræðni, framtakssemi og fyrirhyggju – bæði kynslóðanna sem nú lifa og þeirra sem á undan komu. Með sama hugarfari á ári komanda heldur sóknin áfram.
Tækifæri í áskorunum
Þrátt fyrir að verðbólga sé hér einna minnst í Evrópu skiptir öllu máli að ná henni áfram niður. Til þess þarf samhent átak en stöðugleiki er markmið sem á að vera hægt að sameinast um. Gott leiðarljós við þær aðstæður sem nú hafa skapast er að sígandi lukka er best. Góð tíðindi af kjarasamningum nú fyrir hátíðarnar gefa fyrirheit um að við séum á réttri braut. Hins vegar skiptir máli að við gefumst ekki upp á því mikilvæga verkefni að styrkja íslenska vinnumarkaðslíkanið og sjálfsagt að horfa til Norðurlanda í því sambandi, með markmið um stöðugleika, grænan vöxt og vaxandi velsæld allra að leiðarljósi.
Enn ber of mikið á ákalli um ríkisvæðingu allra verkefna sem aftur kallar á enn aukin útgjöld sem fjármagna á með stærri lánum og hærri sköttum. Ríkið gegnir víða lykilhlutverki, svo sem í heilbrigðis- og félagsþjónustu og menntakerfinu, en samkeppni getur þrifist víðar og einkaframtakið gegnir lykilhlutverki í því sambandi. Við munum ekki vaxa til velsældar með ríkisvæðingu tækifæranna. Mikilvægum áfanga var náð á árinu við að draga úr ríkisumsvifum með öðrum söluáfanga ríkisins á hlut í Íslandsbanka.
Að undanförnu hefur náðst mikill árangur í að stafvæða þjónustu ríkisins. Við erum í reynd að bylta þjónustunni með tækni og spara um leið tíma og peninga. Nýta þarf tæknina áfram til að fá meira fyrir minna og minnka þannig umfang hins opinbera þar sem færi gefst. Síðustu ár hafa ýmsar stofnanir verið sameinaðar og lagðar niður með góðum árangri og minni yfirbyggingu, en við eigum enn þá mikið inni. Höfuðáherslan á að vera á að sækja lausnirnar út í samfélagið, en ekki inn í Stjórnarráðið.
Við endurnýjun ríkisstjórnarsamstarfsins tókst að leysa úr þeim hnút sem upp var kominn í rammaáætlun. Við Íslendingar erum fyrirmynd í nýtingu jarðvarma og vatnsafls og erum ekki síst þess vegna í dauðafæri til að verða leiðandi afl á sviði grænna lausna. Við búum yfir auðlindum, þekkingu og tækifærum til að ná dýrmætu forskoti í orkuskiptum og kynna til sögunnar tækni og lausnir sem geta haft raunveruleg áhrif í baráttunni við loftslagsbreytingar.
Við höfum sett okkur metnaðarfull markmið um samdrátt í losun sem kallar á átak í orkuvinnslu. Alger forsenda þess að stórir áfangar náist í orkuskiptunum er aukinn kraftur í virkjanagerð um leið og öðrum þáttum aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum, varðandi landnotkun, rafvæðingu hafna, hringrásarhagkerfið og fleiri þætti er hrint í framkvæmd. Það er til mikils að vinna.
Takk fyrir traustið
Við höfum sterklega verið minnt á það undanfarin ár að ómögulegt er að spá fyrir um hvað framtíðin ber í skauti sér. Það breytir því ekki að ávallt er fullt tilefni til að horfa björtum augum fram veginn, mæta hverri áskorun sigurviss og taka nýju ári fagnandi. Þrátt fyrir strjálbýli, norðlæga legu okkar og oft erfitt tíðarfar hefur tekist að skapa hér samfélag sem stendur öðrum framar. Samfélag okkar hefur staðið sterkt í gegnum innlend jafnt sem utanaðkomandi áföll, en uppskriftin að þessum árangri er trúin á einstaklinginn, framtakssemi og frelsi til orða og athafna.
Það eru þessi gildi og samfélagið sem skapast hefur á grunni þeirra, ekki síst eftir að sjálfstæði og fullveldi landsins var tryggt, sem kveiktu áhuga minn á landsmálunum. Fyrir mig hefur það verið sérstakur heiður að fá að leiða stærsta stjórnmálaafl landsins í rúman áratug og ótvíræður hápunktur ársins að hljóta sterkt umboð til að halda því áfram eftir glæsilegan landsfundi okkar í nóvember. Frá honum komum við endurnærð og full af eldmóði til að vinna að frekari framfaramálum fyrir þjóðina.
Gleðilegt nýtt ár.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 31. desember 2022.