Rétt forgangsröðun

Árið 2022 er mitt fyrsta ár í embætti bæjarstjóra Kópavogs, fyrsta hálfa árið hefur verið viðburðaríkt, fjölbreytt og áhugavert. Ég er þakklát fyrir að það traust sem mér er sýnt til að gegna þessu mikilvæga embætti og mun leggja mitt af mörkum til að þjónusta bæjarbúa, gera betur í dag en í gær. Stærsta áskorun í starfi felst í því að sofna ekki á verðinum eða vera værukær. Því er nauðsynlegt að standa vörð um það sem vel er gert, en vera um leið vakandi fyrir nýjum og ferskum hugmyndum.

Hjá okkur sem gegnum forystu í sveitarfélögum einkennast haustin af vinnu við fjárhagsáætlun. Áætlun Kópavogsbæjar ársins 2023 endurspeglar ábyrgan rekstur og rétta forgangsröðun í erfiðu efnahagsumhverfi. Álögur lækka á bæjarbúa og fyrirtæki í bænum auk þess sem gjaldskrám verður stillt í hóf. Fjármagni verður forgangsraðað í þágu skóla og velferðarmála auk þess sem grunnþjónusta bæjarins verður efld enn frekar. Stærstu fjárfestingar næsta árs eru í skólum og íþróttamannvirkjum og þá verður lögð áhersla á viðhald mannvirkja en eins og dæmin sanna er mikilvægt að sinna því vel.

Það getur verið freistandi hjá stjórnmálamönnum í erfiðu rekstrarumhverfi að sækja það fjármagn sem til þarf í vasa skattgreiðenda til að tryggja að reksturinn gangi upp. Slík stefna hefur hins vegar afleiðingar. Við sem gegnum forystu í Kópavogi ætlum að hagræða í rekstri til að eiga þess kost á að efla grunnþjónustu bæjarins og lækka skatta. Það er sú stefna við höfum trú á og sú stefna sem við vinnum eftir. Verkefnið mitt sem bæjarstjóri á árinu 2023 verður að standa vörð um ábyrgan rekstur, sinna grunnþjónustu vel og tryggja að Kópavogur verði áfram sveitarfélag í fremstu röð.

Ég sendi sjálfstæðisfólki mínar bestu óskir um gleðilegt og farsælt nýtt ár með þakklæti fyrir samskiptin á árinu sem er að líða.

Ásdís Kristjánsdóttir,
bæjarstjóri Kópavogs