Áramótakveðja

Sjálfstæðisflokkurinn hóf meirihlutasamstarf í Dalvíkurbyggð í júní 2022, síðan þá höfum við ásamt starfsfólki velt við steinum til að skoða fjárhag og helstu breytur í útgjöldum. Það er krefjandi að hafa 100% endurnýjun í sveitarstjórn en það gefur líka tækifæri til að vinna á annan hátt og ekki láta hefðir eða ákvarðanir í fortíð hafa áhrif á stefnu til framtíðar.

Helstu niðurstöður okkar fyrstu fjárhagsáætlunar eru að heildartekjur verði 3105 milljónir 2023, rekstrargjöld 2709 milljónir, hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsgjöld 395 milljónir. Rekstrarniðurstaðan verði jákvæð um 138 milljónir. Áætlaðar fjárfestingar 414 milljónir. Launahlutfall 55%. Veltufjárhlutfall 13,6%.

Árin 2023 og 2024 verður vinna í gangi við nýtt aðalskipulag, og ný deiliskipulög fyrir íbúabyggð á Dalvík og Árskógssand. Jafnframt þarf að framkvæma og vinna eftir nýsamþykktu deiliskipulagi á Hauganesi.

Það er þörf á að tryggja og byggja upp innviði og á næstu árum verður farið í markvisst viðhald fasteigna og gatnakerfis ásamt nýframkvæmdum gatna og göngustíga.

Hönnun á Brimnesárvirkjun er á lokametrunum og það þarf að kynna það fyrir íbúum, hvort og hvernig við framkvæmum það verkefni.

Hitaveita Dalvíkur er fyrirtæki sem þarf að byggja upp til framtíðar. Við þurfum að styrkja reksturinn, veita fé í rannsóknir og tryggja sjálfbærni.

Fjárhagur hafnasjóðs er áhyggjuefni en framlegðin hefur farið úr 40% 2018 í 0% á þessu ári. Með góðum samtölum við starfsfólk og hagsmunaaðila höfum við tekið fjögur ákveðin skref til að rétta reksturinn við.

Sem kjörinn fulltrúi í nefndum eða sveitarstjórn þarf að hafa þor til að spyrja spurninga og reyna eftir bestu getu að undirbyggja ákvarðanir á gögnum, samtölum og reynslu. Við höfum sýnt það að við þorum, við horfum til baka til reynslunnar en tökum ákvarðanir til framtíðar.

Verkefni næsta árs eru ærin en spennandi, það þarf að gera kerfið skilvirkara, passa uppá samfélagið og eignir þess. Við hlökkum því til samstarfs við kjörna fulltrúa, starfsfólk, íbúa Dalvíkurbyggðar og aðra hagsmunaaðila 2023.

Ég sendi íbúum mínar bestu óskir um gleðilegt og farsælt komandi ár.

Freyr Antonsson
Oddviti D-listans í Dalvíkurbyggð.