Áramótakveðja

Við sjálfstæðisfólk í Vestmannaeyjum erum að horfa á eftir annasömu ári. Það sem stendur uppúr að lokum er að samstaðan er mikil. Auðvitað er það ákveðin lífstíll að vilja búa á eyju á Íslandi sem sjálft er lítil eyja langt norður í Atlandshafi. En hér eigum við heima og njótum þess að  vera þar sem friður ríkir og umfram allt er atvinnulífið öflugt og menningarlífið blómstrar.

Sjálfstæðismenn í Eyjum tóku þá ákvörðun snemma árs að efna til prófkjörs fyrir sveitarstjórnarkosningarnar. Síðast var prófkjör hjá flokknum fyrir 32 árum og kröftugt ákall var í samfélaginu og innan flokksins að bregðast við því. Prófkjörið tókst með ágætum þar sem mikið af nýju fólki ákvað að bjóða sig fram. Prófkjörinu var vel tekið hjá Eyjamönnum og mættu 927 manns á kjörstað, sem verður að teljast gott í okkar samfélagi. Niðurstaða prófkjörsins skilaði samhentum hóp inní kosningabaráttuna fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Eyjum. Takmarkið var að ná meirihluta eftir eitt tímabil í minnihluta. Því miður tókst ekki ætlunarverkið eftir kosningabaráttu þar sem frambjóðendur lögðu á sig mikla og metnaðarfulla vinnu. Niðurstaðan 44,1% atkvæða dugði ekki til að komast í hreinan meirihluta. Eftir samtöl við forystumenn E og H lista þá var ljóst að þau ætluðu að vinna áfram saman í meirihluta.

Samstarfið við meirihlutann hefur gengið með ágætum og nokkur af baráttumálum okkar hafa fengið samhljóm í bæjarstjórn, t.d. stækkun á Hamarsskóla, lækkun fasteignaskatta, kostnaðaraðhalds í fjárhagsáætlun og ekki síst undirbúning að hefja starfssemi á Sköpunarhúsi fyrir ungt fólk þar sem ný viðmið verða sett. En að sjálfsögðu veitum við aðhald í þeim málum sem við teljum stefna í ranga átt.

Það er ljóst að kröfur fólks aukast stöðugt um betri þjónustu á öllum sviðum. Við sem störfum í sveitarstjórn erum ekki eingöngu kosin til að skipta kökunni sem er til. VIð þurfum líka að hafa sýn á það hvernig kakan getur stækkað og hver sé grunnurinn að því að kakan verði til. Forsenda góðrar þjónustu ríkis og sveitarfélaga er öflugt atvinnulíf. Þar hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið í fararbroddi í langan tíma. Þar erum við vel sett í Eyjum og atvinnulífið hefur tekið miklum breytingum á síðustu árum með meiri fjölbreytileika í störfum en áður.

Það er ákveðin áskorun að starfa í minnihluta sveitarstjórnar. En ábyrgð okkar er engu að síður mikil og hefur okkur tekist að mynda ágætis traust og vinnuanda á þessu tímabili í bæjarstjórn með meirihlutanum. Enda eru mörg helstu baráttumálin okkar við ríkið um fjármagn til að sinna innviðauppbyggingu, samgöngum og heilbrigðismálum með þeim hætti sem við teljum ásættanlegt. Þar erum við öll á sama báti í samfélaginu.

Í lok árs þakka ég öllum þeim sem studdu okkur til góðra verka í bæjarstjórn, og ætlum við að gera okkar besta til að gera Vestmannaeyjar að góðum búsetukosti til framtíðar.

Eyþór Harðarson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum.