Það ríkir bjartsýni í Bolungarvík

Það sem er á allra vörum fyrir vestan er að það er uppgangur í Bolungarvík. Hér á einkaframtakið gott heimili og er kraftur í atvinnulífinu og bjartsýni á framtíðina meðal íbúa. Íbúum fer nú fjölgandi eftir áralangt tímabil fólksfækkunar. Þrátt fyrir að Sjálfstæðismenn og óháðir hafi misst meirihlutann í bæjarstjórn síðastliðið vor þá er sú uppsveifla sem nú ríkir í bæjarfélaginu afrakstur vinnu okkar Sjálfstæðismanna við stjórn bæjarins undanfarin ár.

Bygging útsýnispalls á Bolafjalli er stærsta framkvæmd sveitarfélagins undanfarin misseri en þar tókust á krefjandi aðstæður og öflugt íslenskt hugvit. Afraksturinn er einstakt mannvirki sem nær út fyrir fjallsbrún í rúmlega 600 metra hæð og býður upp á fallegt útsýni og ótrúlega upplifun. Þeirri upplifun er erfitt að lýsa og því best að prófa af eigin raun. Ég hvet því alla til að leggja leið sína til Bolungarvíkur á komandi ári og njóta magnaðs útsýnis af Bolafjalli.

Höfnin er lífæð Bolungarvíkur og hefur útgerðin hér verið í vexti undanfarin ár. Hér er einnig að byggjast upp afkastamikil og framsækin fiskvinnsla sem mun verða í fremstu röð á landsvísu. Það hefur alltaf verið stefna Sjálfstæðismanna að hafnaraðstæður séu eins og best verður á kosið en Bolungarvík liggur vel að góðum fiskimiðum og því mikilvægt að aðstaða fyrir fiskiskip sé til fyrirmyndar.

Lífið er ekki bara fiskur í Bolungarvík en Mjólkurvinnslan Arna er einnig staðsett í bænum og eru þar unnar laktósafríar mjólkurvörur og vegan-vörur á borð við hafrajógurt og hafraskyr. Stærsta einkaframkvæmdin í Bolungarvík er bygging hátækni laxavinnslu sem mun í fyrsta áfanga geta annað 30.000 tonna framleiðslu á ári. Það jafngildir tvöföldu því magni af bolfiski sem nú berst á land í Bolungarvík á ári hverju.

Stærsta framfaraverkefnið sem sveitarfélagið kemur að með beinum hætti er skipulagning og uppbygging nýs íbúahverfis í útjaðri byggðarinnar. Þetta er mál sem við Sjálfstæðismenn settum á dagskrá þar sem við sáum að bærinn getur ekki vaxið nema að byggt verði nýtt íbúðarhúsnæði. Nú er deiliskipulag fyrir hverfið að verða klárt og hægt verður að úthluta nýjum lóðum eftir áramót.

Það ríkir bjartsýni í Bolungarvík og við erum að horfa fram á uppbyggingar- og vaxtartímabil. Uppskera áralangrar stjórnar Sjálfstæðismanna er góð og munum við beita kröftum okkar í bæjarstjórn til að byggja áfram upp öfluga Bolungarvík.

Jóla- og áramótakveðjur úr Víkinni fögru.

Baldur Smári Einarsson,
Oddviti Sjálfstæðismanna og óháðra í Bolungarvík