Fjárfest í vexti og velsæld íbúa í Garðabæ

Við Sjálfstæðisfólk í Garðabæ fengum sjö menn kjörna í sveitarstjórnarkosningunum í maí og héldum því okkar trausta meirihluta. Ég tók við sem nýr bæjarstjóri en bæjarfulltrúahópur okkar er góð blanda af fólki með mikla reynslu og nýliðum. Við höfum unnið útfrá fyrirheitum okkar í kosningabaráttunni.

Við leggjum áfram áherslu á góðan rekstur og lágar álögur á íbúa, sem endurspeglast í nýsamþykktri fjárhagsáætlun. Skuldahlutfall Garðabæjar er mjög lágt í samanburði við önnur stærri sveitarfélög og við munum hafa burði til að fjármagna framkvæmdir að töluverðu leyti úr sterkum rekstri. Útsvar í Garðabæ er lægra en þekkist í flestum sveitarfélögum og við lækkuðum fasteignagjöld myndarlega á móti hækkun gjaldsstofnsins. Við erum jafnframt að vinna áfram að stafrænum lausnum og eflingu annarrar þjónustu sem einfaldar líf og bætir lífsgæði íbúa.

Við erum að fjárfesta í vexti og velsæld sem kemur greinilega fram í áætlun næstu ára hjá okkur. Við höldum áfram að byggja upp grunn- og leikskóla í nýjum hverfum og bæta aðstöðu í eldri hverfum. Í Urriðaholti er 2. áfangi Urriðaholtsskóla að rísa. Við höfum líka svarað breyttri íbúasamsetningu með því að fjölga duglega leikskólarýmum í bænum en í byrjun ársins 2024 verður tekinn í notkun þriðji leikskólinn í Garðabæ á rúmum tveimur árum. Við ætlum að gera ennþá betur hvað varðar endurbætur og viðhald á húsnæði og lóðum sveitarfélagsins og eru framlög til þess þrefölduð milli ára.

Við leggjum áherslu á gagnvirk samskipti við íbúa og erum ánægð með að við afgreiðslu fjárhagsáætlunar samþykktum við nokkur verkefni og áherslur sem íbúar bentu okkur á í árlegu ferli.

Það eru spennandi tímar framundan í Garðabæ. Við tökum fagnandi á móti árinu 2023 og ætlum okkur að halda metnaði og krafti í okkar starfi.

Með hátíðarkveðjum f.h. bæjarfulltrúa XD í Garðabæ,

Almar Guðmundsson
Oddviti Sjálfstæðisflokksins og bæjarstjóri Garðabæjar