Áramótakveðja

Þá eru liðnir sex mánuðir frá því að ný bæjarstjórn og bæjarráð tók til starfa eftir kosningar og ég sat minn fyrsta bæjarráðsfund sem formaður bæjarráðs en af því tilefni ákvað ég að setjast niður og koma nokkrum orðum niður á blað en mér eru minnisstæð þau orð margra forvera minna sem hafa komið að sveitarstjórnarmálum víðs vegar um land að árin fjögur myndu líða hratt.

Fyrr í desember fór fram seinni umræða um fjárhags- og fjárfestingaráætlun en í fjárhagsáætlun ársins 2023 er gert ráð fyrir að rekstrarafkoma A- hluta bæjarsjóðs verði jákvæð um rúmar 252 milljónir króna og að rekstrarafkoma A- og B- hluta verði jákvæð um samtals rúmar 142 milljónir króna. Á sama tíma gerir fjárfestinga- og framkvæmdaáætlun ráð fyrir fjárfestingum upp á rúmlega 2,5 milljarða króna sem sýnir glögglega metnað bæjarstjórnar til að halda áfram uppbyggingu mikilvægra innviða með það að markmiði að Akranes verði áfram í fremstu röð sveitarfélaga í að bjóða upp á góða þjónustu fyrir íbúa á öllum aldri.

Við komum til móts við heimili og fyrirtæki á Akranesi með því að lækka álagningarprósentu fasteignagjalda en eftir þá breytingu eru greiðslur íbúa að hækka í takti við verðlag almennt, en ekki í takti við hækkun fasteignaverðs eitt og sér. Þegar fasteignagjöld eru skoðuð kemur Akranes mjög vel út samanborið við önnur svæði á suðvesturhorni landsins og trónir á toppnum með lægstu fasteignagjöldin.

Þá eru sannarlega spennandi verkefni að banka upp á hjá okkur er snúa að atvinnumálum og mikilvægt að við spilum rétt úr þeim og höldum áfram að kynna græna iðngarða sem kost fyrir framtíðaruppbyggingu fyrirtækja. Einnig er fyrirhuguð er sókn í uppbyggingu atvinnu í samstarfi við þróunarfélögin á Breið og Grundartanga.

Akranes er sannarlega samfélag í sókn en aldrei hefur jafn miklu fjármagni verið veitt til fjárfestinga og framkvæmda og við erum hvergi nærri hætt.

Ég þakka ykkur góð kynni á árinu sem senn á enda og hlakka til frekara samstarfs. Ég færi mínar bestu kveðjur frá flokksfélögum mínum af Skaganum með óskum um gleðilegt og farsælt nýtt ár.

Líf Lárusdóttir
Oddviti Sjálfstæðisflokksins á Akranesi.