Áramótakveðja

Kæru félagar.

D- listi sjálfstæðismanna bauð fyrst fram í Hrunamannahreppi vorið 2018 og hlaut rúm 48% fylgi sem gaf okkur góðan meðbyr inn í það tímabil. Það var því ekki spurning að bjóða aftur fram lista sl. vor undir merkjum Sjálfstæðisflokksins enda höfðum við mikla trú á sigri sem varð svo raunin. Það sem dreif okkur áfram var einskær áhugi á nærsamfélaginu og að geta eflt sveitarfélagið og bætt búsetuskilyrði í okkar heimasveit. Auðvitað lá fyrir að við vildum gera betur í mörgum málaflokkum og nú þegar liðið er hálft ár af kjörtímabilinu hefur margt verið gert. Má þá helst nefna vinnu við gatnagerð sem fór í útboð í haust og verktakar í þann mund að fara af stað. En löngu tímabært var koma á framboði af lóðum, þá sérstaklega fyrir par- og raðhús. Lóðum verður úthlutað að undangenginni auglýsingu núna í janúar og verða þær tilbúnar til framkvæmda í júní 2023. Hrunamannahreppur hefur öll tækifæri til að vaxa nokkuð hratt enda innviðir sterkir sem leiðir af sér að gjaldskrár eru með lægra móti en víðast hvar annars staðar.

Við vinnu fjárhagsáætlunar nú í haust var lögð áhersla á góða samvinnu minni- og meirihluta sveitarstjórnar og fastanefnda sveitarfélagsins. Við erum því afar stolt af fjárhagsáætlun fyrir árið 2023 og ljóst að mikið verður umleikis í sveitarfélaginu á næsta ári sem ekki gefst að gera betri skil á í þessum pistli. Svo má að sjálfsögðu nefna að fá til liðs við okkur Aldísi Hafsteinsdóttir með alla sína þekkingu og reynslu á sveitarstjórnarstiginu. Það var sannkallaður happafengur fyrir okkar samfélag.

Það sem einkennir okkar samfélag er þessi mikli dugnaður og framtakssemi einstaklingsins. Sem dæmi má nefna að núna rétt fyrr jólin mætti veturinn með krafti, en þá mætti einnig íbúi og skóf „skautasvellið“ og lýsti upp með ljósamastri og annar íbúi mætti og bjó til gönguskíðabrautir. Allt saman var þetta í sjálfboðavinnu í þágu íbúanna á svæðinu en lengi mætti áfram telja svipuð dæmi. Það er akkúrat þetta framtak sem hvetur okkur áfram á D-listanum til að gera samfélagið enn betra.

Að lokum óska ég öllum gleðilegs nýs árs og megi nýtt ár verða öllum gott og gæfuríkt.

Jón Bjarnason
Oddviti D-listans í Hrunamannahreppi