Áramótakveðja

Kæru félagar,

Nú er viðburðarríkt ár senn á enda og brátt tekur við nýtt og spennandi ár. Eftir 16 ár í hreinum meirihluta í bæjarstjórn Hveragerðis náðum við ekki tilætluðum árangri í sveitarstjórnarkosningunum sem fram fóru 14. maí. Við stilltum upp flottum lista frambjóðenda og lögðum upp með málefnalega og skemmtilega kosningabaráttu þar sem við fórum yfir þá uppbyggingu sem hefur orðið í Hveragerði í okkar tíð og kynntum okkar framtíðarsýn fyrir bæinn, en það dugði því miður ekki til.

Það er vel hægt að reyna að finna ástæður þess að kosningarnar fóru eins og þær fóru, en það þýðir ekkert að dvelja við fortíðina heldur þarf að horfa fram á veginn. Ég sagði það eftir kosningar og stend við það að við á D-listanum munum í minnihluta veita nýjum meirihluta mikið aðhald með málefnalegum hætti þetta kjörtímabil og það höfum við gert og við getum sýnt fram á það. Við höfum veitt meirihlutanum aðhald með því að leggja fram okkar tillögur og fyrirspurnir í nefndum og ráðum bæjarins, við höfum komið í veg fyrir að ólöglegur bæjarstjórnarfundur var haldinn og nú í lok árs lögðum við fram metnaðarfulla fjárhagsáætlun sem hefði getað skilað bæjarsjóði í plús en ekki mínus líkt og nýr meirihluti áætlar fyrir næsta ár.

Starf Sjálfstæðisfélagsins í Hveragerði heldur áfram þrátt fyrir að D-listinn sé ekki lengur í meirihluta. Með öflugum félögum og félagsstarfi heldur starfsemi félagsins áfram, framboðslisti D-listans og stjórn Sjálfstæðisfélagsins hittist vikulega, laugardagskaffið er á sínum stað, stór hópur frá félaginu fór saman á landsfund Sjálfstæðisflokksins sem nýlega var haldinn og nú í desember gaf félagið út sitt árlega jólablað Bláhvers.

Kæru félagar, takk fyrir árið sem er að líða. Fyrir hönd okkar bæjarfulltrúa D-listans óska ég ykkur öllum hamingjuríks nýs árs!

Friðrik Sigurbjörnsson
Oddviti D-listans í Hveragerði