Kæru félagar.
Árið 2022 var viðburðarríkt hjá D-listanum í Rangárþingi eystra. Undirbúningur fyrir sveitarstjórnarkosningar gekk gríðarlega vel og kosningarbaráttan háð af miklum móð þar sem allir lögðust á eitt. Það skilaði okkur því að þegar upp var staðið og talið hafði verið úr kjörkössum, reyndust við stærsti flokkurinn í Rangárþingi eystra.
Eftir kosningar mynduðum við meirihluta með Nýja listanum. Þegar við höfðum rætt málin og farið yfir áherslur framboðana komumst við að því að það væri skynsamlegasta lausnin og vænleg til þess að koma í framkvæmd okkar helstu áherslumálum. Samstarfið hefur gengið mjög vel og ríkir traust og virðing á milli aðila. Undirritaður var ráðinn sveitarstjóri Rangárþings eystra, Tómas Birgir Magnússon oddviti Nýja listans var kjörinn oddviti sveitarstjórnar, Sigríður Karólína Viðarsdóttir fulltrúi D-lista var kjörin varaoddvi og Árný Hrund Svavarsdóttir fulltrúi D-lista var kjörin formaður byggðarráðs.
Eitt af fyrstu verkefnum nýrrar sveitarstjórnar var að inleiða breytt stjórnskipulag sveitarfélagsins. Miklar breytingar voru gerðar til að auka skilvirkni og gagnsæi stjórnsýslunnar með því að m.a. nefndum var fækkað verulega og þar með hlutverk þeirra og ábyrgð aukið. Fundartímar nefnda voru fastsettir ásamt því að fjölga fundum t.d. byggðarráðs og skipulags- og umhverfisnefndar.
Beint streymi af fundum sveitarstjórnar var áherslumál beggja frarmboða og var því komið á í upphafi kjörtímabilsins. Hefur það reynst gríðarlega vel og hefur orðið þess valdandi að fundir sveitarstjórnar eru bæði vandaðri og skilvirkari.
Mikil uppbygging hefur átt sér stað í Rangárþingi eystra á kjörtímabilinu og ekkert lát er á henni. Mikil áskorun er í því fólgin að sveitarfélagið sé í stakk búið til að taka við henni, t.d. með fjölbreyttu úrvali íbúða- og atvinnulóða ásamt því að standa fyrir uppbyggingu innviða samfélagsins til þess að geta þjónustað íbúana okkar sem best. Íbúum sveitarfélagsins fjölgaði um 100 manns á árinu og eru í fyrsta skipti yfir 2000. Nú standa yfir framkvæmdir við byggingu nýs 8 deilda leikskóla sem er kostnaðarsamasta framkvæmd sem sveitarfélagið hefur nokkurn tíma staðið fyrir.
Vinna við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2023 gekk vel og ríkir mikil bjartsýni um veg og vanda sveitarfélagsins til framtíðar.
F.h. D- listans í Rangárþingi eystra óskum við öllum sjálfstæðismönnum gleðilegra hátíðar og farsældar á nýju ári, með kærum þökkum fyrir stuðninginn á árinu sem er að líða.
Anton Kári Halldórsson,
oddviti D-lista og sveitarstjóri Rangárþings eystra.