Áramótapistill oddvita Sjálfstæðisflokksins í Norðurþingi

Eftir sveitarstjórnarkosningar í vor situr Sjálfstæðisflokkurinn í Norðurþingi áfram í meirihluta í sveitarstjórn og nú með Framsóknarflokknum. Gerður var metnaðarfullur en raunhæfur málefnasamningur þar sem markmiðin voru meðal annars að fjölga íbúum í sveitarfélaginu um 100 manns, stuðla að uppbyggingu í anda grænna iðngarða og stuðla að lýðheilsu barna og ungmenna. Þá var áhersla lögð á að byggingarlóðir fyrir íbúðir og atvinnuhúsnæði væru ætíð lausar til umsóknar innan sveitarfélagsins.

Þessi markmið endurspeglast í fjárhagsáætlun næsta árs og þriggja ára þar á eftir þar sem verið er að efla grunnþjónustu við íbúa sveitarfélagsins og forgangsröðun fjármuna í velferðar- og skólamál. Til dæmis voru aukin stöðugildi á fræðslusviði til að halda áfram þeirri metnaðarfullu stefnu að taka inn börn við eins árs aldur á leikskóla. Við töldum þó nauðsynlegt að ráðast í hagræðingar með það markmið að leiðarljósi að einfalda skipulag og starfsemi sveitarfélagins til að þjónusta íbúa betur og hófum við endurskipulag á skipuriti sveitarfélagsins.

Sveitarfélagið í samstarfi við Eim auglýsti eftir verkefnastjóra til að leiða vinnu við uppbyggingu græns iðngarðs á Bakka í anda nýsköpunar, loftlagsmála og orkuskipta en mikil tækifæri felast í uppbyggingu á svæðinu og tekur verkefnastjóri til starfa á nýju ári.

Framundan hjá okkur eru umfangsmiklar fjárfestingar á vegum sveitarfélagsins og má þar nefna uppbygging nýs hjúkrunarheimilis og uppbygging frístunda- og félagsmiðstöðvar fyrir unga fólkið. Jafnframt verður farið í viðamiklar fjárfestingar í höfnum sveitarfélagsins en samhliða því verður einnig fjármunum markvisst varið í viðhald eigna sveitarfélagsins.

Við í sveitarstjórn Norðurþings stöndum frammi fyrir ýmsum áskorunum í rekstri eins og mörg önnur sveitarfélög en má þar meðal annars nefna óvissu um framvindu efnahags- og kjaramála og fjármögnun á málaflokki fatlaðra sem hefur verið vanfjármagnaður af ríkinu til lengri tíma. Sveitarfélagið undir stjórn Sjálfstæðisflokksins er þó vel í stakk búið til að takast á við þessar áskoranir.

Að því sögðu óska ég flokksmönnum öllum og fjölskyldum þeirra gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.

Hafrún Olgeirsdóttir oddviti Sjálfstæðisflokksins í Norðurþingi