Áramótakveðja

Ég vil óska öllum sjálfstæðismönnum og íbúum í Ísafjarðarbæ gleðilegs nýs árs með þökk fyrir árið sem er að líða.

Árið hefur verið viðburðaríkt, ég tók við sem oddviti sjálfstæðisflokksins í Ísafjarðarbæ síðastliðið vor, ég vil þakka fyrir það tækifæri og að mér hafi verið treyst fyrir þessari mikilvægu stöðu.

Árið 2022 var kosningaár sem leiddi til þess að nýr meirihluti tók til starfa í júní. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur sitja í minnihluta og Í-listinn tók við meirihluta í bæjarstjórn.  Fulltrúar sjálfstæðisflokksins eru undirritaður og Steinunn G Einarsdóttir.

Það sem er helst að frétta frá Ísafjarðarbæ er að atvinnuástandið í sveitarfélaginu er mjög gott, fiskeldi er farið af stað og má sjá þess merki í sveitarfélaginu með uppbyggingu fyrirtækja að fjölgun íbúa. Vonir standa til að á næstu 4-5 árum verði íbúafjölgun um 10-15%. Þá hefur hátæknifyrirtækið Kerecis aukið starfsemi sína á Ísafirði og stefnt er að enn meiri uppbyggingu fyrirtækisins á næstu árum. Það eru því spennandi tímar framundan hjá okkur.

Sem fyrr eru orkumálin hugleikin okkur Vestfirðingum, því ræddi ég við bæjarfulltrúa annarra sveitarfélaga á Vestfjörðum um möguleika á virkjun á svæðinu. Í framhaldi af þeirri umræðu lagði ég til ásamt öðum aðilum tillögu um að sveitarfélögin hefðu undirbúning að gerð svæðisskipulags fyrir Vestfirði. Vonir mínar standa til þess að hægt verði að koma fyrir virkjun og þjóðgarði á svæðinu, því eitt ætti ekki að útloka annað. Þá tók ég saman fyrir meirihluta fjárlaganefndar upplýsingar um olíunotkun vegna húshitunar á Vestfjörðum og nauðsyn þess að leita þurfi eftir heitu vatni á Vestfjörðum svo og á Austfjörðum.

Vestfirðingar og Austfirðingar eru fiskeldissveitarfélög og hafa mikinn hag af því að fiskeldi gangi vel, við viljum að tekjur af fiskeldinu renni til sveitarfélaga án viðkomu í fiskeldissjóð. Í kjölfarið af samskiptum mínum við Austfirðinga var stofnaður starfshópur á vegum Fjórðungssambands Vestfirðinga þar sem fulltrúar sveitarfélaga á Vestfjörðum eiga að koma með tillögu að því hvernig ætti að skipta tekjunum milli sveitarfélaga á Vestfjörðum. Það verður svo vinna næstu mánaða og ára að sannfæra ríkisvaldið um þessa breytingu.

Að lokum langar mig að þakka samstarfsfólki mínu í Sjálfstæðisflokknum fyrir samvinnuna á árinu og hlakka til samstarfsins á næsta ári.

Jóhann Birkir Helgason
Oddviti Sjálfstæðisflokksins í Ísafjarðabær