Áramótakveðja

Sveitarstjórnarkosningarnar í vor einkenndu að stórum hluta starf okkar sjálfstæðismanna í Rangárþingi ytra á árinu 2022. Í mars héldum við prófkjör sem er það stærsta sem haldið hefur verið í sveitarfélaginu frá stofnun þess fyrir 20 árum. Í framhaldinu var stillt upp öflugum lista frambjóðenda sem hefur unnið einstaklega vel saman.

Það voru vissulega vonbrigði að flokkurinn hafi einungis fengið 49,4% í kosningunum og misst meirihlutann en í flestum öðrum sveitarfélögum þætti það þó góður stuðningur með þrjá fulltrúa af sjö í sveitarstjórn.

Starfið í sveitarstjórninni hefur gengið vel. Fulltrúar D-listans hafa lagt fram 14 tillögur í sveitarstjórn það sem af er kjörtímabilinu og fengið 11 þeirra samþykktar og einni tillögu frestað til síðari afgreiðslu. Við leggjum áherslu á að veita meirihlutanum málefnalegt aðhald og hefur samstarfið í sveitarstjórninni gengið vel.

Bæði framboð unnu sameiginlega að fjárhagsáætlun 2023 og þar fengu áherslur D-listans góðar undirtektir, m.a. um lækkun fasteignaskatta á næsta ári en fasteignaskattar A-hluta lækka úr 0,36% í 0,33% til að mæta verulegri hækkun fasteignamats sem tekur gildi á nýju ári en auk þess lækkar holræsagjaldið úr 0,25% í 0,22%. Með því var tryggt að fasteignaskattar hækka ekki umfram verðlag.

Fulltrúar D-listans hafa verið virkir í nefndum sveitarfélagsins og þar hefur einnig verið gott samstarf við fulltrúa meirihlutans. Það er okkar markmið að halda áfram á sömu braut á nýju ári og ná þannig árangri út frá okkar stefnumálum fyrir samfélagið allt.

Rekstur sveitarfélagsins er afar sterkur, lausafjárstaða góð og skuldir langt undir mörkum, sem má þakka því góða aðhaldi sem D-listinn hefur sýnt á síðustu árum og áfram er byggt á þeim grunni.

Ég óska íbúum sveitarfélagsins og landsmönnum öllum gleðilegs nýs árs og þakka samskiptin á árinu sem er að líða.

Ingvar P. Guðbjörnsson,
oddviti Sjálfstæðisflokksins í Rangárþingi ytra