Áramótakveðja

Árið 2022 hefur verið viðburðarríkt á Suðurnesjum með jarðskjálftum, eldgosi og óvenju snjóþungum desembermánuði svo eitthvað sé nefnt.

Áskoranir eru margvíslegar í Reykjanesbæ og þrátt fyrir að í mörgum málum standi ólík stjórnmálaöfl saman í að gera samfélagið betra þá hafa ólíkir stjórnmálaflokkar mismunandi áherslur þrátt fyrir að enginn efist um að allir séu að gera sitt besta.

Hér að neðan mun ég nefna helstu áherslur okkar Sjálfstæðismanna fyrstu mánuði kjörtímabilsins.

Atvinnumál

Við Sjálfstæðismenn höfum barist fyrir því að atvinnumál fái meiri athygli enda eru þau undirstaða þess að hægt sé að veita góða þjónustu.

Fjárfestingar

Okkur Sjálfstæðismönnum finnst 4 milljörðum af skattfé bæjarbúa í endurbætur á Myllubakkaskóla ekki vera vel varið þegar hægt væri að byggja nýjan skóla á sama stað með sambærilegu útliti fyrir örlítið meira og vera örugg með árangur. Endurbætur á ráðhúsi Reykjanesbæjar eru áætlaðar 600 milljónir en endurbætur á öllum öðrum skólum en Myllubakkaskóla og leikskólum, sem þegar hefur fundist mygla, eru áætlaðar 300 milljónir á næstu tveimur árum sem við teljum lága upphæð. Við erum ekki sammála því að loka rokksafninu og viljum að flutningur bókasafnsins verði ræddur betur og fleiri staðsetningar kannaðar.

Starfsmannafjöldi / launakostnaður

Í ört vaxandi samfélagi eins og í Reykjanesbæ þarf auðvitað að fjölga starfsfólki með tilheyrandi kostnaði. Við Sjálfstæðismenn höfum þó bent á að okkur finnist sérstakt að fjölgun starfsfólks hlutfallslega er langt umfram fjölgun íbúa og launakostnaður langt umfram hlutfallslega fjölgun og vísitölu.

Betri þjónusta við íbúa

Sjálfstæðismenn hafa bent á að leikskóla á að byggja samhliða því að hverfi byggjast upp. Umhirðu í bænum s.s. garðslátt þarf að bæta sem og  snjómokstur svo eitthvað sé nefnt. Nú mun einhver segja að snjórinn hafi verið óvenju mikill og er það rétt en við sjáum dæmi um góða stýringu á þessum málum t.d. í Kópavogi.

Íþróttamál

Við viljum gera hlut íþrótta meiri. Nú hefur orðið samstaða í bæjarstjórn um að skipa hópa um þessi mál, bæði framtíðarskipan mannvirkja og reksturs. Vonum við að niðurstaðan verði til þess að við getum staðið undir því að vera íþróttabær.

Hér að ofan hefur einungis verið farið yfir örfá dæmi um áherslu okkar Sjálfstæðismanna 2022.

Gleðilegt nýtt ár 2023.

Margrét Sanders

Oddviti Sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ